Kristín Bjarney Ólafsdóttir Elsku Stína frænka. Við höfum mikla löngun til að skrifa um þig minningargrein en gátum það ekki strax. Þú vildir ekki fara strax, þú áttir svo margt eftir að gera hér. Hvað þú barðist fyrir lífinu og varst svo ótrúlega dugleg og ekki hefði mann órað fyrir því að þú værir að fara ef við hefðum ekki vitað hvað hún varst mikið veik. Þú ert og verður alltaf hetja, hetja frá Dynjanda í Jökulfjörðum og Hornströndum. Á æskuslóðunum vildir þú svo sannarlega vera, elsku frænka. Í Furufjörðinn fórst þú gangandi yfir Skorarheiði, en á Dynjanda bjugguð þið Bubbi ykkur skjól sem var ykkar Paradís. Aðeins einu sinni tókst okkur, fjölskyldunum í Tungu, að heimsækja ykkur í fellihýsið á Dynjanda. Þvílík gleði að sjá ykkur taka á móti okkur, þið beinlínis ljómuðuð af ánægju yfir því að loksins værum við komin á hestunum að Dynjanda.

Það er svo dýrmætt fyrir okkur sem eftir erum að hafa átt perlu eins og þig, Stína frænka. Við mótumst af þeim sem í kringum okkur eru og þú ert ein af þeim sem hefur geislað hlýju og kærleika sem aldrei verður frá okkur tekin, enda fædd inn í yndislega kærleiks- og faðmlagaætt. Ég vildi að allir væru eins heppnir og við.

Við hugsum lengra aftur þar sem þú í ljósmóðurstörfum þínum fórst langar leiðir í snjó og brjáluðum veðrum til að hjálpa konu við barnsburð. Þú sagðir okkur að stundum hefðir þú farið viku til hálfum mánuði áður til að hjálpa til og sárast hefði verið að horfa upp á þegar lítið sem ekkert var til á barnið, stundum bara ein flík.

Oft voru ljósmóðurstörfin þér örugglega erfið en gáfu þér ómælda gleði, því almættið vakti yfir þér og öllum þínum störfum.

Í farveru þinni, þegar þú sinntir konum og börnum, hugsaði Bubbi um börnin ykkar og heimilið ásamt sinni góðu systur, Önnu Bjarnadóttur o.fl. og þeim fórst það vel úr hendi eins og annað. Þakka þér fyrir, elsku frænka, að taka á móti börnunum okkar því þú hafðir svo góðar og hlýjar hendur og huga sem hjálpuðu til við að lina þrautirnar.

Elsku Bubbi, Svavar, Lóló, Kiddý og fjölskyldur. Við vottum ykkur innilega samúð við missi eiginkonu, mömmu og ömmu. Umhyggjan og góðsemi hennar lifir í ykkur öllum og við vitum að við hittum hana síðar. Guð veri með ykkur.

Linda og Guðni, Tungu. Ólöf Samúelsdóttir.