"Milljón tonn af loðnu
er hvergi að finna"
Hafrannsóknastofnun aftur
í loðnuleit í janúar
HAFRANNSÓKNASTOFNUN hefur ákveðið að endurmæla loðnustofninn í upphafi nýs árs, en sú
ákvörðun er byggð á niðurstöðu loðnuleiðangurs stofnunarinnar, sem farinn var seinni hluta nóvembermánaðar. Um milljón tonn af loðnu hefðu þurft að finnast í sjónum til þess að spár Hafrannsóknastofnunar um heildarafla á vertíðinni gangi eftir. Í leiðangrinum mældust 360.000 tonn af kynþroska loðnu, sem er miklu minna en búist hafði verið við, og 480.000 tonn af ókynþroska fiski sem ekki mun hrygna fyrr en árið 2000. Talið er líklegt að verulegur hluti núverandi hrygningarstofns hafi ekki verið genginn suður á hefðbundnar slóðir er leiðangurinn stóð yfir. Hafró mun ekki gera tillögur um breytingar á aflaheimildum á yfirstandandi loðnuvertíð fyrr en að loknum fyrirhuguðum janúarleiðangri.
"Þessi niðurstaða er svo langt frá því sem búist hafði verið við að ákveðið hefur verið að fara í annan loðnuleitarleiðangur í janúar," segir Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. "Það vantar hátt í hálfa milljón tonna til þess að sá kvóti sem þegar hefur verið úthlutað standist, og annað eins ef spáin á að ganga eftir, þannig að þau milljón tonn af loðnu sem hefðu þurft að vera á svæðinu svo að spár gangi eftir var hvergi að finna."
"Af veiðistofninum í ár sáum við ekki nema 360.000 tonn," segir Hjálmar. Ráðgert hafði verið að veiða tæplega eina og hálfa milljón tonna af loðnu á vertíðinni, en rúmlega 400.000 tonn eru komin á land. "Smáloðnan var mjög vel á sig komin en það sem við sáum af stórri loðnu var magurt og rýrt. Hið óvenjulega ástand sem ríkt hefur í sjónum sl. eitt og hálft ár, bendir til þess að einungis hluti veiðistofnsins hafi gengið inn á svæðið sem við náðum að kanna."
Vísbendingar um komu loðnunnar út af Langanesi
"Áður en síðasta bræla skall á var nokkuð góð veiði norður af Langanesi og Melrakkasléttu og töluvert af loðnu að sjá að sögn skipstjóra þar," segir Hjálmar. "Það bendir til þess að loðnan sé að koma þótt við höfum ekki séð hana í leiðangrinum."
Loðna fannst einkum yfir utanverðu landgrunninu frá svæði norðvestur af Vestfjörðum og austur á Kolbeinseyjarhrygg og við landgrunnsbrúnina norður af Langanesi suður á móts við Gerpi. Út af vestanverðu Norðurlandi og Vestfjörðum var uppistaðan í lóðningunum ársgömul smáloðna. Enda þótt kynþroska smáloðna væri einnig á austursvæðinu, var meirihluti lóðninganna þar um slóðir hins vegar kynþroska loðna, segir í fréttatilkynningur frá Hafrannsóknastofnun.
Hiti og selta meiri en í meðallagi
Hiti og selta sjávar er víða meiri en í meðalárferði. Hlýs Atlantssjávarins gætir í verulegum mæli allt norður á Vestfjarðamið og í Grænlandssundi. Hlýsjórinn nær hins vegar lítið austur fyrir Kögur. Fyrir austan Siglunes og allt austur fyrir land voru bæði hiti og selta yfir landgrunninu í góðu meðallagi. Á vestanverðum Norðurmiðum, milli Kögurs og Sigluness, lá köld tunga að norðan í yfirborðslögum með hita undir núll gráðum á Celsíus og upp í þrjár gráður á Celsíus og lágri seltu.
Niðurstöður smáloðnumælinganna í leiðangrinum benda til þess að vænta megi góðrar loðnugengdar á næstu vertíð, veturinn 1999 til 2000. Formleg spá verður hins vegar ekki gefin út fyrr en endanlegri úttekt á yfirstandandi vertíð verður lokið.