ÓEINING um sameiginlegt framboð Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista hefur dregið úr stuðningi við framboð þessara flokka. Trúverðugleiki framboðsins hefur beðið nokkurn hnekki og kjósendur virðast setja traust sitt á stjórnarflokkana, en stuðningur við þá mælist nú 69,2% í skoðanakönnun Gallup, sem er mesta fylgi sem flokkarnir hafa fengið.

Traust kjósenda á

samfylkingu minnkar

Stuðningur við samfylkinguna hefur verið að minnka síðustu mánuði og mælist nú innan við 20%. Langvinnar deilur um framboðsmál samfylkingar er líklegasta skýringin á þessu. Á sama tíma eykst fylgið við ríkisstjórnarflokkana, en það er nú tæplega 70%. Egill Ólafsson skoðaði þann vanda sem samfylkingin stendur frammi fyrir.

ÓEINING um sameiginlegt framboð Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista hefur dregið úr stuðningi við framboð þessara flokka. Trúverðugleiki framboðsins hefur beðið nokkurn hnekki og kjósendur virðast setja traust sitt á stjórnarflokkana, en stuðningur við þá mælist nú 69,2% í skoðanakönnun Gallup, sem er mesta fylgi sem flokkarnir hafa fengið. Áður hafði það mest mælst 68,9% í skoðanakönnun í júní 1995.

Í skoðanakönnun sem Gallup gerði dagana 27. nóvember til 6. desember fékk samfylkingin 16,5% fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn fékk 48,6%, Framsóknarflokkurinn 20,6%, Alþýðuflokkurinn 4,4%, Alþýðubandalagið 4%, Kvennalistinn 0,9%, Vinstrihreyfing ­ grænt framboð 2,2% og Frjálslyndi flokkurinn 2%.

Samfylkingin og Framsókn með svipað fylgi

Gallup spurði þá sem nefna flokkana þrjá sem standa að samfylkingunni hvort þeir myndu styðja hana ef Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti bjóða ekki fram í eigin nafni í kosningunum. 60% svarenda sögðust ætla að styðja samfylkinguna. Miðað við þau svör er fylgi samfylkingarinnar í kringum 22% eða litlu meira en fylgi Framsóknarflokksins. Þetta er að sjálfsögðu skelfileg niðurstaða fyrir samfylkinguna, sem stefndi að því að verða jafnstór Sjálfstæðisflokknum, en hann fékk 37,1% fylgi í síðustu kosningum.

Það sem verra er fyrir samfylkinguna er að fylgið við hana virðist fara minnkandi. Ef fylgi samfylkingar og allt fylgi flokkanna þriggja sem að henni standa er lagt saman kemur í ljós að fylgið var tæplega 35% í ágúst. Í október hafði fylgið lækkað niður í 29% og nú mælist það tæplega 26%.

Sterk staða ríkisstjórnarflokkanna þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að undanfarin ár hefur verið góðæri í landinu og kaupmáttur hefur vaxið ár frá ári. Við slíkar aðstæður hlýtur stjórnarandstaðan að eiga undir högg að sækja. En góðærið skýrir hins vegar ekki að fylgi við samfylkinguna skuli á tveimur mánuðum hafa lækkað úr 35% í 26%.

Erfitt verkefni

Fáir reiknuðu með að það yrði auðvelt fyrir Alþýðubandalag, Alþýðuflokk og Kvennalista að ná samstöðu um málefni og sameiginlegt framboð. Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, segir að erfiðleikarnir hafi ekki verið meiri en hún hafi búist við fyrirfram. Ekki er víst að allir taki undir þetta með henni. A.m.k. virðist stór hluti kjósenda samfylkingarinnar hafa vonast eftir að þetta gengi betur og lýsa óánægju með framvindu mála í skoðanakönnunum. Þeir samfylkingarmenn eru til sem segja að líklega hefði þurft að undirbúa málið betur og gefa sér tíma til þess fram að kosningunum árið 2003 eins og Steingrímur J. Sigfússon og fleiri fyrrverandi Alþýðubandalagsmenn sögðu á landsfundi Alþýðubandalagsins í júlí þegar flokkurinn tók ákvörðun um að stefna að sameiginlegu framboði í næstu kosningum.

Forystumenn samfylkingarinnar sögðu, eins og stjórnmálamanna er siður, að það réðist af málefnalegri samstöðu flokkanna hvort af sameiginlegu samstarfi þeirra yrði eða ekki. Mikla vinnu er búið að leggja í að ná málefnalegri samstöðu með flokkunum. Í stórum dráttum má segja að flokkunum hafi tekist að tala sig niður á sameiginlegan grunn í flestum málum. Ágreiningur er þó enn í utanríkismálum og að nokkru leyti einnig í sjávarútvegsmálum.

