Mótettukór Hallgrímskirkju. Stjórnandi: Hörður Áskelsson. Aðrir flytjendur: Douglas A. Brotchie (orgel), Daði Kolbeinsson (óbó). Hljómskálakvintettinn: Ásgeir H. Steingrímsson (1. trompet), Sveinn Birgisson (2. trompet), Þorkell Jóelsson (horn), Oddur Björnsson (básúna), Bjarni Guðmundsson (túpa). Jóna Fanney Svavarsdóttir (sópran). Upptaka fór fram í Hallgrímskirkju 18. des. 1997.

Jólatónleikar

stórsöngvarans TÓNLIST Hljómdiskar KRISTJÁN JÓHANNSSON/HELG ERU JÓL Mótettukór Hallgrímskirkju. Stjórnandi: Hörður Áskelsson. Aðrir flytjendur: Douglas A. Brotchie (orgel), Daði Kolbeinsson (óbó). Hljómskálakvintettinn: Ásgeir H. Steingrímsson (1. trompet), Sveinn Birgisson (2. trompet), Þorkell Jóelsson (horn), Oddur Björnsson (básúna), Bjarni Guðmundsson (túpa). Jóna Fanney Svavarsdóttir (sópran). Upptaka fór fram í Hallgrímskirkju 18. des. 1997. Hljóðritun: Stafræna hljóðupptökufélagið ehf. Tæknimenn: Ari Daníelsson, Sveinn Kjartansson, Jón Helgi Jónsson. Hljóðblöndun og eftirvinnsla: Sveinn Kjartansson. Skífan ehf. NÚ ER jólakonsert Kristjáns Jóhannssonar og Mótettukórs Hallgrímskirkju frá í fyrra kominn á hljómdisk, ómengaður með klappi og öllu. Og nú geta allir glaðst, bæði þeir sem voru í kirkjunni og ekki síður hinir sem urðu frá að hverfa af því þeir höfðu ekki rænu á að mæta nógu snemma (undirritaður fékk til að mynda ekki sæti, þó hann væri mættur hálftíma áður en tónleikarnir áttu að hefjast, og lét sig að sjálfsögðu hafa það að standa uppá endann). Og kannski geta þeir glaðst mest sem alls ekki komust, en hefðu viljað vera viðstaddir. Konsertinn hófst á þjóðsöngnum, allt sungið einraddað, en rödd stórsöngvarans barst hrein og klár gegnum kór og orgel, sem þó drógu ekki af sér. Og síðan upphófst falleg söngskrá, með indælum jólasálmum eins og Nóttin var sú ágæt ein eftir séra Einar í Heydölum og Sigvalda Kaldalóns (fallegt lag og yndislegur texti), Það aldin út er sprungið, en þessa sálma (sá fyrrnefndi reyndar vögguvísa) syngur Kristján mjög innilega og fallega, og auðvitað Heims um ból, svo ég nefni nú mína uppáhaldssálma. Einnig lofsöngvar til Guðsmóður (Ave Maria eftir Bach/Gounod og Sigvalda Kaldalóns), sungnir með tilþrifum. En hvað sem öllu þessu líður eru þetta jólatónleikar óperusöngvara, stórsöngvara, sem tekur stundum á honum stóra sínum og gerir mann svolítið lítinn og auðmjúkan þegar hann lætur röddina flæða á fullum styrk, en þá koma líka gæði hennar best í ljós. Það er reyndar stórkostlegt þegar magn og gæði fara saman, og þarf víst ekki að fjölyrða frekar um það. Þó þótti mér lokahnykkurinn, sem var ekki neitt "smá", í lagi Áskels Jónssonar við sálm Úlfs Ragnarssonar (Betlehemsstjarnan) svolítið útí hött, en vakti um leið sérkennilegar minningar um konsert á Möðrudalsöræfum, helgaðan fjallinu Herðubreið. Hinn frábæri Mótettukór er samboðinn söngvaranum, stundum með fullmiklu "engladúlluríi" fyrir smekk undirritaðs, en einnig það gerir hann frábærlega vel! En þetta er auðvitað spurning um útsetningu, og ég er reyndar ekki í vafa um að ég er í stórum minnihluta með þessa skoðun mína. En kórinn hefur líka til að bera hrífandi styrk undir öruggri stjórn Harðar Áskelssonar. Einnig koma hér við sögu fleiri snillingar, svo sem Douglas A. Brotchie (orgel), Daði Kolbeinsson (óbó), Hljómskálakvintettinn og Jóna Fanney Svavarsdóttir söngkona. Ástæða er til að hrósa upptöku og hljóðritun. Þessi hljómdiskur á ekkert skylt við meðalmennsku! Oddur Björnsson Kristján Jóhannsson