ÉG VAR ekki alveg viss hvort ég væri vaknaður þegar ég las viðtal við þig í Morgunblaðinu, sunnudaginn 6. desember síðastliðinn. Í þessu stutta viðtali tekst þér með ótrúlegu hugsunarleysi að skerða aukatekjur hundruða veiðimanna um allt land með einni setningu og þar að auki ertu búinn að brjóta gegn reglum SKOTVÍS,
Opið bréf til formanns Skotveiðifélags Íslands

Frá Kjartani Inga Lorange:

ÉG VAR ekki alveg viss hvort ég væri vaknaður þegar ég las viðtal við þig í Morgunblaðinu, sunnudaginn 6. desember síðastliðinn.

Í þessu stutta viðtali tekst þér með ótrúlegu hugsunarleysi að skerða aukatekjur hundruða veiðimanna um allt land með einni setningu og þar að auki ertu búinn að brjóta gegn reglum SKOTVÍS, þar sem segir að meðal annars sé hlutverk SKOTVÍS það: að gæta að hagsmunum skotveiðimanna, og það er ekki gott mál þegar formaðurinn sjálfur er farinn að tala gegn félögum sínum í fjölmiðlum. Mig langar að vitna í þetta skelfilega viðtal þar sem þú segir: "Hins vegar virðist markaðsverðið vera orðið 350 krónur fyrir rjúpu í fiðri og verður ekki séð að það hækki úr þessu, enda engin ástæða til," ég bara verð að spyrja þig hvernig þú getur tekið þér það bessaleyfi að ákveða þetta með eins hrokafullri fullyðingu sem þessari?

Ég veit ekki hvað það eru margir félagsmenn í SKOTVÍS en meðan þankagangur formanns félagsins er á þennan veg, efast ég um að þeim eigi eftir að fjölga, því ef ég man rétt, messaðir þú af miklum krafti fyrir ekki löngu að félagið þyrfti að fá alla sem stunduðu skotveiðar inn í félagið, því þá fyrst væri hagsmuna veiðimanna gætt af öllu afli í nafni SKOTVÍS.

Draumar okkar allra eru misstórir, en þó held ég að þessi draumur þinn hafi verið að að breytast í martröð með þessu litla viðtali, því að þótt að félagið sé mótfallið sölu á villibráð eru þúsundir Íslendinga sem ekki hafa færi á því að veiða sér sínar rjúpur, en mundu margt gera til að fá sínar jólarjúpur.

Til eru menn á þessu landi sem hafa stóran hluta af sínum árstekjum af rjúpnaveiðum og það kæmi mér ekki á óvart, ef þeir hafa lesið þetta viðtal, að þeir séu enn rasandi yfir þessum ummælum þínum og mikið skil ég þá vel, enda held ég að þeir séu ekki til viðræðu um það að ganga í SKOTVÍS í dag eða í það minnsta ekki á meðan þú ert enn formaður.

Það er nefnilega sorglegt því að þessir menn eru fullir af fróðleik sem okkur hinum félagsmönnunum langar vafalítið að heyra, og þar hefðu hinir mánaðarlegu spjallfundir SKOTVÍS verið rétti vettvangurinn, en því má örugglega gleyma í bili.

Þú vonandi manst eftir því næst þegar þú talar í nafni félagsins, kæri formaður, að það sem er þín persónulega skoðun hverju sinni er ekki alltaf rétt, og þótt þér persónulega finnist eitthvað ástæðulaust, þá á það kannski ekki við undir nafni SKOTVÍS því það væri afar dapurlegt ef félagið færi að skerða hagsmuni þeirra skotveiðimanna sem eru hvað virkastir við skotveiðar, ekki satt?

KJARTAN INGI LORANGE,

veiðimaður og félagi í Skotvís,

Egilsgötu 18, Reykjavík.