Kristín Bjarney Ólafsdóttir Í Borghúsinu Laufásvegi 5, sem svo var kallað, bjó Þórunn mágkona mín síðustu ár ævi sinnar. Húsinu sem bókstaflega iðaði af sögu og skemmtilegum atburðum og það passaði henni Tótu minni vel því frá unga aldri beindist hugur hennar að bóklestri og grúski, um sögu gamalla húsa og atburða.

Ein af fyrstu minningum mínum um hana er að hún sat með stafla þjóðsagna Jóns Árnasonar og las af áhuga, þá 10 ára gömul. Seinna gladdist hún yfir því að Laufásvegur 5, sem átti svo mikla sögu og henni þótti svo vænt um, var reist af Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara árið 1880. Í húsinu lifðu og dóu listamenn, leikarar og síðar bjó þar tónlistarfólk. Í þessu húsi og í litla húsinu í garðinum passaði hún mörg börn og þar trítluðu margar kisur um garðinn. Einu sinni spurði lítill drengur Tótu ; Af hverju eru hérna svona margir krakkar og kisur ? Þá svaraði hún honum; Af því að mér þykir svo vænt um krakka og kisur. Hún var sannur manna- og dýravinur.

Ég er stolt af því að hafa átt hana að vini. Guð gefi Boggu börnunum hennar og Haraldi styrk í sorginni. Minning hennar lifir hjá okkur.

Kristín Guðbjartsdóttir.