EITT af því sem einkennir matarmenninguna hér í Belgíu er bjórinn. Í landinu ríkir sterk bjórhefð, og þær eru nær óteljandi tegundirnar sem af honum fást, enda eru Belgar mesta bjórdrykkjuþjóð Evrópu ef ekki heims, miðað við höfðatölu. Maður bjóst því við því að sjá allmargar bjórvambir hér á vappi, en sú varð ekki raunin.
»MATARLISTð/Er bjór ekki fitandi?

Hófleg bjórdrykkja

í bjórlandinu Belgíu

EITT af því sem einkennir matarmenninguna hér í Belgíu er bjórinn. Í landinu ríkir sterk bjórhefð, og þær eru nær óteljandi tegundirnar sem af honum fást, enda eru Belgar mesta bjórdrykkjuþjóð Evrópu ef ekki heims, miðað við höfðatölu. Maður bjóst því við því að sjá allmargar bjórvambir hér á vappi, en sú varð ekki raunin. Mér sýnist í fljótu bragði bjórvömb þjóðarinnar hlaðast aðallega utan á ákveðnar stéttir, t.d. eru margir iðnaðarmenn og póstburðarmenn með sérdeilis væna bumbu, og um daginn mætti ég póstburðarmanni snemma morguns angandi af bjór. Honum þykir greinilega gott að hefja daginn á vænum bjórsopa. En varla getur allur þessi belgíski bjór runnið einungis ofan í ofangreinda bumbubera? Nei, tæpast, en það er ekki sama í hvaða samhengi maður drekkur bjórinn og hve mikið í einu. Maður getur náttúrlega fitnað af bjór ef maður drekkur hann í stjarnfræðilegu magni og borðar auk þess með honum kaloríuríkan mat.

Staðreyndin er hins vegar sú að 340 ml flaska af bjór inniheldur um 140 kaloríur, sem eru færri kaloríur en eru t.d. í sama magni af mjólk (240 kal.) eða eplasafa (174 kal.). Safi úr 1 greipaldini inniheldur álíka margar kaloríur og áðurgreint magn af bjór. Jafnvel 250 g af hinni "fitusnauðu" kotasælu innihalda um 250 kal. Þannig að ekki er allt sem sýnist. Ólíkt mörgum öðrum fæðutegundum (sem sagðar eru góðar fyrir línurnar), þá er bjórinn afar seðjandi og veitir manni þá tilfinningu að maður sé með fullan magann.

Ef við erum raunsæ þá sjáum við að maður sest ekki einungis til borðs til að næra sig í næringarfræðilegu tilliti. Oft borðar maður af stressi og þá af græðgi. Við stressi getur hins vegar verið gott ad fá sér einn bjór, því hann hefur róandi áhrif.

Hvað félagslega þáttinn varðar, þá er bjór tilvalinn drykkur ef á að fá sér aðeins í glas í vinahópi. Í bjórnum er hlutfallslega minna bæði af kaloríum og alkóhóli en í nokkurri annarri áfengistegund. Þ.a.l. getur maður sötrað í rólegheitum einn bjór án þess að fitna eða finna of mikið á sér. Bjór er einnig afar næringarríkur. Auk alls vatnsins er hann mjög auðugur af B-vítamínum, einkum níasíni, og hann er líka afar próteinríkur. Til samanburðar eru kaloríur viskís eingöngu alkóhólkaloríur, þ.e. þær getað framkallað ákveðna orku sé þeim brennt samstundis (t.d. í villtum dansi á skemmtistað). Þessar tilteknu kaloríur sterks áfengis hafa hins vegar þá tilhneigingu að eyðileggja vefi líkamans sé þeim ekki brennt samstundis.

Samkvæmt ýmsum rannsóknum er yfirleitt talið að skaðsemi áfengisneyslu fyrir líkamann miðist við um 80 g af áfengi á dag. 340 ml af bjór innihalda aðeins um 12 g af alkóhóli. Í hæfilegu magni hefur áfengi sem sagt ekki skaðleg áhrif á líkamann og getur beinlínis haft mjög jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið og þar með langlífi. Ég las meira að segja grein um daginn í vísindariti, þar sem fjallað var um rannsóknir, sem höfðu sýnt fram á að þeim sem drykkju bjór í hæfilegu magni (svona 2­3 bjóra á dag), væri ekki eins hætt við hjarta- og æðasjúkdómum og bindindisfólki og þeim sem drykkju bjór óreglulega.

Bjór er líka ágætissvefnmeðal. Það er ekki bara áfengið sem er svæfandi, heldur hafa humlarnir, sem notaðir eru til að bragðbæta bjórinn, mjög róandi áhrif. Í Evrópu er humall löngu þekktur sem vægt svefnmeðal. Það tíðkaðist hér í gamla daga að tylla ögn af þurrkuðum humlum í eyrun áður en svifið var inn í draumalandið. Glas af uppáhalds bjórnum gerir því sama gagn.

Format fyrir uppskriftir Kvöldnart

2­4 heilir hvítlaukar

4 msk ólífuolía

4­8 sneiðar ítalskt brauð

Skerið ofan af hvítlaukunum og ca. 1/4 að neðan og setjið þá á bökunarpappír.

Hellið 2 msk af olíunni yfir þá og lokið því næst bökunarpappírnum vandlega. Bakið í ofni við 225 gráður í um 30­40 mín. Penslið brauðið með afganginum af olíunni og bakið sneiðarnar á neðstu rim ofnsins síðustu 10 mín. bökunartímans. Þegar hvítlaukurinn er orðinn meyr, kreistið þá hvítlauksolíuna ofan á brauðið. Þetta er notalegur forréttur eða náttverður með einum bjór svona í skammdeginu og kuldanum.