RÉTTHENTIR eiga oft erfitt með að átta sig á því hversu erfitt það er fyrir örvhenta að nota venjuleg verkfæri. Þegar örvhentir opna til dæmis vínflösku þá snúa þeir flöskunni en ekki opnaranum eins og rétthentir gera,
Lítil verslun sem rekin hefur verið í 30 ár í Soho-hverfi í London

Allt fyrir örvhenta Vöruúrval fyrir örvhenta hefur ekki verið mikið á Íslandi. Það er því góð hugmynd að kaupa nýtilegan hlut fyrir örvhenta ættingja eða vini þegar maður er staddur í verslunarhugleiðingum erlendis. Snæfríður Ingadóttir heimsótti búðina Anything Left Handed í London sem selur eingöngu vörur fyrir örvhenta.

RÉTTHENTIR eiga oft erfitt með að átta sig á því hversu erfitt það er fyrir örvhenta að nota venjuleg verkfæri. Þegar örvhentir opna til dæmis vínflösku þá snúa þeir flöskunni en ekki opnaranum eins og rétthentir gera," segir Brenda Widenka starfsmaður í búðinni Anything Left Handed í Soho-hverfinu í London. Brenda talar af reynslu því hún er sjálf örvhent eins og allir aðrir starfsmenn verslunarinnar. Búðin hefur í þrjátíu ár selt verkfæri og vörur ætlaðar örvhentum.

Þrátt fyrir að búðin sé ekki stór er vöruúrvalið breytt, allt frá yddurum upp í sláttuorf. Tölvuborð með tölustöfunum hægra megin, minnisbækur og skrifblokkir sem flettast frá vinstri til hægri og naglasnyrtisett með skærum fyrir örvhenta er bara brot af því sem hægt er að finna í búðinni. Það eru samt sníðaskærin og eldhúsáhúsáhöldin sem seljast best. Ekki síst dósaupptakarar og brauðhnífar sem geta verið, að sögn Brendu, hreinasta martröð í höndum örvhentra.

Slys vegna vondra verkfæra

"Slys meðal örvhentra má oftar en ekki rekja til ómeðfærilegra áhalda og verkfæra sem gerð eru fyrir rétthenta," segir hún og bætir við að Boch and Decker hafi breytt hönnun á einni af borvél sinni vegna fjölda slysa meðal örvhentra.

Í búðinni fást ekki eingöngu praktískir hlutir. Þar finnast líka ýmsir skemmtilegir hlutir sem taka ekki örvhenta of hátíðlega. Bolir með áletrunum eins og: "I may be left handed, but I'm always right", klukkur sem ganga öfugan hring og bækur með bröndurum um örvhenta. Í bókahillunni eru líka bækur sem fjalla eingöngu um frægt örvhent fólk og þar eru meðal annars nöfn eins og Marilyn Monroe, William prins, Charlie Chaplin, Bill Clinton og Leonard da Vinci að finna.

Klúbbur fyrir örvhenta

Vöruverðið í búðinni er hærra en gengur og gerist fyrir tilsvarandi vörur fyrir rétthenta. Sé maður hinsvegar meðlimur í klúbbi örvhentra fæst 10% afsláttur af öllu sem búðin selur. Markmið klúbbsins er að vekja áhuga hönnuða og framleiðenda á málum örvhentra og hvetja til framleiðslu á vörum fyrir þennan hóp. Klúbburinn vill auka skilning almennings á örvhendu og hvetur einnig til rannsókna á henni.

"Auðvitað bjarga flestir örvhentir sér án sérstaka verkfæra. Það er hægt að venjast flestu en af eigin reynslu get ég sagt að það er allt annað líf að nota þessi verkfæri hér," segir Brenda sem er að sjálfsögðu meðlimur í klúbbnum.

Hinn 13. ágúst hvert ár heldur klúbburinn dag örvhentra hátíðlegan. Þá koma örvhentir saman í Covent Garden til að skemmta sér og öðrum og rétthentum gefst kostur á að prófa verkfæri og áhöld gerð með hag örvhentra fyrir brjósti.

"Það er fyrst þá að mörgum rétthentum verður ljóst hversu klaufaleg venjuleg skæri geta verið í höndum örvhentra," segir Brenda, sem stendur í búðinni frá hálf tíu til fimm alla virka daga. Á laugardögum er búðin einnig opin til fimm en er ekki opnuð fyrr en klukkan tíu. Vörurnar er líka hægt að panta í gegnum póstlista.

Í GÖNGUFJARLÆGÐ frá Piccadilly Circus í London, nánar tiltekið á Brewer Street 57, er að finna búð sem selur eingöngu vörur fyrir örvhenta.

BRENDA Widenka er örvhent eins og aðrir sem vinna í búðinni.

HNÍFAPÖR fyrir örvhenta er eitt af því sem fæst í búðinni.

HVAÐ með minnisbók sem flettist frá vinstri til hægri?

SKÆRIN seljast langbest af öllum vörum búðarinnar. Dósaopnarar og brauðhnífar fylgja fast á eftir.