RÚSSAR eru þolgóð og kaldhæðin þjóð. Á síðustu mánuðum hafa þeir gengið í gegnum miklar þrengingar, stjórnarkreppu og efnahagsöngþveiti, og við blasir erfiður vetur. En þeir bera höfuðið hátt, rifja upp þrengingatímabil í sögu rússnesku þjóðarinnar, enda sagan hluti af reynsluheimi hennar, og draga svo dár að öllu saman.
Rússland hefur séð

það svartara

Rússar eru sagðir þolgóð og nægjusöm þjóð sem þekkir þrengingar og matarskort vel. En efnahagserfiðleikanna sér ekki aðeins stað í buddunni, þeir ýta undir spillingu þótt þeir veiki tæplega lýðræðið, að mati viðmælenda Urðar Gunnarsdóttur sem var nýlega stödd í Moskvu.

RÚSSAR eru þolgóð og kaldhæðin þjóð. Á síðustu mánuðum hafa þeir gengið í gegnum miklar þrengingar, stjórnarkreppu og efnahagsöngþveiti, og við blasir erfiður vetur. En þeir bera höfuðið hátt, rifja upp þrengingatímabil í sögu rússnesku þjóðarinnar, enda sagan hluti af reynsluheimi hennar, og draga svo dár að öllu saman. Hver dagur ber nýjan bankabrandara í skauti sér, hvort sem verðið á brauði í búðunum hefur hækkað eða gengi rúblunnar lækkað.

"Rússland hefur séð það svartara," er jafnan viðkvæðið í Rússlandi, hvort heldur er á meðal stjórnmálamanna, embættismanna eða fólksins á götunni. Fólks, sem segist þeirrar trúar að Rússland muni hafa betur í baráttunni við kreppudrauginn og segist trúa því að ástandið versni ekki frekar, þrátt fyrir hrakspár hagfræðinga. Reyndar segir Olga, sem var að kaupa notuð gönguskíði handa syni sínum, að hún þori hreinlega ekki að hugsa um framtíðina. Enn sem komið er geti hún og eiginmaðurinn lifað af laununum en enginn viti hversu lengi.

Það er hálfóraunverulegt að ímynda sér að matarskortur kunni að verða útbreiddur er líður á veturinn. Nú er haust og nægur matur í hillum verslana og á markaðstorgum. Víst eru viðskiptavinirnir fáir og haga innkaupunum öðruvísi en áður en á yfirborðinu lítur allt vel út. Í Moskvu eru framkvæmdir í fullum gangi og þeir sem áður hafa heimsótt borgina hafa á orði hve gífurlegar breytingar til batnaðar hafi orðið þar á örfáum árum.

Það sama á hins vegar ekki við um borgir og bæi utan höfuðborgarinnar, þar sem skorturinn er víða mikill og niðurníðslan óskapleg. Munurinn á Moskvu og mörgum stöðum utan hennar er svo mikill að í raun væri líklega réttast að tala um tvær þjóðir. Dæmi um þetta er Murmansk, sem undirrituð heimsótti ekki alls fyrir löngu, þar sem leifar sovéttímans, hálftómar hillur, bláfátækt fólk og skelfilega niðurnídd húsin eru í hróplegu ósamræmi við Moskvu, þar sem aðeins ein Lenínstytta stendur eftir til marks um sovéttímann, í ljóma vestrænna ljósaskilta.

Hvað eftir annað hafa menn talið að nú hlyti þolinmæði rússnesku þjóðarinnar að vera á þrotum en þolgæði hennar er engu líkt. Efnahagsþrengingarnar nú, sem menn hafa nú þegar fundið óþyrmilega fyrir hafa heldur ekki orðið til þess að fólk flýi örbirgðina. Rússneska þjóðin þraukar, jafnvel þótt ekki sé um langan veg að fara yfir til allsnægtanna. Fátæktin í Kirjálahéruðunum við finnsku landamærin, hefur ekki hrakið íbúana yfir til Finnlands. Hún gerði það ekki þegar hungrið var sem mest eftir valdatöku bolsévíka fyrr á öldinni og gerir það ekki núna, segja menn.

Spillingin mesti vandinn

Margir eru þeirrar skoðunar að mesti vandinn sem blasir við Rússum sé spillingin. Hægt væri að eyða mörgum dögum í að telja upp hvernig hennar sér stað. Hvernig fréttamenn þiggja fé frá stjórnmálamönnum fyrir að fá að koma fram í þáttum þeirra. Hvernig umferðarlögreglan sektar menn á staðnum, hvort sem þeir hafa brotið af sér eður ei. Hvernig skólastjórinn byggir hús fyrir sig og nánustu ættingja á sama tíma og kennararnir fá ekki borguð laun.

Vítalí Popov, yfirmaður lögregluskólans í Moskvu, kennir breytingunni yfir í markaðskerfi um spillinguna, hún sé til marks um skort á skýrum eignarrétti. "Ég hef aldrei kynnst öðru eins og nú. Í gamla daga gerðu menn hver öðrum greiða, nú berjast menn bara við að hagnast sjálfir án nokkurs tillits til náungans. Einna verstir eru embættismennirnir sem hafa allt of frjálsar hendur um túlkun óskýrra laga. Fjölmargir embættismenn eru í beinum tengslum við glæpahópa og þeir, svo og ýmsir stjórnmálamenn og fjárglæframenn, reyna með öllu móti að hindra setningu laga sem tekið gætu á spillingunni. Lög gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi hafa beðið afgreiðslu í þinginu í þrjú ár og engin lög eru til um brot á skattalögum. En þegar stöðugleiki kemst á í efnahagnum leiðir það til þess að það dregur úr afbrotum. Nú eru heilu þættir markaðskerfisins rotnir í gegn."

