Forráðamenn knattspyrnumála í Asíu hafa gefið Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, frest fram í mars á næsta ári til að endurskoða fyrirkomulag á undankeppni HM 2002. Annars muni flest ríki Asíu hunsa keppnina, sem haldin verður sameiginlega í Japan og Suður-Kóreu.


KNATTSPYRNA

Asía vill fleiri

þjóðir á HM 2002 Forráðamenn knattspyrnumála í Asíu hafa gefið Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, frest fram í mars á næsta ári til að endurskoða fyrirkomulag á undankeppni HM 2002. Annars muni flest ríki Asíu hunsa keppnina, sem haldin verður sameiginlega í Japan og Suður-Kóreu.

Deilan snýst um fjölda sæta í keppninni fyrir Asíuþjóðir og er sprottin af því að gestgjafarnir tveir eiga báðir trygg sæti í keppninni og hefur FIFA tekið annað sætið af hefðbundnum kvóta Asíuþjóða í lokakeppninni.

Forkólfar Asíuþjóða hittust á neyðarfundi í Asíu í gær og þar var einróma samþykkt að veita FIFA frest fram í mars, "en annars séu allar þjóðir (nema Japan og S-Kórea) tilbúnar til að sniðganga HM," sagði m.a. í yfirlýsingu fundarins.

Fyrir HM í Frakklandi átti Asía þrjú örugg sæti í úrslitum og að auki rétt til að leika aukaleik við þjóð frá Eyjaálfu eða S-Ameríku um fjórða sætið. Þar sigruðu Íranar Ástrala í tveimur úrslitaleikjum og voru því fjórða þjóðin. Nú stendur hins vegar til að Asía hafi aðeins fjögur sæti á HM 2002 og gestgjafarnir tveir séu þar meðtaldir. Þessu hefur Knattspyrnusamband Asíu mótmælt harðlega og vill hafa þrjú sætin óbreytt, eitt sæti að auki fyrir annan gestgjafann og síðan áframhaldandi aukaleiki um fimmta sætið.

"Þriðjungur mannkyns býr í Asíu," segir Manilal Fernando, formaður Knattspyrnusambands Sri Lanka. "Í Asíu eru 46 aðildarlönd FIFA, eða um fjórðungur aðildarlanda. Það er ekki hægt að halda heimsmeistarakeppni án þess að fulltrúar þriðjungs mannkyns eigi þar sæti," sagði Fernando ennfremur.