Glæsilegur
fínleiki
TÓNLIST
Digraneskirkja
BAROKKTÓNLEIKAR
Camilla Söderberg, Ragnheiður Haraldsdóttir, Guðrún Birgisdóttir,
Martial Nardeau, Snorri Örn Snorrason, Ólöf Sesselja Óskarsdóttir og Elín Guðmundsdóttir fluttu rókokkóverk eftir Boismortier, Telemann, de Viste og Loeillet. Mánudagurinn 14. desember, 1998.
OFT hafa menn velt því fyrir sér, hverjar séu ástæðurnar fyrir þeim mun sem er á tónstíl og hljóðfærasmekk ýmissa þjóða og t.d. ekki síst stóru nágrannaþjóðanna í Evrópu. Í því máli er oft vitnað til franskrar flaututónlistar, sem að mörgu leyti er sér á parti, í langri sögu flautunnar. Glæsilegur fínleiki flautunnar hefur trúlega verið samlitari lífsmáta glysgjarnrar yfirstéttar í Frakklandi fyrrum og víst er, að þegar rómantísk tilfinningasemi tröllreið Evrópu, átti flautan nokkuð erfitt uppdráttar sem einleikshljóðfæri, sérstaklega hjá hinum alvörugefnu þýskumælandi þjóðum en féll hins vegar mjög vel að hugmyndafræði "impressionistanna" frönsku.
Á tónleikunum í Digraneskirkju sl. mánudag, var "eingöngu" flutt fransk-belgísk rókokkótónlist, með þeirri undantekningu, að eitt verkanna er eftir Telemann en hann var aðalboðberi hins nýja franska rókokkóstíls hjá Þjóðverjum. Tónleikarnir hófust á Sónötu í a-moll fyrir blokkflautu, tvær þverflautur og fylgiraddir, eftir Joseph Bodin de Boismortier (16891755), sem var afkastamikið tónskáld og eftir að hafa starfað víða "úti á landi" settist hann að í París 1724. Þeir sem hafa haldið nafni hans helst á lofti eru aðallega flautuleikarar, en 1727 gaf hann út sex "concertos" fyrir fimm flautur án bassaraddar. Auk kammertónlistar, þar sem flautur eru mjög ráðandi, samdi hann ballett-óperur og nokkrar stórar mótettur. Á tónleikum voru leikin þrjú verk eftir Boismortier auk fyrrgreindrar sónötu í a-moll, nefnilega sónata op. 7 fyrir blokkflautu og tvær þverflautur án fylgiradda og eftir hlé Sónata í g-moll fyrir blokkflautu, tvær þverflautur og fylgiraddir. Þessi verk bera það með sér að á ferðinni er gott tónskáld og var leikur allra mjög góður, þar sem saman fór sérlega hreinn og fínlegur leikur ekki aðeins hjá þeim sem léku aðalraddirnar, Guðrúnu Birgisdóttur, Martial Nardeau og Camillu Söderberg, heldur og þeim er léku fylgiraddirnar, Ólöfu Sesselju Óskarsdóttur, Elínu Guðmundsdóttur og Snorra Erni Snorrasyni, er lék með á Theorbo. Flautusamleikurinn var í heild einstaklega góður en sérstaklega fallega hljómandi í flaututríóinu op. 7 eftir Boismortier.
Tafelmusik II eftir Telemann var það tónverk sem mestur veigur var í og var flutningurinn sérlega glæsilega útfærður. Snorri Örn Snorrason lék á theorbo-lútu bæði það sem kallað er fylgirödd og svo einleik í tveimur verkum eftir Robert de Visée, gítarkennara Lúðvíks 14. Það var þó nokkur tilbreyting í að heyra leikið á theorbo, heyra djúpan og fallegan hljóminn í þessu sérstæða hljóðfæri í ágætum leik Snorra.
Það sem einkenndi öll tónverkin var kaflaskipanin hægur-hraður og hægur-hraður, fjórir þættir, með undantekingunni á flaututríóinu eftir Boismortier. Þessi kaflaskipan gilti einnig fyrir síðasta verkið á tónleikunum, sem var kvintett í h-moll fyrir tvær þverflautur, tvær blokkflautur og fylgiraddir eftir belgíska tónskáldið og flautuleikarann Jean Baptise Loeillet, en hann kenndi Englendingum að leika á þverflautu. Ragnheiður Haraldsdóttir bættist nú í hópinn og var sérlega skemmtilegt að heyra hversu gott jafnvægi var í tandurhreinni hljóman flautuhljóðfæranna og einnig fylgiraddahljóðfæranna, sem eitt hljóðfæri væri. Flutningurinn í heild var gæddur þeim fínlega glæsileik, sem aðeins sannkallaðir leiksnillingar hafa á valdi sínu.
Jón Ásgeirsson