Vilhelmína Loftsson Af barnabörnum Vilhelmínu kem ég hvað síðastur í heiminn, og er í rauninni aðeins nýbúinn að kynnast henni, sem félaga. Hún var nefnilega ekki þessi dæmigerða amma sem tekur á móti manni með kossum og knúsum og súkkulaðimolum. Það ríkti viss fjarlægð. Náin fjarlægð. Virðing. Fyrst og fremst virðing í kringum hennar líf og starf. Þannig kynntist ég ömmu sem barn, úr fjarlægð þar sem ég teygaði á andrúmsloftinu á Laugarnesveginum. Það var alltaf eins og að stíga inn í annan heim að koma þar inn. Teppi sem veggklæðning, ílát með dagblöðum í héngu uppi á vegg, krukkur með öðruvísi mat voru hér og þar og lykt af alls kyns tei og jurtum. Söl sá ég fyrst á ævinni heima hjá ömmu og lengi vel hvergi annars staðar nema þar. Ég smakkaði það sem smá strákur og datt ekki í hug að þykja það vont, því þetta var svo merkilegur matur. Minnir mig alltaf á ömmu. Svo var það kjallarinn. "Má ég fara niður?" spurði ég lítill og prúður í hvert skipti sem ég kom í heimsókn með foreldrum mínum. Neðri hæðin var full af bókum og tímaritum og gömlum hlutum, þar sem ég fékk að grúska og uppgötva. "Ertu búinn að þvo þér um hendurnar?" svaraði hún að bragði. Alltaf. Maður gekk alltaf af virðingu um eigur ömmu. Það var lykillinn að hennar lífi. Hún kenndi mér að fletta bókunum sínum, á horninu, svo að ekki kæmi krumpa. Enn í dag fletti ég mínum eigin bókum eins og amma kenndi mér, ­ af alúð. Ég bý einnig að þeim forréttindum að hafa fengið að hjálpa ömmu að flokka og sortera bókasafnið hennar og komast þannig í kynni við heilan heim af vísdómi frá fyrstu hendi, án þess að neinu væri troðið í mig. Með barnslegri undrun virti ég hvert tímarit fyrir mér sem ég handlék á meðan ég flokkaði fyrst í áratugi, svo ár og loks í tímaröð. Hálf öld af samfelldri áskrift. Virðing. Upplifun. Hún var svo mikill grúskari, alltaf að gera eitthvað, læra eitthvað, og átti mikið safn af sérkennilegum munum. Það var alltaf jafn spennandi og lifandi að koma í heimsókn. Þessi karakter hélst í gegnum allt sem hún gerði. Ég man eftir jólagjöfunum hennar. Þær voru ekki aðkeyptar í jólavertíðinni. Nei. Þær voru "lifaðar" og sögðu nána sögu af menningu þjóða og tengslum hennar sjálfrar við fjarlæga heima. Ég held mikið upp á keramikskel eina djúpgræna sem til siðs var að hengja upp ofan til við útidyr húsa á Spáni til merkis um að pílagrímar mættu þar inni eiga von á súpu og næturskjóli. Þannig birtist hlýleiki ömmu, gagnvart öðru fólki, viska hennar og lífsreynsla svo og virðing hennar gagnvart mér til að skilja svo djúpa gjöf. Amma var ekki vön að opna sig mjög tilfinningalega, en alúðin var mikil og hún leitaðist stöðugt við að koma fram við okkur barnabörnin sem þroskaða einstaklinga og gerði allt til að styrkja okkur til mennta. Hún hafði mikinn metnað fyrir okkar hönd og gladdist innilega þegar vel gekk. Hennar umhyggja birtist helst þannig, á praktískan hátt, í verki og sönnum áhuga á framgangi okkar barnabarnanna.

Ég var svo heppinn fyrir um 15 árum að fá að heimsækja hana með foreldrum mínum til Spánar, þar sem hún bjó um tíma með móður sinni. Ég virti hana fyrir mér úr fjarska, tala erlend mál, lifa erlendu lífi. "Amma, hvað talarðu eiginlega mörg tungumál?" spurði ég fullur aðdáunar er ég fylgdist með henni sinna erindum úti á götu. Hún var mikill leyndardómur fyrir mér. Var hún virkilega hollensk? Hún var hógværðin uppmáluð og gerði lítið úr, en hvatti mig jafnframt til að ferðast og skoða lífið sjálfur, læra tungumálin og vera eins og innfæddur. Það hefur blundað í mér síðan í öllu mínu námi og ferðalögum, og hefur mótað mig mikið sem persónu.

Sem barn kynntist ég henni ekki mjög persónulega. Það var ekki fyrr en ég var farinn að horfa á lífið með eigin augum, farinn að feta mína menntabraut, sem ég fór að leita til hennar, gera henni smá viðvik, og spjalla yfir tebolla í björtu íbúðinni uppi á tíundu hæð. Með aldrinum sá ég betur og betur að hún var djásn þessi kona og ég einsetti mér að rækta hana vel. Þrátt fyrir mikil ferðalög hjá mér og veikindi hjá henni þá eigum við ótal stundir að baki saman í íbúðinni þar sem við sötruðum te og nutum þess að spjalla um menningu þjóðanna, líf og listir. "Er það ekki merkilegt!" sagði hún af innilegri gleði eins og lítil stelpa sem var að uppgötva lífið upp á nýtt. Og þannig kom maður í heimsókn til ömmu upp á Aflagrandann, passaði upp á að hafa alltaf frá einhverju að segja, helst eitthvað óvenjulegt, eitthvað nýtt. Það kunni hún best að meta. Hún var líka svo natin við að finna einhverjar sögur úr eigin lífsreynslusjóði til samanburðar við það sem maður hafði fram að færa og gjarnan veltum við fyrir okkur menningu þjóðanna, hvað lífið væri nú skrítið og athyglisvert hér og þar. Við deildum áhugamálum sem voru ótæmandi mörg. En loks þegar ég var farinn að kynnast henni ömmu minni fyrir alvöru gerðist það óumflýjanlega, að henni fór að förlast hugsunin og elliþreytan færðist yfir. En við héldum áfram að eiga góðar stundir á spítalanum. Betri en áður.

Nú er hún farin, ættmóðirin, og eftir situr meira en minning. Hún var lífsreynsla sem maður er sífellt að grípa til. Fyrir vikið hefur mér aldrei þótt skelfileg tilhugsun að eldast. Satt að segja er það visst tilhlökkunarefni. Ég get hlustað á Megas þegar ég er sjötíu ára, byrjað að læra dönsku áttatíu ára og fengið börnin og barnabörnin í te til að rifja upp hafsjó af minningum. Síðan getur maður haldið áfram að undrast langt fram eftir aldri. Þannig var hún amma.

Þorsteinn Guðni Berghreinsson.