Átökin hafa skemmt fyrir

Það var hins vegar fyrst þegar kom að því að taka ákvörðun um röðun á framboðslista sem virkilega fór að reyna á þanþol samstarfs flokkanna. Átökin sem verið hafa um framboð samfylkingar í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi hafa verið bæði hörð og langvinn. Enginn vafi leikur á að þessi átök hafa skemmt verulega fyrir framboðinu. Þau draga úr trúverðugleika samfylkingarinnar og leiða til þess að margt fólk missir trú á hana. Kjósendur spyrja, hvernig geta stjórnmálamenn, sem gengur svona illa að leysa eigin framboðsmál, komið sér saman um stjórn landsins?

Sú hætta er einnig fyrir hendi að þessi hörðu átök um framboðsmálin valdi trúnaðarbresti innan samfylkingarinnar. Segja má að þegar hafi orðið ákveðinn trúnaðarbrestur innan hreyfingarinnar, a.m.k. segja kvennalistakonur að fyrir landsfund flokksins í haust hafi verið gert heiðursmannasamkomulag við þær um að þær fengju tvö örugg sæti í Reykjavík. Við þetta samkomulag ætli A-flokkarnir ekki að standa. Hættan er sú að átökin um röðun á lista komi niður á samstarfi frambjóðenda og þessi hætta eykst eftir því sem það dregst að leysa ágreininginn.

Mikil fundahöld hafa verið síðustu daga í herbúðum samfylkingarinnar um framboðsmál. Samkomulag virðist vera að takast í flestöllum landsbyggðarkjördæmunum. Góðar líkur eru taldar á að samkomulag takist í Reykjaneskjördæmi um að Kvennalistinn fái fjórða sætið. Þegar þetta er ritað er hins vegar óljóst hvort samkomulag næst í Reykjavík. A- flokkarnir hafa komið sér saman um tillögu um prófkjör um átta efstu sætin, en óljóst er hvort Kvennalistinn samþykkir hana. Flest bendir til þess að Kvennalistinn hverfi úr samfylkingunni ef hann hafnar tillögunni.

Takist flokkunum að leysa framboðsmálin bíður annað vandamál sem einnig er erfitt að leysa og það er að velja samfylkingunni leiðtoga. Þó skoðanakannanir hafi sýnt mestan stuðning við að Margrét Frímannsdóttir leiði samfylkinguna er ljóst að margir Alþýðuflokksmenn eiga erfitt með að sætta sig við að gera formann Alþýðubandalagsins að foringja sínum með sama hætti og margir Alþýðubandalagsmenn eiga erfitt með að samþykkja Sighvat Björgvinsson sem leiðtoga. Þetta vandamál verða flokkarnir hins vegar að leysa því að túlkun og framsetning á stefnu samfylkingar kemur til með að skipta miklu máli. Það gengur ekki að það séu margir sem túlki stefnuna eins og gerðist þegar stefnuskrá samfylkingarinnar var birt í haust, en þá túlkaði hver stefnuna með sínum hætti.

Ólík afstaða ASÍ og BSRB til samfylkingar

Þegar umræður um sameiginlegt framboð flokkanna þriggja hófust fyrir alvöru var lögð áhersla á mikilvægi þess að sameina félagshyggjufólk til nýrrar sóknar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Spyrja má hvort þetta takist. Það liggur fyrir að nokkrir af öflugustu talsmönnum stjórnarandstöðunnar hafa ákveðið að stofna nýjan stjórnmálaflokk, Vinstrihreyfingu ­ grænt framboð, og miðað við mætingu á landsráðstefnu hans er ástæða til að ætla að hann eigi eftir að ná fótfestu.

Það liggur jafnframt fyrir að verkalýðshreyfingin er klofin í afstöðu til sameiginlegs framboðs. Forystumenn ASÍ og Verkamannasambandsins lögðu mikla áherslu á að A-flokkarnir sameinuðu krafta sína í komandi kosningum og færa má rök fyrir því að þetta hafi ráðið úrslitum um að formaður Alþýðubandalagsins ákvað að reyna að fá slíka tillögu samþykkta á landsfundi flokksins þrátt fyrir harða andstöðu frá meirihluta þingflokksins. Hins vegar hafa flestir af forystumönnum BSRB skipað sér í raðir Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, og raunar sumir forystumenn ASÍ, ræddi um það á síðasta þingi ASÍ, að þörf væri á að sameina þessi samtök launamanna. Pólitísk þróun, launaþróun og breytingar í lífeyriskerfinu benda því til þess að ASÍ og BSRB séu heldur að stefna hvort í sína áttina.

Morgunblaðið/Þorkell KVENNALISTINN stendur nú frammi fyrir því að samþykkja eða hafna tillögu A-flokkanna um prófkjör um átta efstu sætin í Reykjavík.