Ritstjórar: Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir. Kvennasögusafn Íslands, 1998, 210 bls. FYRIR rúmum tveimur áratugum tók Anna Sigurðardóttir, stofnandi Kvennasögusafnsins, saman hefti sem hún kallaði Ártöl og áfanga í sögu íslenskra kvenna 1746­1975. Heftið fjölritaði Anna og hefur það lengi nýst kvennafræðingum á ýmsum sviðum vel.

Hálfunnið

er verk ... BÆKUR Uppsláttarrit ÁRTÖL OG ÁFANGAR Í SÖGU ÍSLENSKRA KVENNA Ritstjórar: Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir. Kvennasögusafn Íslands, 1998, 210 bls. FYRIR rúmum tveimur áratugum tók Anna Sigurðardóttir, stofnandi Kvennasögusafnsins, saman hefti sem hún kallaði Ártöl og áfanga í sögu íslenskra kvenna 1746­1975. Heftið fjölritaði Anna og hefur það lengi nýst kvennafræðingum á ýmsum sviðum vel. Bók sú sem hér er til umfjöllunar á rætur sínar að rekja til þessa heftis og í inngangsorðum ritstjóranna kemur fram að auk þess að "bæta við þeim áföngum sem orðið hafa frá 1975" hafi "verið ákveðið að fara lengra aftur í tímann" og bæta við "upprunalegu skrána". Bók eins og þessa hefur sannarlega vantað á íslensk bókasöfn og hún mun að einhverju leyti spara nemendum og kennurum heimildaleit, auk þess að vera forvitnileg öðrum áhugasömum lesendum. Hins vegar verður að segjast eins og er að bókin olli undirritaðri miklum vonbrigðum vegna þess hversu takmörkuð hún er, jafnvel innan þess ramma sem ritstjórarnir marka verkinu. Í inngangi segir: "Við höfðum það að leiðarljósi að þær konur yrðu nefndar sérstaklega sem urðu fyrstar til þess að ljúka ákveðnum áfanga, t.d. prófi eða hljóta embætti sem karlar einir höfðu áður haft með höndum. Atburðir sem marka tímamót í sögu kvenna skyldu teknir með; lög og reglugerðir er snerta konur, íþróttaafrek, félög kvenna, blöð og tímarit o.s.frv." (bls. 7­8). Ritstjórar láta þess og getið að margt "lendi utan ritsins þegar ekki er um að ræða eitthvað sem telja má "fyrst" á einhvern hátt eða hefur afgerandi þýðingu í sögu kvenna." Einnig bera þær við "heimildaskorti" þar sem "kvenna er oft ekki getið í fræðiritum nema að mjög takmörkuðu leyti" (bls. 8). Með þessi orð í huga get ég ekki látið hjá líða að gagnrýna að ritstjórunum hafa yfirsést bæði atburðir sem marka tímamót svo og heimildir sem aðgengilegar eru. Og, þótt undarlegt kunni að virðast, yfirsjást þeim ekki síst þeir áfangar sem eru að nást í samtíðinni, sem eru næst okkur í tíma. ep Bókin skiptist í tíu meginkafla. Sá fyrsti nefnist "Brautryðjendur" og samanstendur af ævi- og starfságripi 14 kvenna sem allar eru fæddar á síðustu öld. Við þennan kafla hefði þurft að bæta a.m.k. jafn mörgum konum fæddum á þessari öld. Næstu átta kaflar eru efnisskiptir þannig: Skólar og menntun, Störf og embætti, Listir og menning (sjö undirkaflar), Íþróttir, Samtök og félög, Blöð og tímarit, Merkir atburðir, Lög og reglugerðir. Tíundi kaflinn geymir svo tilvísana-, heimilda-, mynda-, atriðisorða- og nafnaskrár. Efni flestra kaflanna er raðað í tímaröð, þ.e. byrjað er á elstu áföngunum og síðan stiklað á ártölum fram til samtímans. Kaflarnir "Skólar og menntun" og "Störf og embætti" eru sýnu lengstir, flestir hinir eru mjög stuttir og vekur þar mesta furðu kaflinn "Listir og menning" sem, með sínum sjö undirköflum, er aðeins 15 blaðsíður. T.d. eru í kaflanum "Bókmenntir" aðeins sex færslur, í köflunum "Höggmyndalist", "Vefjarlist" og "Leiklist" aðeins tvær færslur og í kaflanum "Dans" aðeins ein færsla. Þessa kafla hefði með lítilli fyrirhöfn mátt bæta til muna (t.d. með því að leita til sérfræðinga á hverju sviði fyrir sig), eins og þeir standa nú eru þeir hvorki fugl né fiskur. Ég skal taka örfá dæmi um áfanga í sögu íslenskra kvenna sem ritstjórum yfirsjást. Hvergi er getið þess merka áfanga sem náðist þegar Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur var ráðin lektor við skor í heimspeki við Háskóla Íslands árið 1997, fyrst kvenna til að hljóta fasta ráðningu við þá skor. Sambærilegra áfanga varðandi aðrar deildir háskólans er þó getið í kaflanum "Störf og embætti". Ekki er heldur getið merkrar doktorsritgerðar Dagnýjar Kristjánsdóttur, "Kona verður til" (1996), sem er fyrsta doktorsritgerðin sem samin er á íslensku og varin við Háskóla Íslands á því sviði sem nefnist kvennafræði, eða femínisk fræði. Þessara tveggja kvenna, Dagnýjar Kristjánsdóttur og Sigríðar Þorgeirsdóttur, sem hvor um sig hafa skrifað merkar greinar á sviði kvennafræða, er hvergi getið í bókinni. Hvað varðar aðgengilegar heimildir sem ritstjórar leita ekki til má nefna t.d. bók Silju Aðalsteinsdóttur "Íslenskar barnabækur 1780­1979" (1981) sem er sú fyrsta sinnar tegundar og geymir miklar heimildir um áfanga sem varða íslenskar konur. Einnig safnritið "Sögur íslenskra kvenna 1879­1960" (1987) sem hefur m.a. að geyma eftirmála undirritaðrar, þar sem finna má ýmsar upplýsingar um áfanga í bókmenntasögu íslenskra kvenna sem ekki er getið í þessari bók. Af öllu ofansögðu er ljóst að ég hlýt að telja bókina Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna óunna að miklu leyti. Það sem fellur utan bókar en á sannarlega heima innan hennar er of margt. Eins og bókin er í dag er notagildi hennar mjög takmarkað og ekki er hægt að afsaka allar "eyðurnar" með lengd ritsins, því rúmlega 200 blaðsíður getur varla talist langt fyrir uppsláttarrit af þessu tagi. Þetta rit þarf að endurbæta svo um munar til að það komi að verulegu gagni fyrir fræðimenn og aðra áhugasama um áfanga í íslenskri kvennasögu: Verkið er hafið ­ en aðeins hálfunnið. Soffía Auður Birgisdóttir