Blair segir Íhaldsflokk á
valdi hatursmanna ESB
Lundúnum. Reuters. The Daily Telegraph.
TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, vísaði í spurningatíma á þingi
í fyrrakvöld á bug ásökunum íhaldsmanna um að hann hefði "svikið" hagsmuni landsins á leiðtogafundi Evrópusambandsins (ESB) í Vín um helgina, og sagði að stefna stjórnarandstöðuflokksins væri nú á valdi ofstækisfullra andstæðinga Evrópusamvinnunnar.
"Brjálæðingarnir hafa tekið yfir völdin á hælinu," sagði Blair þegar William Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins, hafði ögrað honum í þinginu með því að fullyrða að hann segði eitt heima hjá sér en annað er áheyrendur hans væru útlendingar.
Íhaldsmenn, sem eru í stjórnarandstöðu og njóta samkvæmt skoðanakönnunum um 20% minna fylgis en Verkamannaflokkur Blairs, reyna nú að ganga á lagið þegar sumir þykjast sjá vísbendingar um að forsætisráðherrann eigi undan höggi að sækja í samskiptum við Evrópusambandið. Hague skoraði á Blair að taka af allan vafa um hvort hann vildi frekari samruna í Evrópu eða ekki.
Áður hafði Hague sagt á blaðamannafundi, að vegna þess hversu Blair veiti landinu lélega forystu stæði "Bretland nú frammi fyrir stærstu ógn við sjálfstæði sitt í áratugi".
Blair sagði að árás Hagues sýndi að flokkur hans væri nú á valdi hatrammra andstæðinga Evrópusamvinnunnar. "Ef þeir væru við völd núna hefðum við engan bandamann neins staðar, engin áhrif, ekkert vægi," sagði hann. En hann sagði einnig að ríkisstjórn sín myndi halda áfram að berjast fyrir brezkum hagsmunum.
"Öll önnur lönd í Evrópu hika hvergi við að verja eigin þjóðarhagsmuni en fylgja samt uppbyggilegri stefnu í Evrópusamvinnunni. Mér er það lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna ekki ætti að vera hægt að gera það sama í okkar landi," lýsti Blair yfir.