Huga þarf vel að sjúkrahúsum NÝHERJI er eitt þeirra fyrirtækja sem boðið hafa upp á þjónustu vegna tölvuvandans árið 2000. Er um að ræða ráðgjöf er skiptist í fimm þætti, þ.e. stöðumat, forgangsröðun, verkáætlun, verkframkvæmd og endurskoðun. Kannað er hvernig staðan sé varðandi starfsmannamál en einnig viðskiptavini og birgja.
Huga þarf vel að sjúkrahúsum

NÝHERJI er eitt þeirra fyrirtækja sem boðið hafa upp á þjónustu vegna tölvuvandans árið 2000. Er um að ræða ráðgjöf er skiptist í fimm þætti, þ.e. stöðumat, forgangsröðun, verkáætlun, verkframkvæmd og endurskoðun. Kannað er hvernig staðan sé varðandi starfsmannamál en einnig viðskiptavini og birgja. Reykjavíkurborg mun njóta ráðgjafar fyrirtækisins vegna ársins 2000.

Sérfræðingar segja að heimilistölvur séu fæstar í hættu ef menn gæti þess að nota þær ekki yfir sjálf áramótin 1999­2000 og þótt einhver önnur tól daglega lífsins bregðist er varla mikil hætta á ferð. Ef til vill þurfa menn að að láta laga þau eða kaupa sé ný.

Öðru máli gegnir um stórfyrirtæki og stofnanir. Hvað er það sem á eftir að bregðast í daglegu lífi ef menn grípa þar ekki til viðeigandi ráðstafana eða gera mistök í undirbúningnum?

"Við Íslendingar erum að sumu leyti betur settir en margar aðrar þjóðir," segir Hjalti Sölvason, stjórnandi framkvæmdasviðs Nýherja. "Lestakerfi erlendis eru t.d. byggð á dagsetningu og tíma og tímatöflur mismunandi eftir því hvaða dagur er og hvaða árstíð. Þetta er því mjög flókið og kostar mikla vinnu að fara yfir þetta allt. Okkar samgöngukerfum er ekki stýrt á þennan veg með sjálfvirkum, tölvutækum hætti.

Ég held að við stöndum líka betur að vígi í iðnaði en mörg önnur ríki. Við erum ekki með bílaframleiðslu og ekki með olíuvinnslu þar sem notaðar eru þúsundir af iðnstýritölvum og kubbum. Margir af kubbunum á borpöllunum eru neðansjávar og því erfitt að komast að þeim. Það er ekki svona flókin framleiðslustýring í fiskiðnaðinum hjá okkur. Margir sem eru hræddir við 2000-vandann myndu vilja vera hér með sína framleiðslu.

Það sem er lífsnauðsynlegt fyrir okkur er að orka, hiti og þess háttar sé í lagi. Ef rafmagnið fer hjá mér í dag er það slæmt en ef það fer í miðri skurðaðgerð er það spurning um líf og dauða. Menn þurfa að vera mjög vel á verði gagnvart lækningatækjum, þar geta verið kubbar með tímarásum.

Ef ekkert verður gert mun upplýsingakerfið í bráðamóttöku ekki virka. Þá yrði að handfæra upplýsingarnar. Lyfta gæti farið að hegða sér einkennilega, rjúka upp á efstu hæð eða niður í kjallara og festast þar. Loftræstikerfi sem eiga að tryggja ákveðið hitastig á vissum tíma dagsins fara að veita of mikinn hita eða of lítinn. Oft fylgir hugbúnaður rannsóknatækjum og þótt tækið ráði við ártalsbreytinguna getur verið að hugbúnaðurinn geri það ekki. Hann gæfi þá kannski rangar eða misvísandi upplýsingar, einnig gæti hann stöðvast. Tafirnar af þessum völdum gætu orsakað neyðarástand.

Hvílir mikið á Landssímanum

Það hvílir mikið á Landssímanum. Fyrirtækið er móðir allra fjarskipta á landinu og því mikið undir starfsmönnum hans komið hvernig við komumst í gegnum þetta, einnig starfsmönnum Tals.

Það dregur nokkuð úr hættunni að við erum með þráðlaus fjarskipti, GSM og NMT, og þótt einhverjar línur fari geta þessi tvö kerfi kannski virkað. Í viðbúnaði gegn náttúruhamförum er gert ráð fyrir því. En ekki má gleyma að eldri gerðir GPS- síma ráða ekki við breytingu sem verður í ágúst 1999. Þegar Bandaríkjamenn byggðu kerfið upp var miðað við líftíma sem er rúmlega þúsund vikur þannig að upp kemur vandi sem er hliðstæður 2000-vandanum.

Peningastreymið er mjög mikilvægt, allir bankarnir verða að geta átt samskipti um Reiknistofu bankanna. Síðan er það fjárstreymið frá landinu og til þess frá erlendum bönkum. Ef einn hlekkur bregst stöðvast færslan og tjónið í peningum og óþægindin gætu orðið mikil. Allir myndu fá greiðslur seinna en ella úr bönkum og öðrum stofnunum."

Morgunblaðið/Golli

Hjalti Sölvason