Bjarni Einarsson dr.phil. hefur oft bugað efni að þessum pistlum, svo sem fram hefur komið. Þakka ég honum það. það er líka vel þegið, að sem flestir leggi hér hönd á plóginn. Eitt sinn nefndi Bjarni við mig atviksorðið (ao,) tæplega, sem hann segir, að fréttamenn fjölmiðlanna noti ekki réttilega, þegar þeir nefni tæpar tölur.
Tæplega

Bjarni Einarsson dr.phil. hefur oft bugað efni að þessum pistlum, svo sem fram hefur komið. Þakka ég honum það. það er líka vel þegið, að sem flestir leggi hér hönd á plóginn. Eitt sinn nefndi Bjarni við mig atviksorðið (ao,) tæplega, sem hann segir, að fréttamenn fjölmiðlanna noti ekki réttilega, þegar þeir nefni tæpar tölur. Vitnar hann í það, sem Árni Böðvarsson segir um þetta orð í bók sinni, Málfar í fjölmiðlum: "Eitt ofnotuðu orðanna [er tæplega]. Það er eins og menn hafi gleymt öllum samheitum, orðum eins og nálega, næstum, nærri, nærri því, hér um bil, naumlega, allt að því." Árni vísar í þessu sambandi í Samheitaorðabókina, þar sem stendur: tæplega, trauðla, trautt, tæpast, varla. Bjarni nefnir svo, að þetta vandamál þekkist einnig a. m. k. í sænsku og dönsku, þar sem ao. knappt og knap eru notuð, þar sem átt er við nærri eða næstum því. Virðumst við hafa tekið þetta upp eftir Skandínövum. Í ao. knap og tæplega felst í raun ákveðið mat. Hann var tæplega klukkutíma á leiðinni, þ. e. hann var fljótari en búizt hafði verið við. Hann var næstum eða nærri því klukkutíma á leiðinni, þ.e. hann var lengur á leiðinni en gert var ráð fyrir. Merking þessara atviksorða er því ekki hin sama, þegar grannt er skoðað. Þetta er rétt að hafa í huga við notkun þeirra. J.A.J.