400 ára minning Guðríðar Símonardóttur SLÓÐIN RAKIN Í ár eru 400 ár liðin frá fæðingu Guðríðar Símonardóttur. Heimildarmaður um aldur hennar og dánardægur er síra Hannes Björnsson, eftirmaður Hallgríms Péturssonar í Saurbæ, sem skráði hvort tveggja í kirkjubækur. Guðríður lést í horninu hjá honum 18.
400 ára minning Guðríðar Símonardóttur

SLÓÐIN

RAKIN

Í ár eru 400 ár liðin frá fæðingu Guðríðar Símonardóttur. Heimildarmaður um aldur hennar og dánardægur er síra Hannes Björnsson, eftirmaður Hallgríms Péturssonar í Saurbæ, sem skráði hvort tveggja í kirkjubækur. Guðríður lést í horninu hjá honum 18. desember 1682, áttatíu og fjögurra ára að aldri. Það þýðir að hún hefur verið fædd 1598. Steinunn Jóhannesdóttir segir að þó ekki sé vitað um fæðingardag eða fæðingarstað, liggi beinast við að ætla að hún hafi verið fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Þar bjó hún í það minnsta sumarið 1627, þegar fjölþjóðlegt lið sjóvíkinga frá Alsír gekk á land og lagði byggðina nánast í rúst, en hafði á brott með sér meira en helming íbúanna, hátt á þriðja hundrað manns. Guðríður var ein þeirra, þá 29 ára að aldri. Eiginmaður hennar, Eyjólfur Sölmundsson, sjómaður og bóndi í Stakkagerði var aftur á móti í hópi hinna sem komust undan. Þessa skyndiárás á landið, sem einnig var gerð á Austfjörðum og í Grindavík, köllum við einu nafni Tyrkjaránið.

Það var hásumar. Fréttin af ráninu í Grindavík hafði borist til Vestmannaeyja og eyjaskeggjar höfðu haft vara á sér um nokkurra vikna skeið. Þeir bjuggust til varnar á skansinum við innsiglinguna en töldu að hættan væri liðin hjá þegar innrásin kom úr óvæntri átt að morgni 17. júlí. Íbúar lögðu á flótta. Danska embættismannaliðið, sem bar ábyrgð á vörnum byggðarlagsins, flýði á árabátum upp til lands, en aðrir innbyggjarar hlupu til fjalla og leituðu skjóls í fjölmörgum klettaskútum og hraunhellum eyjanna. Hinn 19. júlí taldi fjölmenn víkingasveitin nóg að gert, segl voru undin upp á ræningjaskipunum, sem voru þrjú að tölu, og siglt á brott með herfangið. Stefnan var tekin í suður. Í Vestmannaeyjum rauk úr rústum Dönskuhúsa og Landakirkju en meira en þrír tugir líka lágu í valnum. Sum sundurskotin önnur höggvin í spað segja annálar eftir sjónarvottum. Fólkið sem skríður fram úr fylgsnum sínum er í losti. Fjölskyldur þess hafa splundrast. Enginn prestur er til að grafa lík eða veita áfallahjálp, annar þeirra var myrtur, en hinn er í hópi hinna herteknu. Þeir voru mágar. Sá myrti var Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ, síðar nefndur píslarvottur, hinn var síra Ólafur Egilsson í Ofanleiti sem átti eftir að skrifa fræga Reisubók. Reisubók síra Ólafs Egilssonar hefur reynst ein okkar traustasta heimild um þennan skelfilega atburð og mánaðarlanga sjóferð fanganna suður á þrælamarkað í Alsír.

En fleiri áttu eftir að stinga niður penna og greina frá afdrifum fólksins sem lenti í herleiðingunni.

