LEIÐTOGAR ríkjanna, sem aðild eiga að ASEAN, Suðaustur-Asíu- bandalaginu, hvöttu til þess í gær, að sundurlyndisfjandinn yrði rekinn á haf út og ríkin sameinuðust um aðgerðir í efnahagsmálum. Almenn samstaða virtist þó vera um fátt annað en þá skoðun, að nú sé annaðhvort að duga eða drepast fyrir Asíuríkin.
Leiðtogafundur ASEAN-ríkja í Víetnam Lítil samstaða um úræði í efnahagsmálum

Hanoi. Reuters.

LEIÐTOGAR ríkjanna, sem aðild eiga að ASEAN, Suðaustur-Asíu- bandalaginu, hvöttu til þess í gær, að sundurlyndisfjandinn yrði rekinn á haf út og ríkin sameinuðust um aðgerðir í efnahagsmálum. Almenn samstaða virtist þó vera um fátt annað en þá skoðun, að nú sé annaðhvort að duga eða drepast fyrir Asíuríkin.

Við setningu ASEAN-fundarins í Hanoi í Víetnam voru leiðtogarnir sammála um vandann, sem er vaxandi ágreiningur og mestu efnahagserfiðleikar í áratugi, en ósammála um hvað væri helst til ráða. Sumir hvöttu til aukins frjálsræðis og nánari samvinnu í efnahagsmálum en aðrir vildu fara sér hægt. Þá var líka deilt um hvenær Kambódía skyldi fá aðild að samtökunum.

Trúverðugleikinn í hættu

Joseph Estrada, forseti Filipseyja, sagði, að frá stofnun ASEAN fyrir 31 ári hefði aldrei reynt jafn mikið á bandalagið sem nú. Margir efuðust um samstöðu ríkjanna og trúverðugleika og þess vegna yrðu þau strax að láta hendur standa fram úr ermum. Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu, sem hefur veið gagnrýndur fyrir að fangelsa Anwar Ibrahim, fyrrverandi fjármálaráðherra, lagði hins vegar á það áherslu, að ríkin ættu ekki að vera að skipta sér af málum hvers annars og allar ákvarðanir skyldi taka í sameiningu. Þá fordæmdi hann gjaldeyrisbrask og sagði, að þar til komið hefði verið í veg fyrir það myndi Malasía halda uppi ströngu eftirliti með gjaldeyrisviðskiptum.

Aðildarríki ASEAN eru Brunei, Indónesía, Laos, Malasía, Myanmar, Filipseyjar, Singapore, Taíland og Víetnam.

Asíuríkin útundan?

Sumir leiðtoganna, t.d. Goh Chok Tong, forsætisráðherra Singapore, hvöttu til aukins frelsis í fjármálum og lögðu til, að tollmúrar yrðu rifnir niður. Sagði hann, að kæmu ríkin sér ekki saman um bæta efnahagslífið myndu stórveldin beina sjónum sínum í aðrar áttir.

Keizo Obuchi, forsætisráðherra Japans, var væntanlegur til Hanoi í gær og í dag ætlaði hann að kynna áætlun stjórnar sinnar um 2.100 milljarða ísl. kr. aðstoð við Asíuríkin.

Utanríkis- og viðskiptaráðherrar ASEAN-ríkjanna hafa þegar gengið frá áætlun um aðgerðir í efnahagsmálunum en sérfræðingum þykir lítið til hennar koma. Segja þeir, að í besta falli sé um að ræða lítið skref í rétta átt.