WOLFGANG Schiffer á marga vini og samstarfsmenn hérlendis. Honum hafa hlotnast margvísleg verðlaun og viðurkenningar í Þýskalandi fyrir störf sín og árið 1991 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 1994 hlaut hann menningarverðlaun Íslandsbanka. "Áhugi minn á Íslandi og íslenskum bókmenntum vaknaði snemma," segir Wolfgang Schiffer.

Íslenskir höfundar njóta

athygli í Þýskalandi

Wolfgang Schiffer, rithöfundur og yfirmaður leiklistardeildar WDR útvarpsstöðvarinnar í Köln, hefur í samstarfi við Íslendinga lagt mikið af mörkum til að vinna íslenskum bókmenntum og menningu brautargengi í Þýskalandi. Einar Örn Gunnarsson hitti hann að máli.

WOLFGANG Schiffer á marga vini og samstarfsmenn hérlendis. Honum hafa hlotnast margvísleg verðlaun og viðurkenningar í Þýskalandi fyrir störf sín og árið 1991 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 1994 hlaut hann menningarverðlaun Íslandsbanka.

"Áhugi minn á Íslandi og íslenskum bókmenntum vaknaði snemma," segir Wolfgang Schiffer. "Í fyrstu beindist hann einkum að íslendingasögunum sem ég las strax sem barn. Það varð fljótlega draumur minn að fara til Íslands þó að hann yrði ekki að veruleika fyrr en í mars árið 1982. Við hjá WDR höfðum þá nýlokið við að hljóðrita leikrit Halldórs Laxness Kristnihald undir Jökli og var það gert í tilefni af áttatíu ára afmæli hans. Mér fannst tilvalið að ræða við skáldið í tengslum við flutning verksins. Ég skrifaði Halldóri bréf þar sem ég óskaði eftir viðtali og fékk jákvætt svar skömmu síðar.

Ég bjó á Hótel Borg en Halldór ráðlagði mér að gista þar. Fyrsta sólarhringinn varð ég fyrir ánægjulegu menningarsjokki því þegar líða tók á kvöld breyttist hótelið skyndilega í diskótek þar sem yndislegt fólk svolgraði í sig víni og tók hamskiptum. Daginn eftir lenti ég í snjóstormi þannig að þetta var allt nokkuð framandlegt.

Ég fór að Gljúfrasteini, heimili Halldórs og Auðar, þar sem var tekið sérlega vel á móti mér með góðum mat og víni. Undir löngu borðhaldi töluðum við um allt milli himins og jarðar; um Guð og veröldina uns ég minnti Halldór á viðtalið. Hann bauð mér þá upp í vinnustofu sína þar sem hann fékk sér vindil. Ég kveikti á segulbandstækinu og lagði fyrir hann spurningar sem ég hafði nefnt við hann áður. Halldór var hvorki tilbúinn né viljugur til að svara einni einustu þeirra. Eina sem hraut af vörum skáldsins voru yfirlýsingar á borð við: "Ég hef engan áhuga á þessari spurningu. Þetta er eitthvað sem lesendur verða sjálfir að ákveða." Óvænt viðbrögð Halldórs komu ónotalega við mig. Þegar samtalið hafði gengið svona í rúmar tíu mínútur stakk ég upp á að við hættum þessum þvættingi, færum niður og fengjum okkur aðeins meira vín."

"Minn kæri þýski félagi, það er stórkostleg hugmynd," svaraði hann. Er líða tók á nótt spurði hann mig hvað ég vissi um Ísland, íslenska rithöfunda, leikhúslíf í landinu og svo framvegis. Þar sem fátt var um afgerandi svör bauðst Halldór til að kynna mig fyrir ungri konu sem gæti upplýst mig um þessa hluti. Hann hringdi í Sigrúnu Valbergsdóttur sem stúderað hafði í Köln og skýrði henni frá því að á heimili hans væri Þjóðverji sem numið hefði í sömu borg. Þá nótt kom hún að Gljúfrasteini, við ræddum saman og hún ók mér síðan til Reykjavíkur.

Á þeim tíma var leikhúshátíð í Reykjavík þar sem ég kynntist fjölda fólks. Það varð ekkert úr viðtali við Halldór að þessu sinni. Ég skrifaði niður það sem hann sagði og hef haldið því til haga fyrir mig.