Guðríður skrifar heim

Nokkrum árum frá ráninu situr kona við að skrifa bréf í leyndum stað meðan aðrir sofa í borginni Arriel. Arriel er hennar ritháttur á nafni Alsírborgar. Nafn borgarinnar var upphaflega El-Djezair, sem þýðir "borgin í gæslu guðs" og lega hennar var einkar hagstæð frá hernaðarsjónarmiði. Þétt byggðin rís í fjallshlíð upp af traustri höfn umkringd múrum og fjöllum á þrjá vegu. Alsírborg var eins konar útvörður í vestri í víðlendu ríki Tyrkjasoldáns og höfuðvígi múslímskra sjóvíkinga um þriggja alda skeið í því stríði sem staðið hefur með hléum milli kristinna manna og múslíma frá tímum krossferðanna til Jerúsalem. Íslendingarnir sem voru herteknir hér sumarið 1627 voru því eins konar stríðsfangar, þótt óvíst sé að þeir gerðu sér grein fyrir því. Þeir litu á ólán sitt sem forþént syndastraff. Konan, sem grætur ofan í bréfið sitt veit þó að guð hefur ekki sleppt af henni hendinni. Hún skrifar: "En það sem ég tala um mína aumu æfi, er hið fyrst að ég hjari, einkum fyrir Guðs náð og sérlega velgerninga, verandi hér í Barbarie og í einum tyrkneskum stað, sem heitir Arriel, hjá einum Tyrkja, er mig keypti með það fyrsta og mína barnkind, hvað mig gerði bæði að hryggja og gleðja í mínum hörmungum, og undir þessu Drottins maklega álagða hrísi og krossins þunga hryggist ég og særist daglega, að vita hann í þvílíkri neyð og háska, sem oss er uppá lagt vegna vorra synda". Þetta brot úr bréfi Guðríðar Símonardóttur til síns ástkæra ektamanns í Vestmannaeyjum veitir þær mikilvægu upplýsingar að henni hefur verið rænt með syni þeirra Eyjólfs og að drengurinn hefur fengið að fylgja móður sinni, sennilega vegna ungs aldurs. Börn voru þó mjög gjarnan tekin af foreldrunum sínum, eins og var um 11 ára son Ólafs Egilssonar. Þegar bréfið er ritað eru þau mæðgin enn hjá sama húsbónda og keypti þau í fyrstu, en oft gengu þrælarnir og ambáttirnar kaupum og sölum. Seinni hluti bréfsins, sem varðveittist í uppskrift í bréfabók Gísla Odssonar biskups, er glataður með öllum frekari heimildum um ambáttartilveru hennar ásamt ártali og dagsetningu og er það mikill skaði. Þó má gera ráð fyrir að það sé frá 1630-31 líkt og önnur bréf Íslendinganna sem bárust hingað til lands með vorskipi 1634. En ein mikilvæg dagsetning í lífi hennar hefur geymst í skjölum.

Guðríður leyst út

Þann 12. júní 1636 er Guðríður Símonardóttir leyst úr ánauðinni í Alsír. Að lausninni er langur aðdragandi og verður ekki rakinn í þessari grein nema að litlu leyti. En strax á öðrum mánuði útlegðarinnar, þann 20. september 1627, var gamli presturinn í Ofanleiti, síra Ólafur Egilsson, sendur frá Alsír á fund konungs vors og herra í Kaupmannahöfn, Kristjáns IV. Hann átti að fara fram á lausnargjald fyrir konu sína og börn og aðra Íslendinga í Barbaríinu. Íbúafjöldi í Alsír var um 100 þúsund manns á fyrri hluta 17. aldar en þrælar í borginni voru um 25 þúsund. Mannrán voru þeirra fiskveiðar og þrælaverslun aðalundirstaða efnahagslífsins. Verðgildi þrælanna var tvöfalt. Þeir voru í fyrsta lagi ódýrt vinnuafl en í öðru lagi fékkst fyrir þá verðmætustu hátt lausnargjald. Segir nú ekki af reisu síra Ólafs Egilssonar fyrr en hann kemur til Kaupmannahafnar í lok mars 1628. Ferðlúinn klerkurinn fékk þó ekki áheyrn hjá kóngi sínum, sem var upptekinn í þrjátíu ára stríðinu við þá kaþólsku og fjárhirslur ríkisins hálftómar. Síra Ólafur hélt því vonsvikinn áfram heim til Vestmannaeyja í byrjun sumars en til Alsír spurðist ekkert til ferða hans. Þegar Íslendingana þar var farið gruna að síra Ólafur hefði farið erindisleysu, skrifuðu þeir kóngi bænaskjal 1629, en einnig án árangurs að því er virtist. Þá var gripið til þess ráðs að skrifa ættmennum heima á Íslandi ef það mætti hrífa eins og getið var um hér að framan. Bréfin voru þrjú til fjögur ár að berast til sinna viðtakenda. Kannski hafa þau samt haft eitthvað að segja og hert á þeirri fjársöfnun sem var í gangi meðal presta og almennings í landinu. Kannski stóð einfaldlega betur á fyrir kóngi. Eitt er víst að á áttunda sumri herleiðingarinnar, þegar landar okkar voru að verða úrkula vonar um að sjá ættjörð sína og ástvini þar framar, fréttist af hollenskum sendimanni í borginni með fúlgur fjár til þess að kaupa heim þegna Danakonungs, norska, danska og íslenska.

