HVERGI í N-Evrópu eru meiri viðskipti með fisk en í Hollandi og þannig hefur það verið um aldaraðir. Liggur landið mjög vel við fiskimiðunum í Norðursjó og þaðan eru allar leiðir greiðar til stóru markaðanna í Suður-Evrópu og annars staðar í álfunni.

Holland stærst í viðskiptum

með fisk í Norður-Evrópu

Mesta verðmætið

er í flatfiskinum

HVERGI í N-Evrópu eru meiri viðskipti með fisk en í Hollandi og þannig hefur það verið um aldaraðir. Liggur landið mjög vel við fiskimiðunum í Norðursjó og þaðan eru allar leiðir greiðar til stóru markaðanna í Suður-Evrópu og annars staðar í álfunni.

Í Hollandi eru gerð út um 500 tog- og nótaveiðiskip, 13 skip, sem frysta uppsjávarfisk um borð, og 80 skelbátar. Að undanskildum uppsjávarfiskinum fer allur fiskur á markað en mestu fiskmarkaðirnir eru í Urk, Ijmuiden, Den Helder og Goedereede. Helstu rækjuhafnirnar eru í Den Oever, Harlingen og Lauwersoog og kræklingi og ostru er aðallega landað í Yerseke.

Í Hollandi vinna um 7.000 manns við heildsölu og vinnslu á fiski en verðmætustu tegundirnar eru flatfiskur, einkum sólflúra og skarkoli. Hefur fiskmarkaðurinn í Urk sérhæft sig í flatfiski og þar fara um 40.000 tonn af fiski í gegn árlega. Er öll aðstaða þar og búnaður ný af nálinni, næststærsti fiskmarkaður í Evrópu að sögn og mjög tölvuvæddur. Þegar kaupendur koma á markaðinn setjast þeir við tölvu og um hana fara síðan öll viðskiptin. Þegar þetta fyrirkomulag var tekið upp vakti það litla hrifningu hjá "gömlu" mönnunum enda hafa margir þeirra vikið fyrir öðrum yngri.

Upplýsingar um gervihnött

Urk er ekki við sjóinn, heldur við vatn eða lón og allur fiskur er fluttur þangað á kælibílum. Er mest um að vera á markaðinum á mánudögum og föstudögum en tekið er við upplýsingum um afla skipanna í gegnum gervihnött og þeim síðan miðlað til kaupenda.

Northseafood er eitt stærsta fiskvinnslufyrirtækið í Urk, með um 200 manns í vinnu. Er þar unnið úr meira en 7.000 tonnum af flatfiski árlega. Er fiskurinn ýmist seldur til heildsala eða mötuneyta en 70% framleiðslunnar fara til Ítalíu. Aðrir markaðir eru Spánn, Sviss, Belgía og Svíþjóð.

Northseafood kaupir allan sinn fisk á markaði, í Hollandi og annars staðar. Er hann flakaður í höndunum, frystur og pakkaður. Hefur fyrirtækið nýlega stækkað kæligeymsluna og getur nú verið með 2.500 tonn. Allur úrskurður og annað, sem til fellur, fer í gæludýrafóður þannig, að frá sjálfu fyrirtækinu er úrgangurinn sama og enginn. Þar að auki sér fullkominn hreinsibúnaður um að hreinsa 95% vatnsins eftir notkun.

Veitir 3.000 manns atvinnu í Marokkó

Klaas Puul heitir ein helsta skelfiskvinnslan í Hollandi og hún er í Volendam við Markemeer, við lón inni í landi. Flytur hún inn og vinnur rækju, smokkfisk, hörpudisk, lax, surimi og leirgeddu víðs vegar að úr heiminum en hefur þó sérhæft sig í brúnni Norðursjávarrækju. Er hún pilluð í verksmiðju Klaas Puul í Marokkó og vinna þar 3.000 manns.

Ouwehand-fyrirtækið er gamalgróið, jafnt í veiðum sem vinnslu, og sérhæfir sig í ýmsum afurðum. Er velta þess um 3,8 milljarðar ísl. kr. á ári. Kunnast er það þó fyrir síldina og hefur að sögn forystuna í flökunum, "matjes", sem eru mjög eftirsótt í Hollandi. Ouwehand lætur veiða alla ársþörfina fyrir síld þegar hún er best og feitust í maí og júní og þá er hún unnin og fryst. Verður þá að fjölga starfsmönnum um stundarsakir um nokkur hundruð og unnið er á vöktum allan sólarhringinn.

200.000 tonn af uppsjávarfiski

Í veiðinni á uppsjávarfiski er fyrirtækið Parlevliet & Van der Plas einna stærst en það er í Katwijk. Höndlar það með meira en 200.000 tonn árlega. Þegar það var stofnað 1950 var það eingöngu í fiskviðskiptum en keypti fljótt eigið skip og er nú með 13 frystitogara. Aflinn er makríll, hrossamakríll, síld, lýsingur, loðsíli og brislingur og er hann flokkaður um borð og frystur. Er hann síðan seldur til flestra heimshluta. Nú í september keypti fyrirtækið fjögur skip með samtals 15.000 tonna karfakvóta en karfinn á að fara á markað í Austur-Asíu.

Í Suður-Hollandi er bærinn Yerseke frægur fyrir skelina, krækling, ostru og fleira og þar eru mörg fyrirtæki í vinnslunni. Gera mörg út sína eigin báta og leigja svæði með ströndinni þar sem þau rækta krækling og safna ostrulirfum. Eru þær síðan ræktaðar þar eða fluttar annað til ræktunar.

Soðin sýni metin

Allur kræklingur er seldur á markaði. Við löndun eru tekin sýnishorn úr aflanum, sem eru vegin, flokkuð og síðan soðin. Þá eru þau endanlega metin og þar með allur aflinn. Áður en kræklingurinn er seldur er hann þó hafður í eins konar hreinsitanki í átta klukkutíma. Að lokinni vinnslu er kræklingnum pakkað ferskum í lofttæmdar umbúðir og er neysluhæfur næstu átta dagana.