Málfríður Guðsteinsdóttir Okkur langar til að minnast vinkonu okkar, Málfríðar Guðsteinsdóttur. Kynni okkar hófust haustið 1946 þegar við hófum nám í Kvennaskólanum í Reykjavík. Strax fyrsta veturinn var stofnað til vináttu sem ekki hefur borið skugga á í 52 ár, en síðan þá höfum við verið saman í saumaklúbbi. Æskuheimili Lillu, eins og hún var kölluð af fjölskyldu og vinum, var á Laugavegi 34, hún var yngst í stórum systkinahópi og bjó við gott atlæti en barn að aldri varð hún fyrir þeirri miklu sorg að missa móður sína. Hún var góður félagi, hreinskilin og skemmtileg. Okkur er það minnisstætt, að á æskuheimili hennar var plötuspilari sem var ekki mjög algengt á þeim árum og fannst okkur mikill fengur í því. Hún var íþróttakona góð og æfði bæði handbolta og sund á unglingsárunum. Að loknu Kvennaskólaprófi 1950 stundaði hún nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, hún hafði þá þegar kynnst Ólafi Diðrikssyni múrarameistara sem varð lífsförunautur hennar. Með dugnaði og samheldni byggðu þau sér fallegt og gott heimili í Langagerði 98 þar sem þau bjuggu lengst af, þau eignuðust fimm mannvænleg börn, sem ólust upp við kærleika foreldranna. Lilla var listfeng og allt lék í höndum hennar og svo var hún snillingur við matargerð. Garðurinn við hús þeirra bar henni fagurt vitni, en þar ræktaði hún og hlúði að gróðri á þann veg að aðdáun vakti. Ótal minningar eigum við um gleðistundir á heimili þeirra enda voru þau hjónin höfðingjar heim að sækja.

Eftir að börnin stálpuðust fór hún út á vinnumarkaðinn og starfaði við saumaskap hjá TM-húsgögnum þar sem handbragð hennar hefur notið sín vel. Nú í sumar hætti hún störfum og nýverið fluttu þau í þægilega íbúð sem hentaði þörfum þeirra vel og vonir stóðu til að geta notið ævikvöldsins saman en þá veiktist hún og lést eftir stutta en stranga sjúkrahúslegu 30. október.

Við í saumaklúbbnum og makar okkar kveðjum góða vinkonu með miklum söknuði. Við þökkum áratuga vináttu og samfylgd og biðjum góðan Guð að blessa og styrkja Óla, börnin og fjölskyldur þeirra á sorgarstundu.

Blessuð veri minning Málfríðar Guðsteinsdóttur.

Saumaklúbburinn.