HAUSTIN eru tími hinna svonefndu borgarferða hjá ferðaskrifstofum en um er að ræða 2­7 daga ferðatilboð með flugi og gistingu. Yfirleitt er boðið upp á íslenska fararstjórn eða upplýsingaþjónustu og ferðir til og frá flugvelli erlendis. Oft er boðið upp á skoðunarferðir sem greitt er fyrir aukalega. Byrjunarverð á borgarferðum er frá um 30 til 35 þúsund krónur.
Borgarferðir Nær uppselt fyrir jól

HAUSTIN eru tími hinna svonefndu borgarferða hjá ferðaskrifstofum en um er að ræða 2­7 daga ferðatilboð með flugi og gistingu. Yfirleitt er boðið upp á íslenska fararstjórn eða upplýsingaþjónustu og ferðir til og frá flugvelli erlendis. Oft er boðið upp á skoðunarferðir sem greitt er fyrir aukalega. Byrjunarverð á borgarferðum er frá um 30 til 35 þúsund krónur.

Eftir þeim upplýsingum sem fengust hjá ferðaskrifstofum hefur orðið áberandi aukning í borgarferðum og er nú orðið uppselt í flestar ferðir fyrir jól. Þó er enn eitthvað um laus sæti, einkum í byrjun desember.

Ferðaskrifstofa stúdenta býður upp á borgarferðir til London og Amsterdam í ýmsum útfærslum. Ferðaskrifstofa Reykjavíkur býður upp á ferðir til Amsterdam, London, Glasgow, Edinborgar, Minneapolis og Halifax.

Það gera Samvinnuferðir- Landsýn einnig en aðaláherslu leggja þeir á ferðir til Dublin. Þangað er flogið alla fimmtudaga. Uppselt er nánast í allar ferðir en nokkur sæti laus 10. desember. Að sögn Auðar Björnsdóttur hefur dregið úr því að fólk fari í þessar ferðir eingöngu til að versla, flestir fari til að upplifa skemmtilegt mannlíf og menningu. "Ásóknin eykst jafnt og þétt og fólk er farið að reikna með þessu sem sumarauka."

Goði Sveinsson, sölu- og markaðsstjóri hjá Úrval-Útsýn, er einnig á því að fólk leggi meira upp úr því að skoða sig um og kynnast nýrri menningu. "Okkar höfuðvígi á haustin er Edinborg. Þangað eru allt að fjórir brottfarardagar í viku." Uppselt er í flestar ferðir og giskar Goði á að um 15-20 prósent aukning sé á milli ára í borgarferðum félagsins.

Andri Már Ingólfsson hjá Heimsferðum segir ferðaskrifstofuna flytja yfir 3000 Íslendinga til London í haust.