Einn dag hringdi síminn heima hjá mér og á hinum endanum var íslenskur maður, Franz Gíslason sem þá var staddur í Berlín. Hann sagðist hafa áhuga á að ræða við mig vegna ferða minna og tengsla við Ísland. Daginn eftir heimsótti hann mig og var það upphaf að stórkostlegri vináttu. Franz vildi meðal annars að við stuðluðum saman að útbreiðslu íslenskra bókmennta í Þýskalandi.

Norrænar bókmenntir áttu mjög erfitt uppdráttar á tímabili og voru sniðgengnar af hinum almenna Þjóðverja eftir síðari heimsstyrjöld þar sem nasistar höfðu notað menningu Norðurlandaþjóðanna til að vinna hugsjónum sínum fylgi.

Árið 1986 vann ég í samstarfi við Franz og Sigurð A. Magnússon að þýðingu á nokkrum verkum Íslendinga sem gefin höfðu verið út eftir heimsstyrjöldina síðari og komu þær á bók. Við höfum síðan unnið saman að margvíslegum þýðingum til dæmis þýddum við Franz Býr Íslendingur hér, endurminningar Leifs M¨uller, ljóð Stefáns Harðar Grímssonar og Snorra Hjartarsonar svo fátt eitt sé nefnt.

Með þessu framtaki myndi ég segja að við Franz og Sigðurður A. höfum að vissu leyti opnað dyr til inngöngu fyrir íslenska höfunda inn í þýskan bókmenntaheim. Þegar við vorum að stíga okkar fyrstu skref í kynningu íslenskra bókmennta þá voru menn vantrúaðir á famtakið en það viðhorf hefur breyst gjörsamlega.

Þegar ég var á Íslandi fyrir fáeinum árum þá hringdi Auður til mín og sagði að Halldór vildi finna mig. Ég fór að sjálfsögðu strax til hans. Það var ánægjulegt að hitta þau hjón en mér þótti sárt að verða þess áskynja hve heilsu hans fór hrakandi.

Í það skiptið hvatti hann mig til að gera íslenskri menningu enn frekari skil og það hef ég gert síðan.

Í dag njóta íslenskir höfundar töluverðrar athygli hér. Til að mynda hafa verk Einars Kárasonar verið gefin út í Þýskalandi undanfarin sex ár og verið vel tekið. Fyrst kom Djöflaeyjan en síðan hafa þær komið út hver af annarri. Englar alheimsins eftir Einar Má var gefin út fyrir skömmu og fékk fádæma góðar viðtökur. Það er þó ekki fyrsta verk hans sem út kemur á þýsku. Skáldverk þessa tveggja höfunda eru ólík og erfitt er að bera þau saman. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að kynna þá á vel heppnuðu upplestrarkvöldi í Köln. Gyrðir Elíasson er mikið ljóðskáld en jafnframt góður skáldsagnahöfundur. Hann hefur fengið þýðingar á mörgum ljóða sinna birtar í tímaritum og blöðum. Einnig hafa komið út í þýskalandi Bréfbátarigningin og Svefnhjólið. Matthías Johannessen hefur verið gefin út í Þýskalandi. Ljóð hans eru sérstök og fengu sérlega góðar viðtökur. Ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur eru kraftmikil, myndræn og litrík. Ég hef það á tilfinningunni að Baldur Óskarsson sé ekki áberandi á Íslandi en ljóð hans eru hrífandi.

Við hjá WDR höfum flutt nokkur íslensk leikrit. Að mínu mati er útvarpsleikritun á Íslandi í lægð. Ég er ekki að ásaka listamenn fyrir að vanrækja formið. Með tuttugu og tveggja ára reynslu að baki sem yfirmaður leiklistardeildar útvarpsstöðvar þá veit ég að þetta tengist ákvörðun ákveðinna aðila. Ég held að það eigi sér stað um alla Evrópu að yfirstjórnir vilja minnka svigrúm útvarpsleikrita í dagskrárgerð þar sem hlustun er ef til vill minni en áður og flutningur leikrita er kostnaðarsamur. En það má ekki gleyma hve miklvægt er að þjóna minnihlutahópum meðal áheyrenda.

Undanfarin þrjú ár hef ég ekki rekist á nein athyglisverð íslensk útvarpsleikrit en það væri ánægjulegt ef gott verk ræki á fjörurnar."

Ljósmynd/Anna Hallin WOLFGANG Schiffer