Popov er ómyrkur í máli þegar talið berst að stjórnmálamönnum, sem hann segir hugsa fyrst og fremst um að tryggja eigin hagsmuni á þeim fjórum árum sem þeir sitji á þingi, því fæstir þeirra nái endurkjöri og því verði að nýta tímann sem best. Allt of mörg dæmi séu um þingmenn og aðstoðarmenn þeirra sem hafi komist í kast við lögin.

350 lögregluþjónar falla árlega

Og glæpunum fjölgar, þótt norrænir lögreglumenn, sem starfa í samvinnu við rússnesku löggæsluna, segi að hættulegra sé að vera á ferli í miðborg Stokkhólms að kvöldlagi en í Moskvu, enda hafi rússneska lögreglan náð árangri í bráttunni gegn ofbeldisglæpum. Jafnhliða fjölgun glæpa, ekki síst skipulagðrar glæpastarfsemi, fækkar dómstólunum vegna fjárskorts. Dæmi eru um að dómstólarnir eigi ekki pappír til að skrifa á og tölvur eru afar sjaldséð sjón, segir Nikolaj Pavlov, sérfræðingur í hegningarlögum við lögregluskólann.

Lögreglan fer ekki varhluta af spillingunni og þar eins og annars staðar er unnið við erfiðar aðstæður, fjöldi manns um hvern síma og tölvu, og undir hælinn lagt hvort löggæslumennirnir fá laun. Því freistast sumir til að verða sér úti um fé, t.d. með því að sekta menn fyrir litlar eða engar sakir.

"Fjölmiðlar hamast í lögreglunni og segja hana spillta. Það þykir mér óréttlátt. Þótt vissulega séu dæmi um spillingu gerum við okkar besta í hættulegu starfi. Gleymið því ekki að árlega deyja 350 rússneskir lögregluþjónar við störf. Það eru ýmsir áhrifamiklir aðilar sem vilja veikja lögregluna og hafa góðan aðgang að fjölmiðlum til að sverta okkur. En það jákvæða við þetta óskaplega ástand," segir Popov og glottir, "er að við verðum okkur úti um reynslu sem við getum selt fyrir dollara."

Stefnir tæpast lýðræðinu í voða

Kreppunnar sér merki alls staðar. Sjónvarpsmaðurinn Lev Bruni kveðst þeirrar skoðunar að hún skaði t.d. tjáningarfrelsið. Blaðamenn hljóti að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifi eitthvað sem kunni að reita yfirmenn þeirra og þá sem þeim tengist til reiði. Líklega skili enginn fjölmiðill hagnaði og þeir sem fái greidd laun fá "svartar" greiðslur, sem hafi einnig áhrif á umfjöllun þeirra.

Sú spurning skýtur aftur og aftur upp kollinum, hvort lýðræðinu í Rússlandi sé hætta búin af kreppunni. Flestir stjórnmálaskýrendur virðast þeirrar skoðunar að það standi nægilega styrkum fótum til að þola það áfall sem efnahagskreppan er. Þeir eru einnig til sem telja að hún sé óhjákvæmilegur fylgifiskur lýðræðisumbóta, þær séu í eðli sínu sársaukafullar.

"Stórt sálfræðilegt vandamál"

Rússneski blaðamaðurinn Nikolaj Meinert er ekki eins bjartsýnn á framtíðina. Meinert liggur ekki á skoðunum sínum, segir Rússland vera "stórt sálfræðilegt vandamál. Þetta er í fyrsta sinn sem til er rússneskt ríki, lýðræðisríki. Hvað er það? Eitt svarið við því er að það sé tvískipt, í Moskvu og svo allt utan hennar. Vandamálin eru endalaus og ástandið skelfilegt.

Æ fleiri menntamenn viðurkenna að þeir viti í raun ekki hvað hafi gerst í Rússlandi. Nýjasta ógnin sem steðjar að er öðruvísi en það sem við höfum áður kynnst. Það gerðist í raun ekkert. Ekkert stríð, enginn óvinur, aðeins pappírsseðlar sem misstu verðmæti sitt. Þótt Vesturlönd þekki þetta ástand mætavel gerum við það ekki", segir Meinert.

Þolgóðir og nægjusamir

Svona er ástandið í upphafi vetrar. Uppskera haustsins var með minnsta móti, kreppan rýrði eignir fólks, hundruð þúsunda hafa misst vinnuna og sumir segja að einn nauðsynlegasti þáttur þess að á komist eðlilegt ástand í Rússlandi, miðstéttin, sé dauður. Í bili að minnsta kosti

Nágrannar Rússa í Eystrasaltsríkjunum eru þó þeirrar skoðunar að horfurnar séu ekki biksvartar, minna á að enn hafi tiltakanlega fáir Rússar haft kynni af vestrænum lífsgæðum og að þeir séu í eðli sínu nægjusamir. Fjöldi fólks, t.d. í Kirjálahéruðunum, þekki skortinn og fátæktina mætavel, og muni vafalaust komast í gegnum þetta erfiðleikaskeið. En hvert framhaldið verður, hvort ástandið versnar og þá hve mikið, skal ósagt látið. "Efnahags- og stjórnmálaöngþveitið í Rússlandi er byrjunin á einhverju," sagði lettneskur embættismaður, "ég veit bara ekki hverju."

Morgunblaðið/UG RÚSSNESK æska gengur fram hjá grafhýsi Leníns við Kremlarmúrana í Moskvu. Framtíðin er vissulega ekki björt en samt var engan vonleysissvip að sjá á þessum ungu andlitum.