Vill réttarhöld í
hlutlausu landi
London. Reuters.
ÞING Líbýu samþykkti í gær ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi
við áform um að tveir Líbýumenn, sem eru eftirlýstir vegna Lockerbie- tilræðisins, verði sóttir til saka í hlutlausu landi. Bresk og bandarísk stjórnvöld brugðust varfærnislega við þingsályktuninni, sögðu hana skref í rétta átt en vöruðu við of mikilli bjartsýni á að mennirnir yrðu framseldir.
"Þetta eru góð tíðindi, ef þetta er rétt. En sem stendur eru þetta aðeins fréttir í fjölmiðlum. Við verðum að vera varkár þar til við fáum formleg svör," sagði talsmaður breska utanríkisráðuneytisins.
Líbýska sjónvarpið sagði að þingið hefði einnig hvatt stjórnvöld í Líbýu, Bretlandi og Bandaríkjunum til að "fjarlægja eins fljótt og auðið er allar hindranir sem hafa komið í veg fyrir að mennirnir verði leiddir fyrir rétt".
Deilt um hvar mennirnir eigi að afplána dómana
Bretar og Bandaríkjamenn hafa fallist á að réttað verði yfir mönnunum í Hollandi en krafist þess að þeir afpláni fangelsisdómana í Skotlandi, verði þeir fundnir sekir um tilræðið. Líbýumenn hafa ekki fallist á þá kröfu.
Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að samþykkt líbýska þingsins væri skref í rétta átt og kvaðst ætla að leita eftir frekari upplýsingum um hana hjá sendiherra Líbýu.
Líbýumennirnir tveir eru grunaðir um að hafa komið fyrir sprengju í bandarískri farþegaþotu sem sprakk í loft upp yfir skoska bænum Lockerbie fyrir tæpum tíu árum. 270 manns biðu bana í tilræðinu.