TÉKKNESK kammertónlist verður í brennidepli á tónleikum sem haldnir verða í Bústaðakirkju í kvöld, sunnudagskvöld, kl. 20.30. Flutt verða verk eftir þrjú af helstu tónskáldum Tékka, Martinu, Dvorák og Janácek.

Tékkneskt

tónaflóð

TÉKKNESK kammertónlist verður í brennidepli á tónleikum sem haldnir verða í Bústaðakirkju í kvöld, sunnudagskvöld, kl. 20.30. Flutt verða verk eftir þrjú af helstu tónskáldum Tékka, Martinu, Dvorák og Janácek.

Eydís Franzdóttir óbóleikari, sem er hvatamaður að tónleikunum, segir þá hafa verið á döfinni í fjögur ár, eða frá því hún kom heim frá Tékklandi, þar sem hún starfaði um tveggja ára skeið í útvarpshljómsveitinni í Pilzen. "Allar götur síðan hefur mig dreymt um að efna til tónleika með tékkneskri tónlist hér heima og nú er sá draumur að rætast. Það er synd að þessi tónlist skuli ekki heyrast oftar á tónleikum á Íslandi því tékknesk tónskáld eiga hér marga aðdáendur ­ vonandi kveikir þetta í fólki."

Flutt verða tvö verk eftir Bohuslav Martinu, Fjórir Madrigalar fyrir óbó, klarínett og fagott og Sextett fyrir blásara og píanó. Að sögn Eydísar er hér um afar ólíkar tónsmíðar að ræða, þótt bæði séu verkin frá Parísarárum Martinus. "Í París kynntist Martinu ýmsum straumum og stefnum í tónlist sem höfðu áhrif á hann, meðal annars djassinum, eins og glöggt má heyra í Sextettinum. Í raun undirstrika þessi tvö verk fjölhæfni Martinus sem tónskálds."

Sonur slátrarans

Antonin Dvorák átti að verða slátrari. Faðir hans rak kjötverslun í litlum bæ skammt frá Prag og þar sem Dvorák var elstur sona hans var honum ætlað að taka við rekstrinum. Svo varð ekki, "sem betur fer," segir Eydís. Dvorák sneri sér þess í stað að tónlistinni, fyrst að hljóðfæraleik og svo tónsmíðum. "Fyrst um sinn samdi hann tónlist í laumi og það var eiginlega ekki fyrr en eftir að hann kynntist Smetana og fór að vinna meira út frá tékkneskum þjóðlögum að hann hlaut hljómgrunn. Það var svo Brahms sem uppgötvaði hann í tónsmíðakeppni í Austurríki árið 1875. Með þeim tókust vinsemdir og Brahms aðstoðaði Dvorák við að koma sér á framfæri."

Biblíusöngvana fyrir sópran og píanó, sem fluttir verða á tónleikunum, samdi Dvorák meðan hann gegndi rektorsstöðu við tónlistarháskólann í New York. Eru söngvar þessir þrungnir tilfinningum enda samdir til minningar um nokkra vini tónskáldsins, auk þess sem faðir þess lá fyrir dauðanum á þessum tíma. "Biblíusöngvarnir eru með því fallegasta sem Dvorák samdi um dagana!"

Martinu var hringjarasonur og Dvorák slátrarasonur. Leos Janácek var aftur á móti af tónlistarfólki kominn. 11 ára gamall var hann sendur í klausturskóla í Moróvu, þar sem hann hlaut sína undirstöðumenntun, með höfuðáherslu á söng. Síðar setti hann á laggirnar orgelskóla í Brunau, þar sem hann var mjög virkur í tónlistarlífinu.

Janácek er þekktastur fyrir óperur sínar, þykir eitt helsta óperutónskáld tuttugustu aldarinnar, en samdi einnig fjölda kammerverka. Sextettinn Æsku, sem leikinn verður í Bústaðakirkju, samdi Janácek árið sem hann varð sjötugur. Rifjar hann þar upp atburði úr æsku sinni. Segir Eydís verkið ákaflega fallegt en snúið í flutningi.

Flytjendur á tónleikunum verða, auk Eydísar, Þórunn Guðmundsdóttir sópransöngkona, Valgerður Andrésdóttir píanóleikari, Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, Ármann Helgason klarínettuleikari, Kjartan Óskarsson bassaklarínettuleikari, Anna Sigurbjörnsdóttir hornleikari, Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari og Rúnar Vilbergsson fagottleikari.

Morgunblaðið/Árni Sæberg FÓLKIÐ sem flytja mun tékkneska tónlist í Bústaða kirkju í kvöld.