leiðari AGAÐ ÞJÓÐFÉLAG Fyrir nokkru fóru skólastjórar frá Reykjavík í ferð til Singapúr til þess að kynna sér skólastarf þar, sem vakið hefur athygli m.a. fyrir góðan árangur nemenda í stærðfræði og náttúrufræðigreinum. Niðurstaða Gerðar Óskarsdóttur, fræðslustjóra í Reykjavík, eftir þessa ferð er eftirtektarverð.
leiðari

AGAÐ ÞJÓÐFÉLAG

Fyrir nokkru fóru skóla stjórar frá Reykjavík í ferð til Singapúr til þess að kynna sér skólastarf þar, sem vakið hefur athygli m.a. fyrir góðan árangur nemenda í stærðfræði og náttúrufræðigreinum. Niðurstaða Gerðar Óskarsdóttur, fræðslustjóra í Reykjavík, eftir þessa ferð er eftirtektarverð. Hún sagði á kynningarfundi um þessa ferð: "Við sáum ekki öðru vísi kennsluhætti en við eigum að venjast en við sáum óvenjulegt og agað þjóðfélag og þar af leiðandi mjög agað skólakerfi, mikla samkeppni og fólk, sem er þrautþjálfað í að taka þátt í henni."

Þetta er óneitanlega umhugsunarefni. Er það sem úrslitum ræður ekki annars konar kennsluhættir heldur agi? Öllum er ljóst, að við búum í mjög agalausu samfélagi og höfum lengi gert. Hins vegar má vel vera, að það sé að breytast smátt og smátt. Agaleysið í umferðinni hefur verið áberandi í áratugi. Breyttar starfsaðferðir lögregluyfirvalda eru hins vegar að skila verulegum árangri í því að auka umferðaraga. Agaleysi á vinnustöðum hefur sömuleiðis verið áberandi. Sennilega er það líka að breytast. Aukin samkeppni á vinnumarkaði veldur því, að fólk mætir stundvíslegar til vinnu og leggur harðar að sér en áður. Fjölmörg fleiri dæmi mætti nefna um aukinn aga í okkar þjóðfélagi.

Það fer hins vegar ekkert á milli mála, að það agaleysi, sem hefur einkennt þjóðfélagið almennt, hefur endurspeglazt í starfi skólanna og sjálfsagt ekki undan því komizt. Hins vegar má segja, að ef vandinn er sá, að auka aga en ekki að breyta kennsluháttum, sé vandinn kannski auðleystari en við höfum haldið. Með sameiginlegu átaki foreldra, kennara og skólabarna og -unglinga er hægt að ná miklum árangri á skömmum tíma í að auka aga í skólum. Og tæpast fer á milli mála, að aukinn agi er líklegur til að leiða til betri árangurs í námi.

Ummæli barna nýbúa, sem Morgunblaðið ræddi við fyrir viku, eru athyglisverð í þessu ljósi. Það sem vakti mesta eftirtekt þeirra og þau voru óvön, þegar þau komu í skóla hér, var einmitt agaleysið.

Skólastjórarnir sáu margt fleira fróðlegt í ferð sinni til Singapúr svo sem aukna áherzlu á sjálfstæða hugsun og gagnrýni í stað utanbókarlærdóms. En þessi tiltekni þáttur, aginn, er áreiðanlega sá, sem ástæða er til að gera átak í að bæta úr strax. Slíkt átak þarf að vera vandlega undirbúið en það er líklegt til að skila árangri.