MYRKAR fígúrur heitir nýjasta ljóðabókin eftir Sjón. Þetta er ellefta ljóðabók hans en sú fyrsta kom út árið 1978. Tíunda ljóðabók hans, ég man ekki eitthvað um skýin, kom út fyrir nokkrum árum. Samtímis kemur út hljómdiskurinn kaneldúfur, en þar les Sjón átta ljóð úr nýju bókinni við tónlist Baldurs J. Baldurssonar. Sjón er brautryðjandi í íslenskri ljóða- og skáldsagnagerð.
Myrkar fígúrur MYRKAR fígúrur heitir nýjasta ljóðabókin eftir Sjón. Þetta er ellefta ljóðabók hans en sú fyrsta kom út árið 1978. Tíunda ljóðabók hans, ég man ekki eitthvað um skýin, kom út fyrir nokkrum árum. Samtímis kemur út hljómdiskurinn kaneldúfur, en þar les Sjón átta ljóð úr nýju bókinni við tónlist Baldurs J. Baldurssonar. Sjón er brautryðjandi í íslenskri ljóða- og skáldsagnagerð. Hann hefur auk ljóða og skáldsagna samið leikrit, kvikmyndahandrit og söngtexta. Í myrkum fígúrum vísar hann veginn inn í myrkrið og styður lesandann varlega fyrstu ferðina í gegnum það eins og ábyrgðarfullt foreldri. Í næstu ferð er lesandinn á eigin vegum en höfuð hans er nýtt. Á bókarkápu galdrast einnig fram þetta myrkur á meðan bókin er lesin ef innanábrotið er notað sem bókarmerki. Þannig hlutgerist myrkrið við lesturinn. Um tilurð bókarinnar segir Sjón eftirfarandi: "Ég kláraði að skrifa meitluð og hnitmiðuð ljóð í ég man ekki eitthvað um skýin og þegar ég lauk við bókina lokaði ég dyrunum á eftir mér og hafði ekki lyst á að yrkja eftir það. Á meðan ég dvaldi nokkur ár í London skrifaði ég tvö, þrjú ljóð og í vor þegar ég var að taka til í pappírum sá ég þau og uppgötvaði að ljóðæðin væri opin. Ég skrifaði bókina á tveimur mánuðum og hef ekki átt svona létt með að skrifa síðan ég var átján ára. Ég orti út frá tilfinningum og einbeitti mér að því að grafa upp myrkrið í sálinni. Síðan setti ég kannski eitt orð á blað, til dæmis titilinn, og í framhaldi af því streymdi ljóðið áreynslulaust og oft tilbúið. Mér fannst ég eiga eftir að yrkja um myrka svæðið og svo komu inn í ljóðin þessar skrítnu persónur sem áttu í vandræðum með tilveru sína. Persónurnar í ljóðunum eru afleiðing þess að hafa skrifað sögur. Bókin byggðist svo upp í tvo hluta, bjartan og dimman. Ljóðin í myrka kaflanum eru húmorísk og ljóðin í bjarta kaflanum eru ansi svört svo hér er vegið salt á milli ljóss og myrkurs, dags og nætur. Bókin er svo kannski fyrst og fremst ég eins og ég er í dag. Hvernig það er að vera Sigurjón B. Sigurðsson árið 1998. Tilgerðarlaus og tilgerðarlaust." Í bókinni fá hinir sjálfsmyrtu sína minningartöflu: " heilagur jóhannes verndari rakblaðsins / heilög anna hengingarinnar /heilagur stefán af haglabyssu..."

"Í bókinni eru vonandi ljóð fyrir alla þá sem eru lifandi og dauðir og eru í þann veginn að fæðast. Hér er til dæmis ljóðið frétt frá undralandi, en það er ljóð fyrir ástfangið fólk. Svo hef ég alltaf verið upptekinn af líkamanum og af því dauðinn er endastöð líkamlegrar virkni þá eru hér líka ljóð um dauðann. Ekki um rómantískan eða dramatískan dauða heldur sem andstæða við hið líkamlega sprikl. Já og svo af því ég er súrrealisti er eitt draumljóð, ljóðið svik, en það er sannur draumur. Mig dreymdi þennan draum eftir að ég datt á svelli í London og fékk gat á höndina og var settur á sterkan pensilínkúr. Ég er óvanur því að taka pensilín og lagðist í draummók og dreymdi þennan draum sem ég skrifaði strax upp og birti síðan almenningi." Eru ljóðin í bókinni á einhvern hátt opnari en áður? "Ég hef alltaf skrifað á einföldu eða hversdagslegu máli en kannski nota ég hversdagsleikann meira en ég gerði. Kannski af því mér þykir hann meira spennandi nú en áður. Og kannski eru tilfinningarnar í sálardjúpum mínum og hversdagsleikinn farin að tala betur saman eins og hljóðfæri sem hafa spilað lengi í sömu hljómsveitinni læra hvert á annað. En kannski er þessi hversdagsleiki sem ég er að tala um eitthvað sem enginn kannast við nema ég. Það sem ég vildi sagt hafa er að það er erfitt þótt ég sé á heimavelli að skýra fyrir öðrum hvað hafi gerst og hvað sé að gerast í skáldskap mínum. Kannski áttar maður sig á því einn dag, þegar maður er orðinn nokkuð skýr í hausnum, að maður þarf ekki að fara langt eða hafa mikið fyrir því að segja skrítnustu og hættulegustu hlutina. Kannski hefur það einmitt gerst." harlekín

harlekín snýr aftur til veislunnar moldarbrúnn með myrkur jarðar í brosinu

fjörið rétt byrjað en gestirnar að kikna undan gleðinni

útsporað dansgólf þögul hvellibjalla harlekín rétt ókominn

­ nýfarinn

Úr Myrkum fígúrum Sjón