Hollendingar voru ein mesta siglingaþjóð í heimi á þessum tíma og áttu í margvíslegum viðskiptum við Alsíringa. Það var hollenskur trúskiptingur eða renegat sem fyrstur manna kenndi þeim að smíða skip sem gerði þeim kleift að sigla út á Atlantshafið. Það voru hollenskir kapteinar eða reisar sem stýrðu stærstu skipunum til Íslands. Og enn var það Hollendingur, Wilhelm Kifft að nafni, sem var kominn til þess að leysa þá út. Að vísu ekki alla. Langt í frá alla. Þeir sem höfðu af hagkvæmnisástæðum eða tilneyddir gengið af trúnni og turnað til íslams þurftu ekki að gera sér neinar vonir um útlausn. Einungis þeir sem höfðu staðið stöðugir í trúnni eygðu möguleika á heimkomu. Guðríður Símonardóttir var ein þeirra, samt mátti hún lengi bíða milli vonar og ótta.

Ambátt Alij Dey

Það var flókið mál og tímafrekt að semja um lausn þrælanna við húsbændurna og eiginlegur skriður komst ekki á samningamálin fyrr en vorið 1636. Þann 11. júní hefur Kifft keypt frelsi 26 íslenskum konum og átta karlmönnum, auk þess nokkrum Dönum og Norðmönnum, alls 49 manns, en eftir tvo daga á skip hans að láta úr höfn. Hollendingurinn skrifar nákvæma skýrlsu um kaupin og getur um dagsetningu verð, og tolla af sérhverjum leystum þræli og ambátt. Þar að auki skráir hann hjá sér nafn þrælahaldarans eða patrónsins sem af er keypt. Þann 12. júní gerir hann seinustu kaupin og skráir eftirfarandi í gerðabók sína: "12 dito gekaufft vann die Weduwe van Alij Dey Gudidur Simonsdochter vor 200 Rd dar zu sellftt 20 Rd fourniert wunde" sem þýðir að 12. júní hafi hann keypt Guðríði Símonardóttur af ekkju Alí dey fyrir 200 ríkisdali en þar af lagði hún sjálf fram 20 ríkisdali. Portgellt eða hafnargjald, 62 ríkisdalir, bættist síðan ofan á. Hvort tveggja gjaldið var með því hæsta sem greiða þurfti fyrir konurnar, en einungis tvær aðrar gátu eitthvað lagt af mörkum sjálfar. Önnur 20 dali eins og Guðríður, hin aðeins fjóra, restin varð ekki krafin um neitt.

Hvað segir þessi litla heimild fyrir utan verðið sem greiða þurfti fyrir hana og var á sínum tíma umreiknað í 60 kýrverð?

Hún hafði verið ambátt Ali dey og er keypt af ekkju hans.

Dey var titill staðarkonungsins í þessu borgríki. Hann gat líka verið kallaður pashja og var sendur frá höfustað hins ottómanska heimsveldis, Konstantínopel, sem staðgengill Tyrkjasoldáns til þriggja ára í senn. Guðríður sagðist hafa verið keypt af "einum Tyrkja". Stjórnarfarið í Alsír var ekki alltaf stöðugt þá frekar en nú, meðallengd valdatíma deyjanna var 5-7 ár, stundum kom til uppþota gegn þeim og borgarráðið, Divan, tók með tímanum að kjósa deyinn úr eigin röðum. Kosningin fór ekki endilega friðsamlega fram. Það henti að deyjar væru myrtir. Hvort það voru örlög húsbónda Guðríðar skortir heimildir um að sinni, en nýr höfðingi var í það minnsta hylltur til valda 1634. Sama ár varð einnig mikil sprenging í púðurgeymslum virkisins, Kasbah, sem varð hundruðum manna að fjörtjóni. Fórst deyinn þar? Og hver var staða ekkju látins höfðingja? Ef til vill hefur hún einfaldlega ekki haft efni á að halda ambátt á borð við Guðríði eftir fráfall manns síns, og því látið hana lausa að lokum þegar svo gott verð bauðst.

