"ÞAÐ var sárt að horfa upp á fyrirtækið brenna til kaldra kola," segir Daníel Sigurðsson, einn eigenda vélaverkstæðisins og heildsölunnar Óseyjar hf. í Hafnarfirði sem gereyðilagðist í miklum eldsvoða í gærmorgun. Daníel, sem hefur verið að byggja fyrirtækið upp á síðustu ellefu árum, segir að tjónið sé líklega vel yfir eitt hundrað milljónir kr.
Bátasmiðjan Ósey eyðilagðist í stórbruna

Tjónið er talið verða

yfir 100 milljónir króna

"ÞAÐ var sárt að horfa upp á fyrirtækið brenna til kaldra kola," segir Daníel Sigurðsson, einn eigenda vélaverkstæðisins og heildsölunnar Óseyjar hf. í Hafnarfirði sem gereyðilagðist í miklum eldsvoða í gærmorgun. Daníel, sem hefur verið að byggja fyrirtækið upp á síðustu ellefu árum, segir að tjónið sé líklega vel yfir eitt hundrað milljónir kr. Fyrirtækið vinnur að nýsmíði á fjórum bátum og skemmdist einn þeirra mikið í eldsvoðanum. Slökkvistarfi var lokið um kl. 11 og hófst þá björgun verðmæta úr húsinu.

Vaktmaður hjá Securitas gerði lögreglu í Hafnarfirði viðvart um brunann laust fyrir kl. 8 á laugardagsmorgun. Þegar Slökkviliðið í Hafnarfirði kom að skíðlogaði í öllu húsinu, sem er um 2.000 fermetra skemma. Fengin var aðstoð frá Slökkviliðinu í Reykjavík þannig að á staðnum voru fjórir slökkvibílar auk þriggja tankbíla frá Holræsagerðinni og alls börðust 36 menn við eldhafið. Lögreglan lokaði Hvaleyrarbraut fyrir umferð þar sem gaskútar voru í byggingunni og höfðu að minnsta kosti fjórir þeirra sprungið áður en slökkvilið kom á staðinn.

"Það er skelfileg sjón að sjá þetta brenna svona. Þarna er allt ónýtt. Inni í húsinu er 50 tonna stálbátur sem við vorum að smíða og áttum að afhenda í desember. Það er ekki víst að mikið tjón hafi orðið á honum en þó er ljóst að lúkarinn er ónýtur. Í húsinu voru önnur verkefni í gangi og auk þess urmull af tækjum og tólum. Tjónið er vel yfir 100 milljónir kr.," sagði Daníel.

Húsið, sem stendur við Hvaleyrarbraut 32 og 34, er gamalt, en búið var að gera viðamiklar endurbætur á því á síðustu árum. Daníel sagði að mikil verðmæti væru fólgin í húsinu og þeim tækjum sem í því voru.

Slökkvilið réðst strax til atlögu við eldinn í sunnanverðu húsinu þar sem hann var mestur. Þar voru flestir gaskútanna og náðist að kæla þá niður þannig að fleiri sprengingar urðu ekki. Þorsteinn Hálfdánarson, aðalvarðstjóri hjá Slökkviliðinu í Hafnarfirði, sagði að nóg vatn hefði verið á staðnum en vont veður hefði sett strik í reikninginn. Við sunnan- og vestanvert húsið voru þrír 30 tonna bátar sem verið var að smíða. Slökkviliði tókst að verja þá gegn ágangi eldsins. Tvo bátanna var verið að smíða fyrir Feng í Ólafsvík, þriðji báturinn átti að fara til Rifs og sá fjórði til Grundarfjarðar.

Daníel kvaðst vonast til þess að unnt verði að byggja fyrirtækið upp á nýtt. 30 starfsmenn eru hjá Ósey og þar að auki var fyrirtækið verktaki í ýmsum verkefnum. Alls höfðu að öllu jöfnu 45 manns vinnu hjá fyrirtækinu. "Við ætlum að hefjast handa strax eftir helgi og ég geri ekki ráð fyrir því að neinn missi vinnuna. Við þurfum að koma okkur upp aðstöðu til þess að geta haldið áfram með þessi stóru verkefni okkar," sagði Daníel.

Hann segir að engar tryggingar bæti alfarið tjón af þessu tagi. "Ég held að tryggingar hafi samt verið í ágætu lagi," sagði Daníel.

Morgunblaðið/Júlíus HÚSIÐ skíðlogaði þegar slökkvilið kom á vettvang rétt eftir kl. 8 í gærmorgun.