EF VIÐ eigum ódýrt úr með dagatali getum við þurft að breyta tölunni í glugganum þegar mánuðurinn er ekki nema 30 dagar eða 28/29 dagar í febrúar. Þetta er lítið mál. Tölvuvandinn árið 2000 er miklu erfiðari og enn flækir það málið að árið er hlaupár.

Hiksti eða hjartaslag?

Þegar 1. janúar árið 2000 gengur í garð segja flestir að ný öld og árþúsund hefjist þótt fræðimenn segi það rangt og vilji miða við 2001. En alvarlegra er að margar tölvur hætta að virka eða munu haga sér rangt vegna galla í búnaði þeirra sem lengi hefur verið vitað um, segir í grein Kristjáns Jónssonar . Afleiðingarnar geta orðið margvíslegar og sumir óttast efnahagshrun í heiminum. Aðrir segja að ranki menn almennt við sér í tæka tíð verði varla um meira en hiksta að ræða.

EF VIÐ eigum ódýrt úr með dagatali getum við þurft að breyta tölunni í glugganum þegar mánuðurinn er ekki nema 30 dagar eða 28/29 dagar í febrúar. Þetta er lítið mál. Tölvuvandinn árið 2000 er miklu erfiðari og enn flækir það málið að árið er hlaupár.

Samt er sami vandinn á ferð í einum skilningi, þetta snýst um kostnað. Úrið er ódýrt en hver örgjörvi var svo dýr og plássfrekur fyrir einum eða tveim áratugum að menn létu freistast. Þeir ákváðu að nóg væri að sýna ártal með tveim síðustu tölunum, t.d. 86 í stað 1986 en þar sem nauðsynlegt reyndist að hafa fjórar tölur var alltaf gert ráð fyrir einum möguleika fremst, 19. Auk þess voru margir á því að tækin og hugbúnaðurinn myndu hvort sem er úreldast löngu fyrir aldamótin en raunin hefur oft orðið önnur.

Þegar árið 2000 gengur í garð munu sumar eldri tölvur sem búnar eru einhvers konar dagatalsstýringu í stýrikerfi eða öðrum hugbúnaði því annaðhvort stöðvast eða gera ráð fyrir að árið 1900 sé hafið. Einnig getur verið að hún geri aðrar villur og trufli aðrar samtengdar tölvur. Svonefndir ívafðir hlutir (embedded systems) eru nú í fjölmörgum tólum og tækjum sem við notum, allt frá heimilistækjum yfir í kjarnorkuvopn.

Tölvukubbar í tækjunum vinna oft á einhvern hátt með tíma. Er þá tímarás vafin inn í aðra virkni sem kubburinn kann að hafa. Nefna má sem dæmi að í einni Boeing- breiðþotu eru um 16.000 ívafshlutir. Áætlað er að um 25 milljarðar slíkra ívafshluta séu í heiminum og 1­3% bregðist.

Valin var skammtímalausn á vandanum og má sjálfsagt lengi deila um það hvort menn hefðu átt að bíða þar til örgjörvar yrðu ódýrari eða velja í bili aðrar leiðir en tölvuvæðingu.

Misjöfn viðbrögð

Viðbrögð hér á landi við yfirvofandi hættu hafa verið misjafnlega skjót. Reykjavíkurborg hefur þegar keypt ráðgjöf og unnið verður markvisst að því að greina vandann hjá ýmsum tæknistofnunum hennar, að sögn heimildarmanna. Aðrir telja að sveitarfélög með nokkur þúsund íbúa sitji flest eftir í undirbúningi.

"Lítil og meðalstór sveitarfélög standa sennilega verst að vígi af öllum aðilum hér á landi," sagði einn. Oft er vandinn sá að ekki er neinn sérstakur embættismaður eða nefnd sem ber ábyrgð á málinu í litlu sveitarfélagi og sameining sveitarfélaga hefur hugsanlega orðið til þess að málið lenti milli stóla.

Ljóst er að ekki eru nægilega margir tæknimenn hér landi til að bjarga málum í horn á síðustu stundu ef menn sofa of lengi á verðinum og hefjast ekki handa strax. Stórfyrirtæki hérlendis eru mörg vel á veg komin en mesta hættan á truflunum er talin vera í litlum fyrirtækjum. Einnig er sjávarútvegurinn lítt farinn að taka við sér.

