Hver á myndina?
ÞESSI mynd er í myndaalbúmi sem fannst við Álfheima 26. Upplýsingar í
síma 569-1318.
Til gamans!
OKKUR Íslendingum þykir vænt um málið okkar og samanborið við nágranna okkar og frændur á Norðurlöndunum t.d., megum við þrátt fyrir allt vera stoltir af því hvað fá tökuorð eru í daglegu máli manna hér.
Þó er það þannig, að mönnum hætti til þess að ofnota sum hugtök. Einn tekur upp eftir öðrum og fjölmiðlafólk sérstaklega ber mikla ábyrgð í þessu efni, því málnotkun þeirra er fordæmi margra. Ég nefni örfá atriði sem mér dettur í hug.
Í dag slasast allir í fréttunum, en enginn meiðist eða hlýtur meiðsl. Menn aðeins slasast lítilsháttar. Menn vinna ekki lengur baki brotnu eða af kappi, heldur vinna nú allir hörðum höndum. Þá eru dýr farin að búa í húsum eða við götur, einnig börn. Hugtakið "að búa" er ekki þannig eins og ég þekki það. Annað orðasamband sem er ofnotað, en það er búið að vera. Ég nota hugtakið til dæmis svona. "Kommúnisminn er búinn að vera"!!, en samkvæmt nýju merkingunni gæti maður sagt: "það er búið að vera hörmulegt að lifa við kommúnisma!
Enn eitt ofnotað orð er "Okei" eða orðasambandið "allt í lagi". Menn ljúka varla símtali í dag án þess að segja "Ókei, allt í lagi, bless, bless"!!! Ég heyrði jafnvel í fyrradag þingmann ljúka símtali við fréttamann með "Allt í lagi!!" þó svo hann hafi verið að tala um deilumál á Alþingi þar sem hann sannarlega taldi ekki allt vera í lagi!
Hlustandi. Lélegar póstsamgöngur milli landa
ÉG ER að bíða eftir sendingu í póstinum frá Bretlandi sem var sett í póst 1. desember en er enn ekki komin. Eru það Flugleiðir sem standa sig ekki í póstflutningunum eða er það pósturinn hér heima? Ég fékk sendingu frá Þýskalandi fyrir stuttu og það var sama sagan, það tók álíka tíma að koma þessu á milli landa. Við nútíma samgöngur er þetta alveg ótrúlegur tími og fólk erlendis undrast á þessum seinagangi.
Viðtakandi. Leitað að leigubílstjóra
KONA sem tók leigubíl frá Rimahverfi í Bakkahverfi fyrir ca. 2 mánuðum, lét úrið sitt í pant hjá leigubílstjóra á rauðum leigubíl. Hún biður hann að hafa samband við sig því hún týndi miðanum sem hann lét hana fá. Saknar hún úrsins sárlega. Er hún í síma 557 8405.
Tapað/fundið
Heimaprjónuð angóruhúfa týndist
RÖNDÓTT angóruhúfa heimaprjónuð týndist á leiðinni frá Síðumúla niður í Kolaport, bakatil. Þeir sem hafa séð húfuna hafi samband í síma 555 4471.
Gírahjól í óskilum
DBS-gírahjól, 21 gíra, er í óskilum á Seltjarnarnesi. Upplýsingar í síma 552 7271.
Plastpoki týndist við Gullteig
PLASTPOKI merktur Tónastöðin með píanónámsbókum týndist líklega á Gullteigi sl. miðvikudag. Þeir sem hafa orðið varir við pokann hafi samband í síma 551 7646.
Dýrahald
Kisa er týnd
TÝNST hefur svört og hvít læða frá Brúarási á Norðurhéraði. Hún hvarf að heiman 8. desember og var þá með bleika ól um hálsinn. Hennar er sárt saknað af eigendum. Ef einhver hefur orðið hennar var er hann beðinn að hringja í síma 471 1046 eða 471 1047. Fundarlaun.
Læða í óskilum í Seljahverfi
BRÖNDÓTT læða fannst í Seláshverfi mánudaginn 7. desember. Upplýsingar í síma 567 6989.
Dimmalimm er týnd
KOLSVÖRT 7 ára gömul læða týndist úr Háskólahverfinu í september sl. Hún heitir Dimmalimm og var með silfurlitaða ól og rautt merkispjald þegar hún hvarf. Íbúar á Öskjuhlíðarsvæðinu eru vinsamlega beðnir að svipast um eftir henni. Vinsamlega látið vita í síma 551 5301.