EKKI er óeðlilegt að menn deili um stjórnun fiskveiða. Ég hef oft blandað mér í þær deilur enda haft um þær meiningar. Það er þó ekki efni þessa greinarkorns. Hvernig sem við stjórnum fiskveiðunum þá eru þeir sem eru handhafar veiðileyfanna handhafar sérstakra atvinnuréttinda. Þessi atvinnuréttindi ber stjórnvöldum að verja með öllum ráðum.
Stjórnvöldum ber skylda til að varðveita atvinnuréttindi allra

Að sjálfsögðu hefur það engin áhrif á lífríki hafsins, segir Einar Oddur Kristjánsson , hvort krókabátar veiða fimm eða tíu þúsund tonnum meira eða minna af þorski frá ári til árs.

EKKI er óeðlilegt að menn deili um stjórnun fiskveiða. Ég hef oft blandað mér í þær deilur enda haft um þær meiningar. Það er þó ekki efni þessa greinarkorns.

Hvernig sem við stjórnum fiskveiðunum þá eru þeir sem eru handhafar veiðileyfanna handhafar sérstakra atvinnuréttinda. Þessi atvinnuréttindi ber stjórnvöldum að verja með öllum ráðum. Þeim ber skylda til að varðveita atvinnuréttindi allra ­ jafnt þeirra sem róa á aflamarki og hinna sem hafa krókaleyfi. Og þetta er að sjálfsögðu hægt. Löggjöfin um stjórnun fiskveiða er fyrst og fremst hagstjórnartæki. Vandamálið er að sjávarútvegsráðuneytið, sem er haldið þorskveiðifælni, er alltaf að rugla þessu tvennu saman ­ hagstjórn og fiskfriðun. Það að tryggja krókabátum afkomu er pólitísk ákvörðun sem kemur öllum til góða. Krókabátarnir eru í dag alls ekkert vandamál. Tekist hefur að ná utan um stærð þessa flota og þokkalegri sátt ætti að vera auðvelt að ná um fjölda sóknardaga sem tryggði þeim rekstrargrundvöll. Þessir bátar taka í raun ekkert frá öðrum eins og sjávarútvegsráðuneytið er því miður svo oft að staglast á. Afli þeirra kemur að sjálfsögðu úr hafinu og hann sveiflast til frá ári til árs.

Stundum er tíðin erfið og þorskurinn leggst frá landinu. Þá veiða þessir bátar lítið og ekkert við því að gera; menn harma bara hlutinn sinn. Í annan tíma gengur betur ­ eins og á undanförnum misserum. Veðráttan hefur verið hagstæð og mikið fiskmagn á grunnslóðinni. Tímabundin velgengni þessara báta má þó ekki rugla menn í ríminu. Að sjálfsögðu hefur það engin áhrif á lífríki hafsins hvort þessi skip veiða fimm eða tíu þúsund tonnum meira eða minna af þorski frá ári til árs. Það er hrein firra að halda öðru fram. Ég er þess fullviss að lögin um stjórnun fiskveiða standast og því er auðveldlega hægt að tryggja atvinnuréttindi allra.

Hins vegar eru aðrir sem trúa því að í dómi Hæstaréttar felist þau skilaboð að fiskveiðum við Ísland megi ekki stjórna öðruvísi en þannig að útdeilt sé kvótum jafnt til allra landsmanna. Ég ráðlegg mönnum eindregið að reyna ekki að hugsa til enda afleiðingar slíks fyrirkomulags fyrr en eftir jól.

Höfundur er alþingismaður.

Einar Oddur

Kristjánsson