Kammerkór Hafnarfjarðar og Þórunn Guðmundsdóttir sópran flytja jólatónlist. Stjórnandi: Helgi Bragason. Gunnar Gunnarsson (þverflauta), Ástríður Alda Sigurðardóttir (píanó), Lenka Mátéová (orgel), Þröstur Þorbjörnsson (gítar), Jón Björgvinsson (slagverk), Helga Loftsdóttir (mezzosópran).
Heims um ból
TÓNLIST
Hljómdiskar
GAUDETE!/FAGNIÐ!
Kammerkór Hafnarfjarðar og Þórunn Guðmundsdóttir sópran flytja
jólatónlist. Stjórnandi: Helgi Bragason. Gunnar Gunnarsson (þverflauta), Ástríður Alda Sigurðardóttir (píanó), Lenka Mátéová (orgel), Þröstur Þorbjörnsson (gítar), Jón Björgvinsson (slagverk), Helga Loftsdóttir (mezzosópran). Kvartett: Berglind Ragnarsdóttir (sópran), Helga Loftsdóttir (mezzosópran), Eyjólfur Eyjólfsson (tenór), og Rúnar Matthíasson (bassi). Hljóðritað í október og nóvember 1998 í sal Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og í Víðistaðakirkju. Stjórn upptöku: Bjarni Rúnar Bjarnason og Hreinn Valdimarsson. Hljóðvinnsla: Bjarni Rúnar Bjarnason. 1998 Kammerkór Hafnarfjarðar.
HÉR er víða komið við, bæði í tíma og rúmi flest þó gamalt. Tíminn spannar u.þ.b. 6 aldir, og rúmið nánast heims um ból. Þetta er í alla staði vandaður og mjög vel heppnaður "jóladiskur", áhugaverð, fjölbreytt og falleg söngskrá (líka löng á annan klukkutíma). Kammerkór Hafnarfjarðar var stofnaður 1996 og "leitast við að syngja andleg og veraldleg verk frá hinum ýmsum tímum, innlend og erlend". Þetta er fyrsta geislaplata Kammerkórsins, og hér höfum við andlegu verkin, flest erlend. Platan hefst á fagnaðartónum frá 1582 fyrir einsöng, slagverk, kvartett og kór, listilega vel flutt, og endar á Kvæðinu um Kristlíkamann, ensku þjóðlagi (Trond Kverno). Raunar gæti ég talið upp fjölmargt sem heillaði mig sérstaklega af þessum tuttugu og þremur indælu og sumum meitluðum lögum, svo sem lög Franks Martins (Helgimynd og Hjarðmennirnir), lag Eyþórs Stefánssonar (Ó, Jesúbarn), lag Grubers, Heims um ból (Blíða nótt, blessaða nótt) með fallegum gítarundirleik og "öðruvísi" sungið af dúett og kvenröddum. Mjög vel gert! Útsetningar Þorkels Sigurbjörnssonar á þremur þjóðlögum (frönsku, ensku og dönsku) fyrir einsöng og þverflautu hljóma unaðslega; einnig ameríska þjóðlagið Ég hugsandi reika, þar sem Þórunn Guðmundsdóttir syngur án undirleiks aldeilis frábærlega (eins og hún gerir víðast hvar á plötunni!). En hæst ber Ave Mariu Antons Bruckners, því þar fer saman yndislega tær tónsmíð og trúarvissa, sem ekkert haggar.
Ég vil óska kórnum, einsöngvara og öðrum sem hér eiga hlut að máli, söngvurum, hljóðfæraleikurum og upptökumeisturum, en þó ekki síst stjórnandanum, sem greinilega hefur unnið frábært starf, til hamingju með fyrsta hljómdiskinn. Kammerkór Hafnarfjarðar er hérmeð kominn í hóp "hinna útvöldu".
Gleðileg jól!
Oddur Björnsson