Kostnaðurinn vegna undirbúningsins getur orðið mikill og ljóst að hér sem annars staðar getur komið til skaðabótamála en slík málaferli eru þegar hafin í Bandaríkjunum. Fyrirtæki sem keypt hafa tölvubúnað telja sig ekki hafa fengið að vita um gallana á hugbúnaðinum eða tækjunum og þess vegna eigi framleiðandinn að greiða kostnaðinn við lagfæringar eða kaup á nýjum búnaði. Framleiðendur segja á hinn bóginn að vandinn hafi verið ljós öllum sem hafi viljað vita af honum.

Tryggingafélög hafa tekið þá afstöðu að 2000-vandamálið sé fyrirsjáanlegt. Varla geti verið um óvænta vá að ræða þar sem menn viti af erfiðleikunum með löngum fyrirvara. Þetta sé því á ábyrgð þeirra sem eigi og noti viðkomandi tæki og hugbúnað. Hvort þeir eiga einhvern rétt til bóta af hálfu framleiðenda er svo önnur saga en mörg slík mál eru þegar fyrir dómstólum í Bandaríkjunum.

Vandinn er alþjóðlegur vegna þess að svo margt í nútímaframleiðslu og lífsháttum byggist á nettengingu yfir landamærin og heimshöfin. Nefna má fjármálamarkaði, gasleiðslur, símakerfi. Bregðist orkan geta mannslíf verið í hættu á skurðstofum, loftræsting hættir að virka, lyftur geta stöðvast með sjúklinga og þannig mætti lengi telja.

Kjarnorka, borpallar, markaðir

Þrennt er það sem margir nefna þegar rætt er um hættulegustu hlutina. Í fyrsta lagi er það tölvubúnaður í kjarnorkuverum og vopnabúnaði Rússlands og annarra fyrrverandi sovétlýðvelda en einnig vesturveldanna. Enginn veit hvort hann stenst þessa raun. Og ruglast skipanir í vopnakerfinu þannig að flugskeyti ákveði að nú sé stundin runnin upp? Bandaríkjamenn nota minna af svonefndum ívafshlutum í sínum vopnakerfum en Rússar en eru samt í miklum vanda.

Rússar eru varla byrjaðir að takast á við sinn, að sögn erlendra fjölmiðla enda efnahagurinn og stjórnkerfið í rúst og erfitt að sinna öðru en skammtímavanda. 1. janúar árið 2000 gætu þeir orðið að spyrja Bandaríkjamenn hvernig ástandið sé í rússnesku skotbyrgjunum í von um að þeir hafi traustari upplýsingar.

Annar vandi er á olíuborpöllum m.a. á Norðursjónum. Þar er mikið um flókin stýrikerfi vegna þess að pallarnir eru látnir hækka og lækka í samræmi við flóð og fjöru. Til þess þarf dælur sem búnar eru aragrúa örgjörva og ívöfðum hlutum sem oft eru neðansjávar og jafnvel erfitt að komast að kerfunum til að kanna hvort þau muni virka. Heimildarmenn segja augljóst að mengunarslys verði, spurningin sé aðeins hve mörg og alvarleg.

Og hvað með fjármálaviðskiptin þar sem allt er orðið rafrænt og ekkert má út af bregða? Mikið er unnið í þeim efnum og menn segjast flestir vera bjartsýnir á að ekki verði mikil óhöpp.

Stöku spámenn eru þó á öðru máli. Þannig segir Edward Yardeni hjá fjármálafyrirtækinu Deutsche Morgan Grenfell að hann telji æ meiri líkur á hruni vegna þess að truflanir á upplýsingaflæðinu verði svo miklar, þær muni hafa svipuð áhrif og olíuskorturinn um miðjan áttunda áratuginn. Hann segir að vandinn hafi einnig sýnt mönnum hve háð við séum forriturum og jafnframt hve "skapandi og agalaus" atvinnugrein forritun sé.

"Ljóst er að ekki eru nægilega margir tæknimenn hér landi til að bjarga málum í horn á síðustu stundu ef menn sofa of lengi á verðinum og hefjast ekki handa strax."

"Valin var skammtímalausn á vandanum og má sjálfsagt lengi deila um það hvort menn hefðu átt að bíða þar til örgjörvar yrðu ódýrari eða velja í bili aðrar leiðir en tölvuvæðingu."