BANDARÍSKI spennusagnahöfundurinn Robert B. Parker hefur löngum verið talinn einna fremstur í sínu fagi vestra. Hann er einn af þeim sem skrifar í glæpasagnahefð sem mótuð var fyrr á öldinni af höfundum eins og Raymond Chandler og Dashiell Hammett: Parker skrifaði reyndar framhald Chandlerssögunnar Svefninn langi og hann lauk eitt sinn við sögu sem Chandler skildi eftir sig ókláraða og hlaut
Ný hetja á gömlum grunni ERLENDAR BÆKUR Spennusaga "NIGHT PASSAGE"

eftir Robert B. Parker. Jove Fiction 1998. 324 síður. BANDARÍSKI spennusagnahöfundurinn Robert B. Parker hefur löngum verið talinn einna fremstur í sínu fagi vestra. Hann er einn af þeim sem skrifar í glæpasagnahefð sem mótuð var fyrr á öldinni af höfundum eins og Raymond Chandler og Dashiell Hammett: Parker skrifaði reyndar framhald Chandlerssögunnar Svefninn langi og hann lauk eitt sinn við sögu sem Chandler skildi eftir sig ókláraða og hlaut heitið "Poodle Springs". Spenser heitir einkaspæjarinn í bókum Parkers og er karl í krapinu en um nýjustu ævintýri hans má lesa í "Small Vices". Nýlega var "Night Passage" gefin út í vasabroti en hún er að sumu leyti betri kannski af því Parker gefur Spenser gamla frí og kynnir til sögunnar nýja spæjarahetju sem heitir Jesse Stone. Nútímavestri "Night Passage" er þrítugasta skáldsaga Parkers. Hún kom fyrst út í fyrrahaust og er einskonar nútímavestri um drykkfelldan rannsóknarlögreglumann sem rekinn er úr starfi í Los Angeles og er ráðinn lögreglustjóri í smábænum Paradís í Massachusetts, en heiti bæjarins er nokkuð villandi eins og síðar kemur í ljós. Parker notar með mjög viðunandi hætti gömlu vestratugguna um einfarann sem kemur ríðandi á hesti sínum inn í spillt bæjarfélag, hristir upp í spillingaröflunum og lætur gott af sér leiða, yfirleitt einn og óstuddur, og ríður síðan út í sólarlagið aftur. Hann gerir ekkert nýtt með hana enda hefur fáum tekist það sem reynt hafa hvort sem er í afþreyingarbókum eða bíómyndum. Sumt í sögunni má heita fullklisjukennt, einkum það sem snýr að lýsingu á bæjarbúum háum sem lágum, og hún jaðrar við að vera ótrúverðug undir lokin en sagan líður vel áfram, er skemmtilega skrifuð með góðum húmor og hin ánægjulegasta afþreying. Jesse Stone er nútímakúreki Parkers; það ætti ekki að koma á óvart að einu bíómyndirnar sem honum líkar eru vestrar. Hann er ráðinn lögreglustjóri Paradísar af spillingaröflunum, sem treysta á að hann sé á hraðri niðurleið sem drykkjusvoli og skipti sér ekki af þeirra myrkraverkum. Ástarlíf Stones er í molum eftir að kærastan hans, sem langar að verða kvikmyndaleikkona, tekur að sofa hjá kvikmyndaframleiðanda. Það er ein ástæða ræfilsháttarins og ein ástæða þess að hann flytur frá Los Angeles. Sveitamenn Í Paradís kynnist hann fljótlega annarri konu, sem gerir málið dulítið flóknara því það er ekki öll von úti enn með hitt sambandið og hann kynnist öðrum og ekki eins elskulegum íbúum þar á meðal Jo Jo, kraftalegu og heimsku handbendi þeirra sem ráða; Hathaway, sem á banka og kynferðislega brenglaða eiginkonu auk þess sem hann duflar við þjóðernisfasisma og er að burðast við að koma sér upp vopnaðri fylkingu; Burke, spilltum og sprengjuglöðum lögreglumanni og einhverjum öðrum sem brátt vilja Stone feigan. Parker gefur sér góðan tíma til að kynna hina nýju söguhetju sína og virðist sjálfur nokkuð stoltur af henni. Að vísu virðist Stone fullöruggur með sig svona sem hinn þögli Marlboro-maður og virðist aldrei vera í neinni hættu því smábæjarkrimmarnir eru bara sveitamenn miðað við þá sem hann er vanur að fást við í stórborginni. Þannig verður aldrei til nein almennileg spenna enda Parker sennilega ekki að fiska á þeirri slóð. Miklu fremur að leika sér með gamalt vestraminni, furðufugla og ást, sem kannski er viðbjargandi. Þótt hetjan hans sé ný þá er hún byggð á gömlum og traustum grunni amerísku sakamálasögunnar og þess var að vænta frá Robert B. Parker. Arnaldur Indriðason Robert B. Parker