Rabb um kveðskap og fleira eftir Helga Háldanarson. Páll Valsson tók saman. Prentvinnsla Grafík. Mál og menning 1998 - 414 síður. MOLDUXI Helga Hálfdanarsonar, greinasafn margra ára, er einkum forvitnilegur fyrir það sem höfundurinn hefur að segja um skáldskap þótt dægurtmálaumræða hans kunni að kæta marga.
Utan við

alfaraleið

BÆKUR

Greinasafn

MOLDUXI

Rabb um kveðskap og fleira eftir Helga Háldanarson. Páll Valsson tók saman. Prentvinnsla Grafík. Mál og menning 1998 - 414 síður.

MOLDUXI Helga Hálfdanarsonar, greinasafn margra ára, er einkum forvitnilegur fyrir það sem höfundurinn hefur að segja um skáldskap þótt dægurtmálaumræða hans kunni að kæta marga. Helgi er sem áður utan við alfarleið í viðhorfum sínum og er ekki síst hollt að fylgja honum eftir vegna þess.

Það er gaman að lesa um aðdáun Helga á vel kveðnum vísum og líka heilum ljóðum. Hann hrífst af einfaldleik myndmáls og áreynsluleysi í framsetningu en þykir ekki verra að ljóð standi í hljóðstaf. Auðvitað er skáldskapur alþýðunnar, kveðskapurinn, ekkert síðri en hinna lærðu myndbrjóta þegar vel tekst til. Undir má taka með Steingrími í Nesi, eins og Helgi gerir, þegar jafn vel er kveðið og í eftirfarandi vísu:

Allt sem þjóðin átti og naut,

allt sem hana dreymir,

allt sem hún þráði og aldrei hlaut,

alþýðustakan geymir.



Helgi er talsmaður klassískra gilda, hófsemi og fagurs málfars. Þetta á ekki einungis við skáldskap heldur líka mannlífið.

Þegar Helgi finnur engan til að "þrátta" við býr hann til andstæðinga til að skrifast á við í blöðum. Einn þeirra er Hrólfur Sveinsson, skáld eins og tvífari hans. Helgi vill þó alls ekki viðurkenna að hann sé sjálfur skáld og er það liður í þrætubók hans. Sú umræða þykir mér ekki jafn fróðleg og til dæmis það sem finna má um þýðingar og ýmsan þýðingarvanda en sem betur fer er af nógu slíku að taka í Molduxa.

Eki veit ég hvað á með réttu að kalla greinar Helga enda skiptir það ekki máli. Eins konar hugvekjur eru þær flestar. Sumar er ágætar kennslustundir í að orða hugsanir sínar á íslensku, aðrar eru sýnishorn nauðsynlegs andófs og til eru greinar eftir Helga sem fyrst og fremst vitna um íþrótt hans. Allt er þetta vel þegið á tímum fábreytni í blaðaskrifum en á köflum sýnist tilefnið furðu smátt.

Kver Helga um íslenskt mál eins og Skynsamleg orð og skætingur hafa orðið mörgum að gagni. Nú bætist Molduxi í þann fríða flokk.

Jóhann Hjálmarsson