Þórunn Sigríður Gísladóttir Þessa dagana er ég ekki aðeins að syrgja móður mína heldur einnig mjög góðan vin, vin sem ég gat alltaf talað við um allt milli himins og jarðar. Við höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman þó að tíminn sem okkur var gefinn hafi verið allt of stuttur. Það eru svo margar minningar sem leita á huga minn þessa dagana og verður eflaust um alla framtíð. Sérstaklega eru það minningar um tímann sem við eyddum saman úti í garði á sumrin að spila og ræða málin og þegar börnin mín komu í heiminn og hvað þú varst hrifin af þeim báðum. Þau munu alltaf muna þig og minningum verður haldið við. Svo ekki sé minnst á ferðalögin sem við fórum í út um allt land þegar ég hafði fengið bílprófið. Þau voru kannski ekki öll löng, eins og þegar við skutumst í Meðallandið til Sollu og krakkanna, fram og til baka á einum degi. Eða þá sá árstími sem nú fer senn að hefjast, jólin, með öllu sínu umstangi. Við vorum stoltar yfir því að vera jólakerlingar og nutum þess út í ystu æsar að undirbúa jólin. Ófáum jólablöðum flettum við í gegn og ráðgerðum ýmislegt, sem svo var ekki framkvæmt. Það skipti ekki eins miklu máli heldur var það tíminn og andinn sem skipti máli. Það verður erfitt að þurfa að upplifa þessar stundir fyrir þessi jól en þó hef ég svo margs að minnast sem á eftir að gefa huga mínum ró.

Lífið heldur áfram, þeir sem eftir eru læra að lifa með sorginni. Það er erfitt á meðan á þessu stendur, en svo eru það minningar sem eftir eru, sem eru yndislegar og gott að rifja upp. Þórunn háði erfitt stríð og hafði ekki betur, eins og svo margir aðrir. En það að horfa á einhvern taka á erfiðleikum á þann hátt sem hún gerði er mikils virði, ekki er hægt að lýsa því með orðum. Hún var stolt, allt til þess tíma að þrekið þraut og veikindin tóku völdin. Hún var sátt við líf sitt þrátt fyrir ungan aldur því hún hafði upplifað mikla hamingju síðustu ár ævi sinnar og var þakklát fyrir það. Það gilti að vera sáttur við það sem maður hafði og vera ekki að malda í móinn, það kæmu betri tímar seinna meir. Ég lít svo á að það séu komnir betri tímar hjá henni og nú sé hún laus við þjáningar og líði vel. Ég vil með þessum fátæklegu orðum þakka fyrir allt sem var, er og verður.

Með söknuði,

Sigurborg.