Börn á Skagaströnd senda börnum í Bosníu jólagjafir Skagaströnd-Þau voru stolt af sjálfum sér börnin af leikskólanum Barnabóli á Skagaströnd er þau afhentu prestinum sínum marga pappakassa fulla af jólagjöfum handa fátæku og stríðshrjáðu börnunum í Bosníu.
Börn á Skagaströnd sendabörnum í Bosníu jólagjafir
Skagaströnd - Þau voru stolt af sjálfum sér börnin af leikskólanum Barnabóli á Skagaströnd er þau afhentu prestinum sínum marga pappakassa fulla af jólagjöfum handa fátæku og stríðshrjáðu börnunum í Bosníu. Presturinn ætlar að sjá um að koma gjöfunum til skila fyrir börnin og að launum sagði hann þeim söguna um fæðingu Jesú og söng með þeim nokkur lög.
Það er í raun Norðurpóllinn jólaþorp á Akureyri sem stendur fyrir jólagjafasöfnuninni og mun sjá um að koma pökkunum í hendur barna í Bosníu nú um jólin. Flutningsaðilar á Skagaströnd og Blönduósi munu ókeypis sjá um að pakkarnir komist undir Jólatré allra barna á Akureyri en þaðan verður þeim komið á áfangastað.
Krakkarnir á leikskólanum komu með pakkana heiman frá sér en í þeim eru leikföng, notuð og ný, ásamt fatnaði sem þau eru hætt að nota. Gjöfunum var flestum pakkað inn heima en litlar hendur á leikskólanum búa til merkimiða og líma á.
Krakkarnir voru fúsir til að upplýsa fréttaritara um það að börnin í Bosníu ættu svo bágt því þótt jólin kæmu til þeirra fengju þau engar gjafir. "Það eru ekki einu sinni til búðir þar svo maður getur ekki keypt neitt," sagði einn lítill drengur og gerði sér auðsjáanlega fulla grein fyrir alvöru málsins.
Morgunblaðið/Ólafur Bernódusson HLUTI barnanna á Barnabóli, sem komu með jólagjafir handa fátæku börnunum í Bosníu, stendur við kassana með gjöfunum.