FYRIR ári síðan rakst ég á athyglisverða bók, þegar ég var á ferð vestur í Boston í Bandaríkjunum. Þetta var bókin Cod, Þorskur, eftir blaðamanninn og rithöfundinn Mark Kurlansky. Ég keypti mér þessa bók til lestrar á ferðalaginu, og þótti hún svo athyglisverð og skemmtilega skrifuð, að mér fannst ég endilega þurfa að segja fleirum frá upplifun minni.
Ævisaga þorsksins

Frá Sturlu Friðrikssyni:

FYRIR ári síðan rakst ég á athyglisverða bók, þegar ég var á ferð vestur í Boston í Bandaríkjunum. Þetta var bókin Cod, Þorskur, eftir blaðamanninn og rithöfundinn Mark Kurlansky. Ég keypti mér þessa bók til lestrar á ferðalaginu, og þótti hún svo athyglisverð og skemmtilega skrifuð, að mér fannst ég endilega þurfa að segja fleirum frá upplifun minni. Þegar ég kom heim fór ég því til kunningja míns, sem gefur út bækur og sagði honum frá bókinni. Ég taldi að þarna væri um bók að ræða, sem Íslendingar hefðu endilega þörf á að kynnast. Af þessari útgáfu varð samt ekki fyrir mitt tilstilli, en aðrir hafa verið sama sinnis og ég. Og nú er þessi ágæta bók komin á markaðinn í íslenskri þýðingu Ólafs Hannibalssonar og heitir hér Ævisaga þorsksins.

Í bók þessari er raunverulega rakið hvernig þorskurinn hefur haft áhrif á hluta veraldarsögunnar. Sýnir höfundur fram á hvernig þessi auðlind hafsins varð til þess að fiskimenn sigldu á æ dýpri mið í leit að þorski. Þannig leiddi þorskurinn sæfara til landafunda, og þannig urðu auknar siglingar frá ýmsum Evrópulöndum til þeirra slóða sem þorsk var að fá í ferskan, saltaðan eða hertan.

Höfundur lýsir þessu ævintýri á mjög lipran hátt, þar sem hann greinir jafnt frá veiðarfærum, meðhöndlun afurðarinnar og matargerð á þorski ásamt mörgum þjóðsögum og vísum um þorsk. Hann hefur víða leitað fanga. Meðal annars til ýmissa heimildarmanna hér á landi. Er saga íslenskra veiða rakin á læsilegan hátt, og að lokum sagt frá þeim þorskastríðum sem við Íslendingar háðum.

Ég get ekki ímyndað mér annað en þessi bók eigi erindi til allra landsmanna, því við höfum um aldaraðir einmitt átt afkomu okkar að hluta undir þorski.

STURLA FRIÐRIKSSON,

náttúrufræðingur.