SÉRSTAKUR búnaður sem minnkar mengun í vélarrúmi skipa hefur verið settur í 180 íslensk skip, en talið er að vélstjórum sé meiri hætta búin af svokallaðri innri mengun skipa en öðrum í áhöfn. Þá hefur Guðmundur Hallvarðsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi þess efnis að ríkisstjórnin stuðli að bættu vinnuumhverfi sjómanna, m.a.

Minnka mengun í

vélarrúmi skipa

SÉRSTAKUR búnaður sem minnkar mengun í vélarrúmi skipa hefur verið settur í 180 íslensk skip, en talið er að vélstjórum sé meiri hætta búin af svokallaðri innri mengun skipa en öðrum í áhöfn. Þá hefur Guðmundur Hallvarðsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi þess efnis að ríkisstjórnin stuðli að bættu vinnuumhverfi sjómanna, m.a. með því að huga að mengunarvörnum um borð í skipum.

Guðmundur Andersen, vélstjóri á frystitogaranum Huldu Björg HU sem Skagstrendingur hf. gerir út, segist finna mikinn mun á andrúmsloftinu í vélarrúminu eftir að hreinsibúnaðurinn var settur í Huldu Björg fyrir einu og hálfu ári. "Mér fannst lofið í vélarrúminu slæmt áður en þessi búnaður var tekinn í notkun. Auðvitað er ástand véla misjafnt en í þessu tilviki var vélin óþétt og þá eimast smurolíukeimurinn frekar út," segir Guðmundur. Búnaðurinn er settur á túrbínur vélanna. Hann sogar gufu og olíuraka upp úr sveifarhúsinu og myndar svolítinn undirþrýsting. Þetta gerir það að verkum að vélin hættir að leka út úr sér og olíusmit minnkar.

Betra andrúmsloft í vélarrúmi

Guðmundur segir forráðamenn Skagstrendings hf. hafa brugðist skjótt og vel við ósk hans um hreinsibúnaðinn. "Ég fann mikinn mun á andrúmslofti í vélarrúmi eftir breytinguna. Í dag finn ég það strax uppi á millidekki ef einhver lyktarbreyting verður." Guðmundur hefur starfað sem vélstjóri í tólf ár. Hann telur vélstjóra almennt meðvitaða um hættuna sem heilsu þeirra geti verið búin af mengun í starfsumhverfinu. Til dæmis sé vitað að þeim sé hættara en öðrum við krabbameini í blöðruhálskirtli og lungum.

Guðbjartur Einarsson vélfræðingur er framkvæmdastjóri Véltaks ehf. sem hefur selt hreinsibúnað eins og þann sem er í Huldu Björg í 200 skip, íslensk, norsk og færeysk: "Hreinsibúnaðurinn takmarkar innri mengun skipa, en hún er víða alvarlegt vandamál. Svo reiknast okkur til að notkun hans spari smurolíu, að meðaltali um 30%, en minni notkun hennar minnkar svo aftur loftmengun," segir Guðbjartur.

Í greinargerð þingsályktunartillögu, sem Guðmundur Hallvarðsson er fyrsti flutningsmaður að, um vinnuumhverfi sjómanna er vakin athygli á því að að undanförnu hafi mikið verið rætt um mengun hafsins og útblástur skipa, en lítið hafi verið fjallað um mengun um borð í skipum. Eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit hafi náð fram á bryggjubrún en ekki um borð í skipin. Nauðsynlegt sé að fylgja eftir úrbótum sem kveðið sé á um í nýsamþykktum lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með því að huga sérstaklega að vinnuumhverfi sjómanna. Málinu hefur verið hreyft víðar en á Alþingi, því að fyrr á þessu ári samþykkti þing International Transport Federation tillögu Vélstjórafélags Íslands um að hefja viðmikla rannsókn á innri mengun skipa.