UNNIÐ er að breytingum á skipulagi þriðja áfanga Giljahverfis á Akureyri, á svæði sem Árni Ólafsson skipulagstjóri sagði að gengið hafi undir nafninu Ormurinn, en um er að ræða samfelldar fjölbýlishúsalóðir. "Þarna hefur gengið á ýmsu og miklar breytingar gerðar á byggingatímanum, og síðustu breytingar frá ákveðnu byggingafyrirtæki brjóta gegn grunnreglunum í skipulagi svæðisins.
Skipulagsstjóri um breytingar á þriðja áfanga Giljahverfis

Breyttur markaður

UNNIÐ er að breytingum á skipulagi þriðja áfanga Giljahverfis á Akureyri, á svæði sem Árni Ólafsson skipulagstjóri sagði að gengið hafi undir nafninu Ormurinn, en um er að ræða samfelldar fjölbýlishúsalóðir.

"Þarna hefur gengið á ýmsu og miklar breytingar gerðar á byggingatímanum, og síðustu breytingar frá ákveðnu byggingafyrirtæki brjóta gegn grunnreglunum í skipulagi svæðisins. Við höfum því séð þann kost vænstan að taka skipulagið til endurskoðunar."

Árni sagði að þegar svæðið var skipulagt árin 1991 og 1992 hafi það verið gert miðað við forsendur sem þá voru uppi, en þær hafi breyst. "Markaðurinn hefur breyst og nú er eftirspurn eftir öðruvísi fjölbýlishúsum en var þá. Einnig hefur húsnæðislánamarkaðurinn haft áhrif á húsagerðirnar. Ég vil segja á neikvæðan hátt, þannig að nú er verið að byggja mun lakari hús að mörgu leyti en var gert áður fyrr og við miðuðum ekki við það í skipulagi hverfisins."

Lagað að markaðnum

"Nú erum við að opna þetta og laga að markaðnum með því að hverfa frá þessum stífu grundvallaratriðum sem menn áttu að fylgja á þessum svokallaða Ormi. Við ætlum samt að reyna að halda í þau umhverfisgæði sem áttu að vera í þessu hverfi. Vinnan við breytingarnar er langt komin og við stefnum á að ljúka þeim á miðjum vetri."

Árni sagði að í kjölfarið væri stefnt að því að úthluta byggingafyrirtækjum nokkuð stórum svæðum til að byggja á fjölbýlishús og jafnframt að þau hafi áhrif á útfærslu á viðkomandi lóðum. Hann sagði að þarna væru kröfur um íbúðafjölda á lóðunum en með málamiðlun, t.d. með því að byggja stærri fjölbýlishús, væri hægt að byggja raðhús þar innanum.

Betra fyrir hjartað að búa á tveimur hæðum

Hann sagði nægar einbýlishúsalóðir í Giljahverfi, í brekkubyggðinni vestast í hverfinu, með möguleika á miklu útsýni. Lóðirnar væru í halla og því væri um að ræða hús á tveimur hæðum. Hins vegar virðist ekki vera mikill áhugi á því að byggja einbýlishús á tveimur hæðum og það kom skýrt fram við úthlutun lóða á Eyrarlandsholti nýlega.

Á Eyrarlandsholti voru 23 einbýlishúsalóðir auglýstar lausar til umsóknar. Alls bárust um 40 umsóknir en aðeins um 11 lóðir og þar af um 20 umsóknir um eina og sömu lóðina, þar sem gert er ráð fyrir einbýlishúsi á einni hæð. Á því svæði eru því enn 12 lausar lóðir undir einbýlishús á tveimur hæðum.

"Það er mun betra fyrir hjartað að búa í íbúðum á tveimur hæðum og mun meiri hætta á alls kyns sjúkdómum og kvillum ef fólk á unga aldri hyggst dekra svona við sig og búa á einni hæð," sagði Árni um það mál.