Íslenzk þjóðlög og sönglög eftir Sigfús Einarsson, Pál Ísólfsson, Atla Heimi Sveinsson, Grieg, Sibelius, Jón Leifs og Mussorgsky. Sigurður Bragason barýton; Vovka Ashkenazy, píanó. Norræna húsinu, mánudaginn 14. desember kl. 20:30.

Angist og

örvænting TÓNLIST Norræna húsið EINSÖNGSTÓNLEIKAR Íslenzk þjóðlög og sönglög eftir Sigfús Einarsson, Pál Ísólfsson, Atla Heimi Sveinsson, Grieg, Sibelius, Jón Leifs og Mussorgsky. Sigurður Bragason barýton; Vovka Ashkenazy, píanó. Norræna húsinu, mánudaginn 14. desember kl. 20:30. SAMSTARF Sigurðar Bragasonar og Vovku Ashkenazy er ekki nema nokkurra ára gamalt, en hefur þegar skilið eftir sig hljómdisk frá 1995 með sönglögum eftir Chopin, Liszt, Rachmaninoff, Ravel og Rubinstein. Um líkt leyti héldu þeir félagar tónleika á Akureyri, en vel sóttir tónleikar þeirra í Norræna húsinu á mánudagskvöldið var voru hinir fyrstu í Reykjavík. Tvö íslenzk þjóðlög voru fyrst á dagskrá, "Litlu börnin leika sér" og "Stóðum tvö í túni", bæði úr söngbók Göggu Lund í sígildum útsetningum Ferdinands Rauters. Við tóku "Um haust" og "Draumalandið" eftir Sigfús Einarsson og fjögur lög eftir Pál Ísólfsson, "Hrosshár í strengjum" og "Blítt er undir björkunum" úr Gullna hliðinu, "Söknuður" (ónefnt í tónleikaskrá) og "Frá liðnum dögum". Íslenzku deildinni fyrir hlé lauk á gáskafullum nótum Gamansöngva Atla Heimis Sveinssonar, sem Kristinn Sigmundsson og Jónas Ingimundarson gerðu sígræn hér um árið. Þegar í þjóðlögunum komu fram tvö sérkenni í allfjölbreyttri túlkun Sigurðar Bragasonar. Annars vegar ákveðið dálæti á ofurveikum söng á höfuðtónum ef ekki beinlínis í falsettu og gjarnan í niðurlagi, sem kom oftast skemmtilega út, þótt örlítið óstöðugur væri fyrstu skiptin. Þetta hefði kannski mátt brúa betur stöku sinni með miðlungssterkum söng, einkum þegar andstæður við hið undangengna virtust óþarflega miklar og skyndilegar. Hins vegar textaframburðurinn, sem að vísu var skýr og klár (kannski burtséð frá örlitlum votti af smámæli á s-um) en ívið afturstæður á sérhljóðunum; hugsanlega litaður af rússneskum lögum Mussorgskys sem Sigurður hefur fengizt mikið við og syngur á frumtungunni eins og herforingi. Kostur þessa "yfirhöfga" er auðvitað meiri hljómur, og hafði Sigurður greinilega lítið fyrir því að fylla salinn án þess að þurfa að taka á, enda athyglisverð barýtonrödd hans auðheyrilega fullmótuð og gædd mikilli fyllingu. Íslenzku sérhljóðin hafa sum hins vegar þann söngræna annmarka að vera fremur framstæð, og er það sérstakt vandamál sem mörgum söngvurum, ekki sízt þeim er hafa numið og starfað lengi erlendis, virðist misjafnlega tamt að meðhöndla án þess að glata hljómfyllingu. Féll "rússnesk" túlkun Sigurðar ágætlega að ljúfsárleika Stóðum tvö í túni, en í Litlu börnin leika sér vantaði aftur á móti meiri birtu og barnslega einurð. Af lögum Sigfúsar Einarssonar var Draumalandið langþekktast og túlkunin að sama skapi persónulegust með meiri dýnamík og rúbató en algengast er. Afbragðsmjúkur samleikur Vovku var þar e.t.v. full hlédrægur og hefði þung danshrynjandi laga Páls Ísólfssonar úr Gullna hliðinu mátt komast betur til skila, enda tímaskynið þar svolítið flögrandi, einkum í Hrosshár í strengjum. Það