UNDANFARIÐ hefur almenningur verið vitni að óvenju sóðalegri framkomu eins þingmanns, sem nú situr á Alþingi. Þingmaður þessi er Kristinn H. Gunnarsson og var kosinn af lista Alþýðubandalags í síðustu þingkosningum í Vestfjarðakjördæmi.
Sóðalegur Vestfjarðaþingmaður

Frá Jóni Otta Jónssyni:

UNDANFARIÐ hefur almenningur verið vitni að óvenju sóðalegri framkomu eins þingmanns, sem nú situr á Alþingi. Þingmaður þessi er Kristinn H. Gunnarsson og var kosinn af lista Alþýðubandalags í síðustu þingkosningum í Vestfjarðakjördæmi. Þegar ákveðið var að hefja viðræður um samfylkingu Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista í því skyni að viðhafa sameiginlegt framboð til Alþingis og freista þess að ná betri nýtingu á atkvæðamagni þessara flokka, virtist Kristinn H. Gunnarsson vera samþykkur því starfi. Í haust kom það síðan í ljós að hann sigldi undir fölsku flaggi.

Allt í einu lýsti hann sig andsnúinn þessu samstarfi og taldi allt ómögulegt. Hann var byrjaður að daðra við Framsóknarflokkinn. Þegar Steingrímur J. Sigfússon sagði sig úr Alþýðubandalaginu, hætti hann sem formaður í Sjávarútvegsnefnd Alþingis og Kristinn var útnefndur í hans stað sem fulltrúi Alþýðubandalagsins. Rétt á meðan hann tekur við formannsstöðunni sat hann á svikráðum við flokkinn sem kom honum á þing. Lítilmannleg framkoma!

Nú fyrir stuttu gekk Kristinn í Framsóknarflokkinn og kórónaði subbugang sinn með því að neita að láta af formennsku í sjávarútvegsnefndinni.

Nú situr Kristinn H. Gunnarsson á Alþingi og er orðinn háseti á íhaldsduggunni með atkvæði stjórnarandstæðinga að baki. Enn einn sóðaskapurinn!

Af hverju segir hann ekki af sér þingmennsku og reynir heldur að koma sér á þing í vor á framsóknaratkvæðum? Ég á bágt með að trúa því að Alþýðubandalagsfólk á Vestfjörðum fari að verðlauna þennan mann eftir þessa auvirðilegu framkomu.

Á Vestfjörðum ætti valið að vera auðvelt fyrir alþýðufólk ­ annarsvegar Sighvatur Björgvinsson, heiðarlegur og prúður þingmaður og efstur á lista samfylkingarinnar ­ og hins vegar framangreindur Kristinn, svo og hinir ólánssömu klofningsmenn úr Alþýðubandalaginu, þeir Hjörleifur, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson sem væntanlega munu reyna að tvístra alþýðufólki á Vestfjörðum sem og í öðrum kjördæmum. Ég er nú kominn á efri ár og á nú þá bestu ósk til handa yngra fólkinu í þessu landi að það beri gæfu til að standa saman í lífsbaráttunni og láti ekki ævintýramenn og frjálshyggjupostula núverandi ríkisstjórnar villa sér sýn og styðji samfylkingu A-flokkanna og Kvennalista.

JÓN OTTI JÓNSSON,

prentari og nú eftirlaunakarl.