ÞAÐ EITT að draga upp mynd af leigubílstjórum í Frakklandi er verðugt verkefni fyrir hvaða handritshöfund sem er. Luc Besson vílar það ekki fyrir sér í myndinni Taxiþótt leigubílstjórinn sé heldur gassalegri en jafnvel innvígðustu Parísarbúar eiga að venjast. Það kemur í hlut Sam Naceri að leika leigubílstjórann og harðnaglann Daniel sem á sér þá ósk heitasta að aka kappakstursbifreið.
Sam Naceri í frönsku myndinni Taxi

Hvern fjandann er

hann að gera þarna?

Sam Naceri er á góðri leið með að verða ein skærasta stjarna Frakka á hvíta tjaldinu og er hann í sínu stærsta hlutverki í hraðamyndinni Taxi. Pétur Blöndal talaði við hann um skellinöðrur og leigubílstjóra.

ÞAÐ EITT að draga upp mynd af leigubílstjórum í Frakklandi er verðugt verkefni fyrir hvaða handritshöfund sem er. Luc Besson vílar það ekki fyrir sér í myndinni Taxi þótt leigubílstjórinn sé heldur gassalegri en jafnvel innvígðustu Parísarbúar eiga að venjast.

Það kemur í hlut Sam Naceri að leika leigubílstjórann og harðnaglann Daniel sem á sér þá ósk heitasta að aka kappakstursbifreið. Sem verður bersýnilegt um leið og hann leggur út í umferðina í Marseilles. En sér Naceri leigubílstjóra í nýju ljósi eftir myndina?

"Ég hef alveg sama álit á þeim og áður," svarar hann og passar sig að brosa ekki. "Það sem hefur breyst er að sumir þeirra kannast við mig þegar ég stíg upp í leigubílinn; þeir sem hafa séð myndina. En aðrir þekkja mig ekki og ef talið berst að myndinni finnst þeim skrýtið að hitta leikara úr henni í eigin persónu. Þeir fara þá gjarnan að afsaka sig og tala um að þeir þurfi að drífa sig á myndina."

Naceri tekur sér stutta kúnstpásu og bætir við eins og til að móðga ekki neinn: "Ég lít ekkert öðruvísi á leigubílstjóra en áður og tek oft leigubíl." Hann heldur áfram: "Ég er Parísarbúi og hef ferðast með leigubíl í háa herrans tíð. Myndin sem ég gerði hefur ekki breytt neinu um það. Það eina sem ég undrast er að Marseillebúar séu nógu brjálaðir til þess að leyfa áhættuleikurum að aka svona um stræti borgarinnar." Naceri er nýjasta stjarna Frakka í kvikmyndaheiminum. Hann fór með lítið hlutverk í mynd Bessons Léon árið 1994 en Taxi er stærsta hlutverk hans til þessa. Hvenær ákvað hann að gerast leikari? "Mig hafði dreymt um það frá því ég var barn að verða leikari. Eftir að hafa sótt tveggja ára leiklistarnámskeið fór ég leikprufu fyrir myndina Freres: La roulette rouge [Bræður: Rauða rúllettan] og hún opnaði mér leið inn í kvikmyndir."

Hvernig stóð á því að þér bauðst hlutverkið í Taxi? "Þegar ég var yngri sá ég myndina Le Grand bleu og sendi Luc Besson póstkort og bréf. Einn daginn hringdi síminn og ég var boðaður í leikprufu. Þá kom ég til greina í myndina Léon en því miður talaði ég ekki ensku. Ég fékk samt lítið hlutverk í myndinni og var viðstaddur tökur myndarinnar í tíu daga og á endanum varð það úr að ég fékk hlutverk í Taxi. Auðvitað kynntist ég Luc, en þetta er ekki bara út af kunningsskap því ég veit að ef ég hefði staðið mig illa hefði ég ekki orðið fyrir valinu. Ég tel að hann hafi verið ánægður með frammistöðu mína í Taxi enda var ég svo heppinn að hafa unnið með honum í tíu daga að Léon þar sem hann gat séð í hverju hæfileikar mínir lágu og hvað mig langaði að gera." Áttu eitthvað sameiginlegt með persónunni í myndinni? "Ég er dálítið eins og Daníel sem er alltaf að hjálpa félögunum," svarar hann. "Það átti sérstaklega við á unglingsárunum þegar allir áttu skellinöðru." Hann hugsar sig um, kinkar kolli og heldur áfram: "Já, ég líkist Daníel." Hvað tekur við? "Ég er með fullt af kvikmyndahandritum í farteskinu og þarf að fara að athuga minn gang og velja úr," svarar hann. "Valið er alltaf vandamál; hvað mig langar að gera. Það sem ég stend frammi fyrir er að reyna að velja góð handrit og vona að lánið leiki við mig áfram, að fólkið verði ánægt með mig og ég valdi því ekki vonbrigðum. Ég vona sannarlega að þeir sem horfa á mig í Taxi verði sáttir fyrst þeir þurfa að borga 42 franka til að sjá myndina. Annars fara þeir að þrasa um hvern fjandann hann [Naceri] sé að gera þarna. Honum hefði bara verið nær að vera heima hjá sér." Hvernig líkaði þér í Cannes þar sem myndin var frumsýnd í sumar? "Mér fannst það stórkostlegt," svarar hann. "Það var mjög gott fyrir mig að fara þangað og taka þátt í að auglýsa myndina Taxi. Mér var boðið til Cannes í tvo daga árið 1994 út af myndinni Bræðrunum: Rauðu rúllettunni. Ég varð þekktur sem leikari eftir það og man vel þegar ég gekk upp þrepin með rauða dreglinum við frumsýningu myndarinnar. Þá var móðir sonar míns ófrísk. Nú gekk ég upp rauða dregilinn með fjögurra ára syni mínum ­ og móður hans." SAM Naceri ásamt Emmu Sjöberg sem leikur harðskeytta löggu í Taxi.

FRÉDÉRIC Diefenthal og Marion Cotillard fara með stór hlutverk í Taxi.