heitir ritsmíð Snorra Sigurjónssonar lögreglufulltrúa er birtist í Morgunblaðinu 29. október sl. Hann er orðinn leiður á umræðunni um kvótamálin og fullyrðir að hún sé runnin undan rifjum pólitíkusa, bæði utan og innan Alþingis.

Kvótakjaftæði

heitir ritsmíð Snorra Sigurjónssonar lögreglufulltrúa er birtist í Morgunblaðinu 29. október sl. Hann er orðinn leiður á umræðunni um kvótamálin og fullyrðir að hún sé runnin undan rifjum pólitíkusa, bæði utan og innan Alþingis. Mesta furðu vekur þó sú fullyrðing lögreglufulltrúans um að gjafakvóti sé ekki til! Þegar kvótahafar fóru að versla með kvótann í græðgi sinni, þá varð gjafakvótinn til og vegna þess að græðgin yfirféll þá í braskinu kom "sægreifa" nafngiftin til. Lögreglufulltrúanum hlýtur að vera ljóst, að þegar það óhappaverk var unnið á Alþingi, að veita kvótahöfum heimild til að veðsetja fiskveiðiheimildirnar að kröfu lánardrottna þá var endanlega gengið frá gjafabréfi á veiðiheimildum til "sægreifanna". Síðan þá er tómt mál um að tala að fiskurinn í sjónum sé þjóðareign.

Jón Hannesson,

kt: 190921-3609.

Þökk sé Gísla á Akureyri

"NUR ein Bach" var sagt um tónsnillinginn góða og aðeins er einn Gísli málsnillingur á Akureyri. Já, þökk sé þér Gísli ­ ekki tökk ­ fyrir að umfjalla erindi mín til þín svo mildilega í þætti þínum um Íslenskt mál hér í Morgunblaðinu 24. október.

Að vísu segir í helgri bók: "Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? o.s.frv. (Mt. 5:13)

En af því ég er á því að eitthvað sé til í orðunum svo megi brýna mjúkt járn (eða svoleiðis) að bíti, þá langar mig til að biðja þig, Gísli, að hugleiða nánar þetta með orðin "þökk" og "skírn" og vera með í viðnámi fyrir þessum orðum, a.m.k. öðru.

Textar RÚV-sjónvarps, er styðja skal íslenska menningu, eru útbíaðir í dönskuslettunni: takk, takk, takk. Dæmi: 8. október milli kl. 21 og 22: "Takk fyrir samvinnuna." Svar: "Ekkert að þakka." Hið flata, danska takk í stað hinna hljómgóðu þökk, þakkir, þakklæti.

Að vísu á þ-ið okkar nokkuð í vök að verjast, einnig í prédikunarstólum kirkjunnar, og er þá fokið í flest skjól er hinir lærðu gerast svo linir.

Svo er það "skírnin", sem er heilög athöfn í okkar kristna heimi. Hættum að skíra skip og skepnur, en gefum þeim nöfn.

Gísli minn góður, ég man eftir þér beinskeyttum fyrr á árum fyrir fallbeygingu heimsþekkts mannsnafns. Hvar er nú móður þinn? Látum ekki deigan síga þótt við gerumst silfurhærðir. Lifðu svo ætíð heill í Guðs friði.

Hermann Þorsteinsson. Athugasemd við grein

GÍSLI hafði samband við Velvakanda vegna greinar Bjarna Guðmundssonar sem birtist á bls. 38 miðvikudaginn 4. nóvember þar sem segir: "Frægt er orðið, þegar Olof Palme forsætisráðherra Svía skipaði sér í fylkingarbrjóst þeirra sem fordæmdu stríð Bandaríkjamanna í Víetnam." En hvar var Olof Palme þegar Rússar réðust inn í Afganistan? Þá var hann ekki að mótmæla.

Fyrirspurn til Póstsins

ERLA hafði samband við Velvakanda og vildi hún benda á að á Laugaveginum, á móts við nr. 77 var hafður póstkassi. En þegar framkvæmdir hófust á Laugaveginum var hann fjarlægður. Spyr Erla hvort ekki eigi að setja póstkassann upp aftur á þessum stað.