Kristín Bjarney Ólafsdóttir Kæra vinkona mín. Hvernig á ég að kveðja þig? Orðin eru ekki til, sem lýsa tilfinningum þeim sem ryðjast fram. Æskuvinkona, sem hverfur á braut og kemur aldrei aftur nema í minningunum. En ég er líka rík af þeim. Ég er rík að hafa fengið að eiga þig að vini þótt leiðir okkar hafi ekki endilega legið saman. En það var hið einkennilega samband, þau tryggðabönd sem við bundumst frá barnæsku, sem hélt utan um allt saman. Og minningarnar hendast fram, hver á fætur annarri. Við hófum lífið saman, við uppgötvuðum töfraheiminn saman, við fullorðnuðumst saman.

Fyrsta vinkonan, sem ég eignaðist, þegar ég flutti í Laugarneshverfið, ellefu ára gömul. Bekkjarsystir í byrjun og vinur til eilífðar. Rölt út á Laugarnestanga, gegnum kampinn, hvískur og leyndarmál, sem enginn mátti heyra nema við tvær. Setið niðri í fjöru og rabbað og gantast. Farið í bíó og labbað á rúntinn. Það er gott að staldra við og rifja upp. En þú áttir erfiða æsku, sem ég gerði mér ekki grein fyrir, fyrr en löngu seinna. Þú, sem alltaf varst kát og hress og svo yndislega hláturmild, lézt aldrei uppi þínar sorgir við neinn. Ungar hófum við lífsbaráttuna báðar, þótt við færum hvor í sína áttina. En alltaf þurfti að vera samband. Það mátti ekki rofna og því urðu símtölin mörg í gegnum árin. Linda dóttir mín man svo vel, þegar við komum í heimsókn á Framnesveginn, þar sem þú bjóst með Matta og Boggu litlu, sem var engillinn þinn allt til enda. Þá höfðum við ekki sést í nokkur ár. Henni fannst skrítið að við værum vinkonur, en hittumst aldrei! Það er engin skýring til á því, en hlutirnir æxluðust þannig að leiðir okkar lágu æ sjaldnar saman. En alltaf var hringt og spurt frétta. Áður en ég vissi af var ég farin að treysta því að þú mundir hringja rétt eftir áramótin á hverju ári. Þá héldum við bara áfram að spjalla, eins og venjulega. Ekkert var sjálfsagðara. Mér finnst við alltaf hafa skilið hvor aðra, fundið barnið í okkur í hvert sinn. Hið göfuga hlutverk að vera foreldri var þér kært og gæfuríkt. Enda árangurinn í samræmi við það. Bogga átti góða og ástríka móður. Ást þín á börnum og dýrum var þér í blóð borin, og barstu gæfu til þess að annast hvorttveggja alla tíð. Elsku vinkona, það, að þekkja þig og fá tækifæri til að endurnýja og styrkja vináttuböndin fyrir nokkrum árum, hefur gefið mér svo mikið. Það var svo gott að hitta þig á ný, finna hvað í raun lítið hafði breytzt okkar á milli, þrátt fyrir mikla lífsreynslu beggja. Þá gafst mér tækifæri til að kynnast fullþroska konu í reynd, sem upplifði svo mikinn missi aftur og aftur, en lét aldrei bugast. Þess í stað efldist trú þín og auðmýkt fyrir lífinu. Jákvætt hugarfar og æðruleysi gagnvart mótlæti vöktu undrun mína og aðdáun. Veikindi þín veiktu þig ekki, heldur hófu þig upp til æðri þroska. Hugrekki þitt og lífsvilji voru til fyrirmyndar öllum sem þig þekktu. Samverustundir okkar hefðu mátt vera miklu fleiri, því við áttum svo mikið eftir að spjalla. Við ræddum um trúmál, en það gat aldrei verið tæmandi. Áhugi okkar beggja var vakinn. Trúin var okkar beggja. En framhaldið verður annars staðar, ég efast ekkert um það.

Kæra vina, ég kveð þig með söknuð í hjarta, en fyrst og fremst þakklæti fyrir allt, sem þú gafst mér. Nú ertu laus úr viðjum þjáninga, þótt engum finnist tímabært að þú hverfir svo fljótt úr þessum heimi.

Elsku Bogga mín, Guð gefi þér, fjölskyldu þinni og ástvinum styrk á þessari stundu. Missir ykkar er mikill.

Vor tár, gera oss skammsýn á skilnaðarstund.

Og skuggi okkar sjálfra er það myrkur, sem bugar vort þrek, en ef andinn í hæðirnar hugar,

í hjartanu birtir og gleðst okkar lund.

Sjá! Dauðinn, er áfangi á eilífðarbrautum,

vort athvarf og lausn vor frá jarðneskum þrautum. (Reinhardt Reinhardtss.) Kveðja frá vinkonu.

Sigrún L. Kvaran.