Sonurinn varð eftir

Syni Guðríðar var aftur á móti haldið eftir. Hans er ekki getið í gerðabók Kiffts. En vegna þess að hann var dæmdur frá arfi eftir föður sinn á Íslandi nokkrum árum síðar verður að gera því skóna að hann hafi verið á lífi þegar móðir hans var kvaddi. Eftir 9 ár í Barbaríinu hefur hann varla verið yngri en 10-12 ára gamall. Kannski ögn eldri. Samt barn. Kannski barn sem þegar var búið var að taka frá henni, umskera og turna. Framtíðarþræll eða víkingur. Börnin voru eign húsbændanna og sinna nýju heimkynna. Ekkert íslenskt barn komst heim með þessum leysingjahópi. Þau voru glötuð ættlandi sínu, foreldrum og kristninni.

Lagt upp í reisu

Kveðjustundin var varla létt þegar stigið var á skipsfjöl í Alsír þann 13. júní 1636. Gleðin yfir nýfengnu frelsi bærðist í brjóstunum en hjá flestum var tilhlökkunin trega blandin. Þarna voru bræður tveir úr Grindavík, Helgi og Jón Jónssynir. Helgi fór heim en Jón varð eftir. Hann var ungur stúdent frá Skálholtsskóla þegar þeim var rænt, og líklega lærðasti maðurinn sem eftir var í hópi Íslendinganna. Menntun hans var verðmæti og lausnargjaldið of hátt. Honum var ekki sleppt. Þriðji bróðirinn, Héðinn, var þræll í Sale í Marokkó. Þarna var prestsmaddaman úr Ofanleiti, Ásta Þorsteinsdóttir, frænka Guðríðar. Ásta kom með þrjú börn í Barbaríið auk tveggja fósturbarna. Yngsta son sinn hafði hún fætt úti á reginhafi á leiðinni suður. Jón litli Ólafsson var því tæpra níu ára eins og útlegðin, systir hans tveim til þrem árum eldri en stóri bróðir, sem nú var tvítugur, löngu seldur til Túnis. Hafi Ásta ekki verið búin að missa börn sín öll áður, missti hún þau þarna. Fósturbörnin tvö á unglingsaldri eru horfin úr sögunni.

Guðríður Símonardóttir hafði einungis dagsfrest til að tína saman föggur sínar og kveðja. Ef til vill fór hún í flaustri, þótt hún hafi stefnt að heimferð frá upphafi veru sinnar í Alsír. Sonur hennar horfði á eftir henni með ásökun í augnaráðinu. Hann gerði ekki ráð fyrir að sjá móður sína framar. Aldrei hafði henni komið það til hugar að hún ætti eftir að yfirgefa Barbaríið með blæðandi hjarta.

Höfundur hefur samið leikritið Heimur Guðríðar. Síðasta heimsókn Guðríðar Símonardóttur í kirkju Hallgríms, sem sýnt hefur verið í kirkjum landsins s.l. þrjú ár. Steinunn hefur undanfarin tvö sumur ferðast í fótspor Guðríðar Símonardóttur og rakið slóð hennar og leysingjanna frá Alsír til Kaupmannahafnar þar sem fundum Guðríðar og Hallgríms Péturssonar bar saman. Framhald frásagnarinnar birtist eftir viku.

HÖFNIN í Alsír. Takið eftir mönnunum sem hanga í reiða hollenska skipsins fremst á myndinni.

ÞRÆLASÖLUTORGIÐ í Alsír. Fangar voru afklæddir, þreifaðir og þuklaðir eins og kvikfénaður, áður en kaupin voru gerð.

ÞRÆLAR höfðu nokkurt ferðafrelsi í borginni, en þeir voru þá með fóthlekki sem þeir drógu á eftir sér. Ambáttir héldu mest til innanhúss eins og aðrar konur.

GUÐRÍÐUR skrifar heim. Helga E. Jónsdóttir í hlutverki Guðríðar í leikritinu Heimur Guðríðar, eftir Steinunni Jóhannesdóttur.