lag tókst aftur á móti einna bezt af fjórum lögum Páls hjá Sigurði, er söng af karlmannlegum þrótti. Í óviðjafnanlegum smálögum Atla Heimis tókst ekki jafn vel í Kisa mín og í næsta lagi, Erlustefi, að draga upp ólíkar frásagnarpersónur textans, en þaðan í frá var allt sungið með viðeigandi ferskri kímni og gætti meira sjálfstæðis en vænta mátti miðað við alkunna bravúrumeðferð Kristins Sigmundssonar, sem nánast hefur lagt línuna fyrir eftirfarandi túlkun. Fjaðurmagnaður píanóleikur Vovku fylgdi Sigurði eftir eins og skuggi og var sérlega tindrandi í Fingramáli, þar sem glitti í virtúósinn án þess að yfirkeyra sönginn. Hinn dansk/norski söngtexti Grieg-laganna tveggja, "Den særde" og "Et Syn", virtist ekki Sigurði jafn heimatamur í framburði og móðurmálið og rússneskan, en inntakstúlkunin brást ekki að vanda. Einkum var seinna lagið vel flutt, ýmist á hraustlegum og angurværum nótum, en í hinu fyrra vantaði meiri stöðugleika á veikari stöðum, og ofurveikt niðurlagið verkaði heldur ýkt. Í lögunum tvö eftir Sibelius, "Til Kvällen" og "Kyssens hopp", var ljóðrænn tærleiki í fyrirrúmi, ekki sízt í fallega mjúkum píanóleiknum, en dýnamíkin í seinna laginu var einum of vökur fyrir konsertflutning þótt hefði ugglaust notið sín vel í hljóðriti. Jón Leifs hefði kunnað að meta tíðan flutning verka sinna nú á síðari árum. Þeir Sigurður fluttu þrjá söngva úr Söguhljómkviðunni, "Brennusöngr Skarphéðins", "Húskarlahvöt" Þormóðar Kolbrúnarskálds og "Helsöngr Þormóðar" frá Stiklastaðarorrustu (Undrask öglis landa / eik hví vér rom bleikir) í ábúðarmiklum hetjustíl Jóns, og stóð sérstaklega upp úr Helsöngurinn, sem hefði sómt sér vel í forngrískum harmleik. Dimm lífssýn kallar á dimma rödd, og á það svo sannarlega við söngva Modests Mussorgskys, sem lengst af hafa verið einkavígi bassa og barýtona, þó að undir hið síðasta sé farið að fjúka í það skjól með framlagi fáeinna hugdjarfra söngkvenna. Kastar þó tólfum í lögum Mussorgskys við kvæðabálk Golenishtchev-Kutusovs "Án sólar", því annað eins svartnætti angistar og örvæntingar er fáséð í víðfeðmri tóngrein vestrænna einsöngslaga og kemur óhugnanlega saman við frægt málverk Ilju Repins vinar hans af tónskáldinu í helfjötrum áfengisóráðsins skömmu fyrir andlátið. Án sólar var samið tveim árum fyrr, og sýnir ólánsamasti en kannski mesti snillingur "Fimmmenninga"-hóps þjóðlegra rússneskra tónskálda þar snilldartök sín bæði á meðferð rússnesks máls, sem í illyfirfæranlegri samtvinnun sinni við tónmálið verður helzt jafnað við tök Janaceks á tékkneskum texta, og í útmálun andrúmslofts, þar sem þykkur píanósatzinn virðist víða stefna á hljómsveitarútfærslu. Þetta verk er með því kröfuharðasta sem þekkist í ljóðasöng, jafnt fyrir söngvara sem píanista, en í stuttu máli sagt var túlkun Sigurðar Bragasonar og Vovku Ashkenazy engu að síður stórglæsileg. Útfærsla tvímenninganna vó salt milli samúðar og hryllings, svo að hárin áttu til að rísa á höfði manns. Var vissulega ekki vanþörf á ljúfum Persneskum ástarsöng Antons Rubinsteins sem aukalagi að lokinni jafn átakamikilli raunasögu og hér gat að heyra til að slá bjartari botn í slavneskan drunga þessa eftirminnilega ljóðakvölds. Ríkarður Ö. Pálsson