Einar Örn Gunnarsson, Ormstunga, 1998. 104 bls. Verð: 2.790 kr. Prentun: Steinholt. ÁRIÐ 1986 sendi Einar Örn Gunnarsson frá sér smásöguna Bréf til mömmu. Nú hefur hann tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið því smásagan, lítið eitt breytt, myndar fyrsta kafla nýrrar skáldsögu hans.
Lokaður heimur BÆKUR

Skáldsaga TÁR PARADÍSARFUGLSINS

Einar Örn Gunnarsson, Ormstunga, 1998. 104 bls. Verð: 2.790 kr. Prentun: Steinholt. ÁRIÐ 1986 sendi Einar Örn Gunnarsson frá sér smásöguna Bréf til mömmu. Nú hefur hann tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið því smásagan, lítið eitt breytt, myndar fyrsta kafla nýrrar skáldsögu hans. Þar skrifar ungur maður látinni móður sinni bréf sem í senn er brengluð "ástarjátning" hans til móðurinnar og óhugnanlegur vitnisburður um sjúkan huga manns sem lifir í lokuðum heimi eigin ranghugmynda. Sá heimur er fullur ofbeldis, sjálfshafningar og -vorkunnar bréfritara sem kallar sig "Vitrun hins Guðdómlega Kærleika", auk fyrirlitningar á þeim sem ekki hafa sömu sýn og hann. Hann hefur megna óbeit á öllu því sem tengist borgaralegum gildum en er um leið afurð smáborgara og notfærir sér margt af því sem lífi foreldranna tilheyrir. Hann sækist einnig eftir viðurkenningu samfélagsins á snilli sinni en er (skiljanlega) alls staðar hafnað og endurupplifir hann um leið höfnun foreldranna í æsku, sérstaklega þó föðurins. Þessi höfnun virðist að einhverju leyti vera skýring sögunnar á geðveiki hans.

Sögumaður rifjar upp samband sitt við móður og föður (sem einnig er látinn) og segir mömmu frá því sem á dagana drífur eftir að hennar nýtur ekki lengur við. Þrátt fyrir andúð á föðurnum fer sonurinn í föt hans í ógeðfelldum leiðöngrum sínum um bæinn, en einnig í óeiginlegum skilningi því báðir beita móðurina grófu ofbeldi. Ofbeldi sonarins nær raunar út yfir gröf og dauða. "Ástarjátning" hans og þráhyggjufull móðurbindingin er fyrst og fremst valdbeiting og má vel líta á bréfið sem nauðgun hans á látinni móður sinni. Hann þráir að hverfa inn í og yfirtaka hana, ekki aðeins í lífinu handan dauðans, heldur beinlínis í gröfinni. Ofbeldið stigmagnast í textanum þar til valdbeitingin verður loks eina tjáningarform bréfritara. Þegar ofbeldið nær að lokum hámarki í limlestingum og hrottalegri nauðgun missir það þó tökin á lesandanum, meðal annars vegna þess hve beinar og dólgslegar lýsingarnar eru. Um leið glatar frásögnin nokkru af trúverðugleika sínum. Að vísu er trúverðugleiki kannski ekki helsta keppikefli textans, sögumaður er allt annað en áreiðanlegur og eiga atburðir sér ef til vill einungis stað í hugarheimi hans.

Maðurinn, sem formsins vegna er einráður í frásögninni, talar í frösum. Hann sér heiminn í skýru ljósi og er í eins konar krossferð sem meðal annars miðar að því að "vernda" sakleysi barna og hreinsa heiminn af hræsni. Hann hefur komið sér upp ákveðnu trúarkerfi þar sem hann er æðstiprestur og stundum guð og hefur textinn oft yfirbragð predikunar sem leitast við að koma Sannleika sonarins á framfæri. Innihald þessarar predikunar er hins vegar af allt öðrum og meira hrollvekjandi toga en við eigum að venjast í hefðbundnum stólræðum, en sú hrollvekja kemst þó ekki alltaf nægilega vel til skila. Sögumaður gerir sér of skýra grein fyrir eigin afbrigðileika til að sálsýki hans nái tökum á lesanda, auk þess sem textinn hneigist til ofskýringa þannig að stundum verður takmarkað rými fyrir ímyndunarafl þess sem les. Best tekst höfundi að mínu mati upp þegar lesanda er látið eftir að fylla upp í eyður frásagnarinnar og má í því sambandi bæði nefna dauða hundsins Hvutta og föðurins. Sá óhugnaður sem þar leikur á milli lína er mun áhrifameiri en sá sem því miður er of oft einungis orðaður. Kristín Viðarsdóttir Einar Örn Gunnarsson