Breytingar
til skoðunar
BREYTINGAR eru fyrirhugaðar á
starfsemi Neytendasamtakanna og á stjórnarfundi síðastliðinn laugardag var skipaður þriggja manna starfshópur til að skoða hvernig starf samtakanna verði best skipulagt þannig að það nýtist neytendum í landinu sem best. Starfshópurinn kemur saman til fyrsta fundar milli jóla og nýárs.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við Morgunblaðið að hjá Neytendasamtökunum væri ákveðið sóknarfæri á næsta ári þar sem niðurskurður á starfsemi samtakanna á þessu ári hefði verið mikill. Jóhannes var kosinn formaður Neytendasamtakanna síðastliðið vor, en hann var áður framkvæmdastjóri samtakanna, og hefur hann í raun gegnt starfi framkvæmdastjóra síðan hann tók við formennskunni.
"Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvernig við skipuleggjum okkur, en meginmálið er að við skipuleggjum okkur þannig að við nýtum þá fjármuni sem við höfum til ráðstöfunar sem best. Það var skorið mjög kröftugt niður í starfseminni á þessu ári og sá niðurskurður er í raun meiri en við þurfum á næsta ári, þó svo að við höfum þurft þennan niðurskurð þetta árið. Sóknarfæri samtakanna felast þess vegna í því að það er hægt að fara að byggja upp starfsemina á nýjan leik," sagði Jóhannes.