"ÞARNA er að finna uppáhalds smáverkin okkar frá rómantíska tímanum, verk sem okkur þykir ákaflega skemmtilegt að spila og eru fyrir vikið líklegri til að gleðja aðra," segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari um geislaplötuna Con Espressione, þar sem hún leikur ásamt litháska fiðluleikaranum Martynas Svégzda von Bekker.
Að endurvekjafortíðina
"ÞARNA er að finna uppáhalds smáverkin okkar frá rómantíska tímanum, verk sem okkur þykir ákaflega skemmtilegt að spila og eru fyrir vikið líklegri til að gleðja aðra," segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari um geislaplötuna Con Espressione, þar sem hún leikur ásamt litháska fiðluleikaranum Martynas Svégzda von Bekker.
"Expressjón-rómantísk músík með dansívafi," eru orðin sem Steinunn velur þegar hún er beðin að lýsa innihaldi plötunnar betur. "Kreisler er til dæmis mjög dansvænn, þó maður myndi örugglega fótbrotna ef maður dansaði lengi við tónlist hans."
Auk Kreislers eiga Tsjajkovskíj, Bruch, Schumann, Brahms, Marie, Benjamin, Rimskíj-Korsakov, Gruodis, Schubert, Dvorák og de Falla verk á plötunni en Steinunn segir markmið hennar öðrum þræði vera að endurvekja stemmningu fyrri hluta þessarar aldar endurvekja fortíðina. "Þessi stemmning má ekki líða undir lok stemmningin í kringum brautryðjendurna í íslensku tónlistarlífi. Þeim eigum við mikið að þakka. Oft og tíðum þurftu þeir að spila við fáránlega erfiðar aðstæður, með vindinn í fangið, en af djúpri lotningu fyrir viðfangsefninu af lífi og sál."
Segja má að Steinunn og Martynas hafi byrjað á öfugum enda því þau héldu "útgáfutónleika" áður en þau fóru í hljóðver. Fóru þeir fram í Iðnó 7. júlí síðastliðinn og flutt voru svo að segja sömu verk og eru á plötunni. "Ástæðan fyrir þessu er landfræðileg," segir Steinunn. "Martynas býr í París og þar sem hann er á ferð og flugi allt árið um kring verður maður að nýta tækifærið þegar hann hefur tíma."
Steinunn segir ekki miklar líkur á því að þau Martynas geti fylgt plötunni eftir með tónleikum nú fyrir jólin, vegna anna fiðluleikarans, en er þó ekki búin að gefa upp alla von.
Eftir á að hyggja segir Steinunn það mjög góða leið að leika efni sem taka á upp fyrst á tónleikum. "Þegar í hljóðver er komið verður verkefnið að vera pottþétt annars er erfitt að fanga "mómentið" með heillegum flutningi."
Andrúmsloftið fangað
Steinunn segir markmiðið hafa verið að fanga andrúmsloft tónleikanna, þess vegna hafi þau reynt að hafa heilar tökur eins margar og unnt var lítið um klippingar. Hlustendur eigi að geta lygnt aftur augunum og finnast þeir vera staddir á tónleikum. "Auðvitað er tvennt ólíkt að spila á tónleikum og í hljóðveri. Maður fær enga svörun í hljóðverinu. Á móti kemur að það hlýtur að vera draumastaða að geta tekið efni upp aftur og aftur, ef með þarf. Samt er það mín reynsla að maður notar yfirleitt fyrstu tökurnar. Þess vegna beiti ég jafnan gömlu aðferðinni, klippi sem minnst, til að ná heildaráhrifunum augnablikinu. Ég er á móti dauðhreinsuðum upptökum. Þær vekja aðdáun en enga gleði það er klippt á lífþráðinn."
Steinunn og Martynas kynntust óvænt fyrir um þremur árum eins og vera ber, eins og píanóleikarinn kemst að orði. "Martynas var staddur hér á landi til að búa sig undir tónleika í Þýskalandi og sameiginlegur vinur kynnti okkur. Skömmu síðar prófuðum við að vinna saman og fundum strax þessa sameiginlegu taug það var virkilega gaman því það er alls ekki sjálfgefið að fólk stemmi saman. En það er eins með þetta og flest annað gott í lífinu það gerist fyrir tilviljun."
Steinunn og Martynas hafa hug á að halda samstarfinu áfram og bíða þeirra þegar nokkur verkefni. Í febrúar koma þau fram á alþjóðlegri tónlistarhátíð í París og næsta sumar verður Martynas aftur gestur Steinunnar á Reykholtshátíð. "Hann vakti svo mikla hrifningu síðast að fólk krafðist þess hreinlega að honum yrði boðið aftur."
Með Con Espressione vilja flytjendurnir heiðra leiðbeinendur sína og helstu áhrifavalda á tónlistarferlinum, Steinunn Árna Kristjánsson og Martynas ömmu sína Elenu Strazdas Bekeriene.
Morgunblaðið/Kristinn "VIÐ fundum strax þessa sameiginlegu taug." Steinunn Birna Ragnarsdóttir og Martynas Svégzda von Bekker fiðluleikari.