Hvalur í heimsreisu. Texti: Kristín Helga Gunnarsdóttir. Myndir: Stíll ehf. Hallgrímur Ingólfsson og Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Umbrot: Stíll. Prentun: Oddi. Útgefandi. Bókaútgáfan Vöxtur. VINIR, sagnaþulan og lesandinn, fara dag einn í dýragarðinn í Lúmín í Lúmínlana. Hitinn er mikill, svo steikja má egg á steinum gangstétta.

Í leit að pabba

og mömmu

BÆKUR

Myndasaga

KEIKÓ

Hvalur í heimsreisu. Texti: Kristín Helga Gunnarsdóttir. Myndir: Stíll ehf. Hallgrímur Ingólfsson og Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Umbrot: Stíll. Prentun: Oddi. Útgefandi. Bókaútgáfan Vöxtur.

VINIR, sagnaþulan og lesandinn, fara dag einn í dýragarðinn í Lúmín í Lúmínlana. Hitinn er mikill, svo steikja má egg á steinum gangstétta. Vansæl leita dýr í skjól skuggans, og sviti drýpur af mörgum manni. Fnykur fangabúða leikur um dýr og gest. Já, sum dýranna eru máttlaus af hita, önnur ærð af rimlum búranna. Vinirnir koma sér í skjól með kæli við tungu.

Þá hefst sagan, sagan af háhyrningnum. Hann er fangaður við Ísland sem "lítið" peð; seldur úr landi í faðm græðginnar, sem ber hann frá Ontaríóríki til Mexíkó. Honum líður illa, ekki aðeins frelsi sviptur, heldur nafni líka: Siggi Kagó Keikó. Sjálfsagt skiptu nafnbreytingar hann litlu, hitt meir, að svo illa var að dýrinu búið, að það hélt ekki kröftum, bakhyrnan afmyndaðist vegna vannæringar.

Þrátt fyrir illa meðferð heldur Keikó ljúflyndi sínu, rís aldrei í móti svipuhöggum gróðafíknar. Hann er færður í stjörnubúning kvikmyndaleikara, gerir hlutverki sínu þau skil, að þeir er sáu, áttu ekki orð til að lýsa hrifni sinni. Keikó var ekki lengur rándýr norðan úr höfum, ­ heldur hetja, ­ hetja þeirra er höfðu séð hann á tjaldi, ­ hetja er leitar frelsis, því þreki gædd, að engin hindrun getur aftrað för. Slík hetja á aðdáun fólks vísa, og það tók að spyrja: Hvar ertu vinur? Í fangelsi? Slíkt getur ekki verið! Ólíðandi! Hér eru peningar til að opna lúgu búrsins, og þjálfa vin til frelsis ­ sundsins. Um Nýhöfn í Óregón til Vestmannaeyja lá leið. Hver sögulok verða, veit enn enginn.

Vinir leiðast úr garði í Lúmín. Vel get eg skilið, að Free Willy Keikó Foundation hafi viljað samvinnu um útgáfu sögunnar, þeim líka ætlaður hluti í hagnaði. Og hann er líklegur, því að höfundi tekst að snerta hörpu tilfinninga lesandans, ­ vekja samúð með dýrum, benda á, hvernig slægasta rándýri jarðar, ­ MANNINUM, tekst að pynta önnur dýr, bræður og systur, sjálfu sér til skemmtunar.

Myndir eru sterkar og áhrifaríkar, hæfa efni bókar mjög vel. Augljóslega er bók ætluð ungum lesendum, því er letur á síðum alltof smátt, trafali óvönum augum. Annar frágangur allur útgáfunni til sóma.

Sig. Haukur

Kristín Helga Gunnarsdóttir