Forgangsröðun mikilvægust FYRIRTÆKIÐ Álit annast rekstur og leigu á tölvukerfum nokkurra fyrirtækja, þ. á m. Ísal, Mjólkursamsölunnar og dótturfyrirtækja hennar. Álit hefur tekið að sér að skipuleggja aðgerðir vegna 2000-vandans hjá þessum fyrirtækjum en einnig Járnblendiverksmiðjunni, Íslandsflugi og Mjólkurbúi Flóamanna.
Forgangsröðun mikilvægust

FYRIRTÆKIÐ Álit annast rekstur og leigu á tölvukerfum nokkurra fyrirtækja, þ. á m. Ísal, Mjólkursamsölunnar og dótturfyrirtækja hennar. Álit hefur tekið að sér að skipuleggja aðgerðir vegna 2000-vandans hjá þessum fyrirtækjum en einnig Járnblendiverksmiðjunni, Íslandsflugi og Mjólkurbúi Flóamanna.

Marina Candi rafmagnsverkfræðingur er verkefnisstjóri hjá Áliti vegna 2000-vandans. Hún segir sitt mikilvægasta framlag að halda mönnum við efnið, það geti hún fremur en starfsmenn fyrirtækjanna vegna þess að þetta sé hennar eina verkefni þar.

Hún segist telja að nota verði hefðbundna pýramídastjórnun í þessu máli í fyrirtækjunum, starfsmenn séu venjulega svo önnum kafnir og undir þrýstingi um að ljúka hefðbundnum verkefnum á réttum tíma. Þeir telji sig því eðlilega ekki geta bætt við sig viðfangsefnum eins og skrásetningu á búnaði vegna tölvuvandans. Þarna geti orðið togstreita. Í fyrirtækjum þar sem æðstu menn átti sig á umfangi hans sé búið að stíga mikilvægasta skrefið.

"Það sem er aðalatriðið er forgangsröðun og hún er tvíþætt. Annars vegar þarf vandinn sjálfur að hafa forgang innan fyrirtækisins fram yfir önnur verkefni þannig að 2000-vandinn sé ekki látinn sitja á hakanum.

Næsta forgangsröðun snýr að viðfangsefnum í fyrirtækinu sjálfu, vitrænu vali. Það er engin leið fyrir þá sem eru að byrja á þessu ári að komast yfir allt. Eitthvað verður útundan, þetta verður ekki fullkomið. Við höfum fengið menn til að setjast niður og gera áhættumat. Þeir festa á blað allt sem gæti valdið hættu árið 2000 og síðan verða deildarstjórar eða einhver aðili með góða yfirsýn að velja þá mikilvægustu af þáttunum sem geta verið t.d. 200 og ákveða hverjir fari í fyrsta flokk. Við höfum gert það að markmiði að hafa ekki fleiri en tíu í fyrsta flokki og þar er byrjað.

Síðan er farið í annan flokk og aftur forgangsraðað þar en það sem endar í þriðja flokki er bara ekkert með í verkefninu okkar vegna þess hve tíminn er naumur. Þá erum við að segja í reynd að þetta megi bregðast, það verður lagað einhvern tíma seinna og við getum lifað með því."

Hún segir að reynslan sýni að fyrirtækin verði að nota eigin aðferðir og fara sjálf yfir allt sem geti kallast lífæðar vegna þess að ekki sé alltaf hægt að treysta rituðum upplýsingum um búnaðinn. Oft megi nálgast þær á Netinu en vefsíðurnar séu án ábyrgðar. Einnig séu stóru framleiðslufyrirtækin í tölvuheiminum orðin svo varkár að sum svari jafnvel ekki fyrirspurnum. Þau óttast að verða dregin til ábyrgðar ef þau gefi mönnum ráð sem ekki dugi.

Morgunblaðið/Ásdís

Martina Candi