Í GREIN sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga ritar í Morgunblaðið hinn 9. desember sl. ræðst hann harkalega að undirrituðum. Það er ekki ætlun mín að elta ólar við allt sem fram kemur í greininni heldur benda á nokkur atriði sem ættu að varpa ljósi á það sem málið snýst um.
Enn um málefni grunnskólans

Með samningum tóku sveitarfélögin í raun á sig bótalaust, segir Eiríkur Jónsson , að leiðrétta það launasvelti sem kennarar voru í.

Í GREIN sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga ritar í Morgunblaðið hinn 9. desember sl. ræðst hann harkalega að undirrituðum. Það er ekki ætlun mín að elta ólar við allt sem fram kemur í greininni heldur benda á nokkur atriði sem ættu að varpa ljósi á það sem málið snýst um. Launakröfur kennara Í upphafi greinarinnar fjallar formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um að undirritaður fullyrði út og suður um væntanlegar launakröfur kennara og mistök í samningagerð ríkis og sveitarfélaga vegna yfirtöku sveitarfélaganna á rekstri grunnskóla ásamt því að vera með ásakanir í minn garð um rangfærslur. Varðandi ummæli mín um væntanlegar kröfur kennara í samningum árið 2000 er það eitt að segja að þar er ekkert nýtt á ferðinni heldur einungis undirstrikað enn og aftur að laun kennara verða að hækka verulega í þeim samningum ef ætlunin er að fá kennara til starfa í skólunum. Ég hef hins vegar aldrei haldið því fram að laun kennara eigi að hækka sérstaklega umfram laun annarra stétta heldur þvert á móti fagnað því ef aðrir hópar ná árangri í sinni kjarabaráttu. Staðreynd málsins er sú að langflestir hópar launafólks eru allt of lágt launaðir. Samningur ríkis og sveitarfélaga Hvað varðar þau mistök sem ég tel að hafi verið gerð þegar samið var um flutning tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga vil ég benda á eftirfarandi staðreynd. Það ár sem lagt var til grundvallar til að finna út raunverulegan kostnað við rekstur grunnskóla voru laun kennara í sögulegu lágmarki. Þess vegna var sá grunnur sem útreikningarnir byggðust á langt undir þeim mörkum sem eðlileg máttu teljast. Með samningnum tóku sveitarfélögin í raun á sig bótalaust að leiðrétta það launasvelti sem kennarar voru í á síðustu árum sínum hjá ríkinu. Á þessa staðreynd benti ég formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga ítrekað áður en samningar um tekjustofna voru undirritaðir en talaði jafnan fyrir daufum eyrum. Ég hef aldrei sagt að útreikningar sveitarfélaganna á kostnaðarauka við rekstur grunnskóla til aldamóta séu rangir heldur einungis að grunnurinn sem byggt var á hafi verið rangur. Ásakanir um óheilindi Í grein sinni hefur formaður sambandsins mörg orð um óheilindi mín hvað varðar aðkomu að samningagerð fyrir kennara bæði í þeim samningum sem undirritaðir voru fyrir ári og í þeim viðræðum sem fram hafa farið milli einstakra kennarahópa og viðkomandi sveitarstjórna. Þetta gerir formaðurinn þrátt fyrir að hann hafi ekki tekið þátt í þessum viðræðum og viti þar af leiðandi ekki nema hálfan sannleikann í málinu. Ég er borinn þeim sökum að ég stýri uppsögnum kennara og í því sambandi bent á að formaður Kennarasambandsins hafi setið fundi með fulltrúum kennara og bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi til að knýja á um meiri launahækkanir en kjarasamningar kveða á um. Mér er það sönn ánægja að upplýsa formann Sambands íslenskra sveitarfélaga um það með hvaða hætti það bar að að ég mætti til fundar á Seltjarnarnesi. Sannleikurinn er sá að bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi boðaði fulltrúa kennara á fund með svohljóðandi símbréfi hinn 6. maí sl.: "Fjárhagsnefnd fundar n.k. fimmtudag kl. 13. Gert er ráð fyrir fulltrúum kennara á fundinn. Óskað er eftir því að kennarar hafi með sér launafulltrúa Kennarasambandsins ef hægt er." Bæjarstjóri. Þarna er skýringin á því hvers vegna Kennarasambandið hóf beina þátttöku í þeim viðræðum sem fram fóru á Seltjarnarnesi. Kennarasamband Íslands hefur ekki og mun ekki hafa frumkvæði að því að knýja á um gerð viðbótarsamninga í einstaka sveitarfélögum né heldur því hvort einstakir kennarar segja upp starfi sínu. Hins vegar mun Kennarasambandið ætíð aðstoða einstaklinga og hópa innan Kennarasambands Íslands við úrlausn vandamála sem upp koma á hverjum stað fyrir sig. Að ala á ófriði Að lokum vil ég benda á að það viðtal við mig sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga vitnar í í grein sinni var í rauninni ekki annað en svör mín við spurningum blaðamanns sem hann setti fram vegna ummæla nokkurra sveitarstjórnarmanna í minn garð í fjölmiðlum og á fundum á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég mun eftirleiðis sem hingað til svara fyrir mig þegar á mig er ráðist. Ég kýs hins vegar að gera það á málefnalegan hátt þrátt fyrir að umrædd grein formanns Sambands íslenkra sveitarfélaga gefi tilefni til annars. Ef Samband íslenskra sveitarfélaga vill hins vegar ala á ófriði milli kennara og sveitarstjórnarmanna er besta ráðið að formaðurinn skrifi áfram blaðagreinar í þeim anda sem hann gerði hinn 9. desember sl. Ég fullyrði hins vegar að greinar af þessu tagi munu leiða til þess eins að þjappa kennurum enn frekar saman því stéttin er sterk og lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Síst af öllu óttast kennarastéttin hótanir formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Höfundur er formaður Kennarasambands Íslands.

Eiríkur Jónsson