EFTIR að hafa lesið yfir þá umfjöllun, sem rjúpan hefur fengið síðustu tvo mánuði í fjölmiðlum, er niðurstaða mín sú, að meirihluta Íslendinga er alveg sama hvort hún sé skotin eða ekki. Eftir stöndum við, sem viljum friða rjúpuna og þeir sem vilja drepa hana. Skotveiðifélag Íslands, Skotvís, telur sig vera útivistar- og náttúruverndarfélag og þess vegna erum við að vinna að sama málefninu.

Rjúpan

Frá Elsu Pétursdóttur:

EFTIR að hafa lesið yfir þá umfjöllun, sem rjúpan hefur fengið síðustu tvo mánuði í fjölmiðlum, er niðurstaða mín sú, að meirihluta Íslendinga er alveg sama hvort hún sé skotin eða ekki. Eftir stöndum við, sem viljum friða rjúpuna og þeir sem vilja drepa hana. Skotveiðifélag Íslands, Skotvís, telur sig vera útivistar- og náttúruverndarfélag og þess vegna erum við að vinna að sama málefninu. Rjúpnadráp getur ekki talist nátturuvernd þar sem rjúpan er í flokki þess sem fegrar umhverfi okkar allt árið um kring. Friðum því rjúpuna og látum eðlilega náttúru í friði. Rannsóknir Nátturufræðistofnunar hafa bent til þess að ofveiði sé stunduð á Suðvestur- og Vesturlandi. Þegar 70% af rjúpnastofninum þar eru drepin, nær hann sér ekki upp aftur af sjálfsdáðum. Skotveiðar mega ekki ógna íslensku siðgæðismati. Þið sem þekkið eitthvað til rjúpunnar hljótið að sjá hve mikla sérstöðu hún hefur í okkar fátæka fuglaríki þar sem hún reynir að vera meðal okkar allt árið um kring. Ég vona að næsti umhverfisráðherra hafi kjark til þess að taka á þessum málum af alvöru og að formaður Skotvís, Sigmar B. Hauksson, standi við orð sín og vinni af alhug að náttúruvernd. Það verður best gert með friðun rjúpunnar sem að mínu áliti er einstök náttúruperla sem ekki má eyðileggja. Kennum fjölskyldum okkar að bera virðingu fyrir rjúpunni og njóta hennar lifandi en ekki dauðrar. Höfum við ekki öll efni á því?

ELSA PÉTURSDÓTTIR,

Neðstaleiti 5, Reykjavík.